Að hefja samband með hjónaband í huga
Sjónarmið Biblíunnar
Að hefja samband með hjónaband í huga
Julie og Lee voru staðráðin í því að halda sér siðferðilega hreinum í tilhugalífinu. * En kvöld eitt þegar þau voru ein fóru kynferðislegar tilfinningar að magnast upp. Sem betur fer áttuðu þau sig áður en þau gengu of langt og drýgðu alvarlega synd.
ÞAÐ er meira fólgið í sannri tilbeiðslu en það eitt að sækja trúarlegar samkomur í hverri viku. Sönn tilbeiðsla er lífsstefna sem hefur áhrif á breytni fólks og siðferðisviðmið. Jesús Kristur sagði að aðeins sá sem „gerir vilja“ Guðs hafi velþóknun hans. (Matteus 7:21) Til að þóknast Guði verða samskipti okkar við hitt kynið að vera heiðvirð og par í tilhugalífi ætti að stefna að hjónabandi.
Hvernig getið þið haldið sambandi ykkar hreinu í augum Guðs þrátt fyrir þann þrýsting í samfélaginu að pör láti siðferðishömlur lönd og leið? Í fyrsta lagi verðið þið að gera ykkur grein fyrir því að siðferðisreglur Guðs eru okkur til góðs. Í öðru lagi er mikilvægt að viðurkenna sannleikann um mannlegt eðli. Í þriðja lagi þurfið þið að setja ykkur skýrar hegðunarreglur. Og í fjórða lagi ættuð þið að hafa Guð með í sambandi ykkar. Skoðum þessi atriði hvert fyrir sig.
Siðferðisreglur sérsniðnar að þörfum okkar
Í Jesaja 48:17, 18 segir: „Ég er Drottinn, Guð þinn, sem kenni þér það sem gagnlegt er, leiði þig þann veg sem þú skalt ganga. Aðeins ef þú hefðir gefið gaum að boðum mínum væri hamingja þín sem fljót og réttlæti þitt eins og öldur hafsins.“
Já, boðin og meginreglurnar í innblásnu orði Guðs, Heilagri Biblíu, eru okkur til góðs. (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Þessi boð eru til merkis um að skapara okkar sé annt um okkur og vilji að við séum hamingjusöm og okkur farnist vel á öllum sviðum lífsins. (Sálmur 19:8-11) Líður þér þannig í hjarta þínu? Ef svo er sýnirðu sanna visku.
Viðurkenndu sannleikann um sjálfan þig
Jehóva er hreinskilinn við okkur eins og sönnum vini ber. Hann segir okkur sannleikann um okkur sjálf. Í orði hans er til dæmis að finna þessa viðvörun: „Svikult er hjartað framar öllu öðru og forhert. Hver skilur það?“ (Jeremía 17:9) Í Biblíunni segir líka: „Sá sem treystir á eigið hyggjuvit er heimskingi en sá sem breytir viturlega mun bjargast.“ — Orðskviðirnir 28:26.
Hvernig gæti par í tilhugalífinu farið að treysta eigin hjarta? Til dæmis með því að leyfa sér að lenda í aðstæðum þar sem þau gætu freistast til að verða of innileg, eins og parið sem minnst var á í byrjun greinarinnar. Þau gætu einnig átt til að hunsa viturlegar ráðleggingar guðhræddra foreldra. Foreldrar vita að þegar fólk er ungt getur kynhvötin verið eins og öflug vél sem þarf að hafa góða stjórn á.
Ungur maður eða kona, sem „breytir viturlega“, tekur leiðbeiningar foreldra sinna alvarlega. Já, þau taka til sín ráð foreldra sem elska þau nógu mikið til að segja það sem sonur þeirra eða dóttir vill kannski ekki heyra. Sá sem elskar þig mest er að sjálfsögðu Jehóva Guð, faðir þinn á himnum, og hann segir þér: „Vísaðu gremju burt frá hjarta þínu og láttu ekki böl koma nærri líkama þínum.“ (Prédikarinn 11:9, 10) Hvernig geturðu gert það? Með því að láta ekki undan óviðeigandi löngunum.
Setjið ykkur skýrar hegðunarreglur
„Áform verða að engu þar sem engin er ráðagerðin en ef margir leggja á ráðin rætast þau.“ (Orðskviðirnir 15:22) Snemma í sambandinu fylgja skynsöm pör þessum orðum með því að setja því hömlur hve langt þau ganga í því að sýna hvort öðru væntumþykju og vera staðráðin í að halda sér innan þess ramma. Að vera of nærgöngul hvort við annað eða of sjálfsörugg er eins og að keyra glannalega. Það er of seint að einsetja sér að keyra varlega þegar verið er að draga mann út úr bílhræi!
„Vitur maður [eða kona] sér ógæfuna og felur sig,“ segir í Biblíunni. „Einfeldningarnir halda áfram og gjalda þess.“ (Orðskviðirnir 22:3) Pör geta forðast mikil vandræði með því að vera saman í heilnæmum vinahópi eða hafa viðeigandi siðgæðisvörð. Sá sem er óskynsamur í tilhugalífinu gæti þurft að gjalda þess. Hann gæti til dæmis skaðað samvisku sína, tapað virðingu fyrir sjálfum sér og hinum aðilanum og kallað skömm yfir alla sem hlut eiga að málinu, þar á meðal fjölskylduna. Verið því vitur og ákveðið að fylgja meginreglum Biblíunnar og halda ykkur fast við þær.
Látið Jehóva vera,þriðja þráðinn‘
Hjónabandið er eins og þrefaldur þráður þar sem Guð er sterkasta bandið. „Þrefaldan þráð er torvelt að slíta,“ segir í Prédikaranum 4:12. Sama meginregla gildir um par í tilhugalífinu. Pör sem vilja að Guð blessi samband þeirra hljóta blessun hans þegar þau hvort um sig styrkja sambandið við hann. Í Sálmi 1:1-3 segir: „Sæll er sá sem eigi fer að ráðum óguðlegra . . . heldur hefur yndi af leiðsögn Drottins og hugleiðir lögmál hans dag og nótt . . . Allt, sem hann gerir, lánast honum.“
Já, okkur lánast vel í lífinu, þar á meðal í tilhugalífi og hjónabandi, þegar við fylgjum leiðbeiningum Jehóva. Hann er skapari okkar og aðdráttarafl kynjanna og hjónabandið eru dýrmætar gjafir frá honum. Sem slíkar verðskulda þær alla okkar virðingu. — Jakobsbréfið 1:17.
[Neðanmáls]
^ Sumum nöfnum hefur verið breytt.
HEFURÐU VELT FYRIR ÞÉR?
● Hvernig vitum við að Guð vilji okkur allt það besta? — Jesaja 48:17, 18.
● Hvaða sannleik um okkur sjálf verðum við að viðurkenna? — Jeremía 17:9.
● Hvernig getur okkur lánast vel í tilhugalífinu og seinna í hjónabandinu? — Sálmur 1:1-3.
[Mynd á bls. 21]
Snemma í sambandinu setja skynsöm pör því hömlur hve langt þau ganga í því að sýna hvort öðru væntumþykju og eru staðráðin í að halda sér innan þess ramma.