Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

„Fólk sem reykir ekki, hreyfir sig nægilega, notar áfengi í hófi og borðar að minnsta kosti fimm skammta af ávöxtum eða grænmeti á dag lifir að meðaltali 14 árum lengur en þeir sem gera ekkert af þessu.“ Þessi niðurstaða er byggð á rannsókn sem stóð í 11 ár og náði til 20.000 manns. — UC BERKELEY WELLNESS LETTER, BANDARÍKJUNUM.

„Besta leiðin til að slaka á er að lesa . . . Jafnvel sex mínútur á dag nægja til að draga úr streitu um meira en tvo þriðju.“ — INDIA TODAY INTERNATIONAL, INDLANDI.

Yfirgefin „leikföng“

„Efnahagskreppan hefur gert að verkum að til er orðinn heill floti af yfirgefnum bátum“ í Bandaríkjunum. Þetta kemur fram í dagblaðinu The New York Times. Eigendur raspa nöfn af bátum sínum með sandpappír, fjarlægja skráningarnúmer og skilja þá svo eftir eða sökkva þeim, stundum í því augnamiði að krefjast bóta frá tryggingafélagi. Af hverju gerist þetta? „Sumir . . . eru í sömu ógöngum og húseigendur í vanskilum. Þeir þurfa að greiða háar afborganir af eignum sem falla í verði og ákveða að hætta því,“ að sögn dagblaðsins. Það kallar bátana „leikföng sem eru dýr í rekstri og ekki lengur áhugaverð“. Síðan segir í dagblaðinu: „Eigendur geta ekki selt þá af því að markaðurinn fyrir notaða báta er yfirfullur. Þeir hafa ekki efni á að eyða hundruðum dollara á mánuði í hafnargjöld og viðhald. Og þeir eiga ekki þær þúsundir dollara sem þarf til að losa sig við þá með eðlilegum hætti.“

Líkamsmynd barna á forskólaaldri

Börn, allt niður í fjögurra ára, „reyna að breyta útliti sínu í samræmi við þá staðalímynd sem þjóðfélagið aðhyllist“. Þetta kemur fram í blaðinu Sunday Telegraph í Sydney í Ástralíu. Rannsóknir á mataræði og hreyfingu hafa leitt í ljós að bæði strákar og stelpur láta sér umhugað um líkamsvöxt sinn. Stelpur vilja léttast og strákar safna vöðvum. „Börn virðast endurspegla hugmyndir mæðra sinna um líkamsvöxt en þær voru yfirleitt óánægðar með líkama sinn,“ segja þeir sem unnu að rannsókninni.

Börn versla á Netinu

„Fimmtungur barna [á Bretlandseyjum] verslar á Netinu án leyfis foreldra sinna, og helmingur þeirra sem versla þar nota kreditkort foreldranna.“ Þetta kemur fram í Lundúnablaðinu The Daily Telegraph. Fjöldi barna þekkir vefsíðurnar og aðgangsorðin sem foreldrarnir nota til að versla á Netinu, og þau hafa því oft greiðan aðgang að kreditkortanúmerum þeirra. Fáir foreldrar ímynda sér að börnin þeirra geti verslað á Netinu án samþykkis þeirra. Að sögn blaðsins er „uggvekjandi munur“ á því hvað foreldrarnir halda að börnin viti og hvað börnin vita í raun og veru. Þetta hátterni barnanna gerir meðal annars að verkum að foreldrarnir eiga á hættu að verða svikurum að bráð. Foreldrum, sem versla á Netinu, er ráðlagt eftirfarandi: „Geymið ekki kredit- eða debetkortanúmer á Netinu“, notið aðeins heiðarlegar vefsíður og „skráið ykkur út af síðunum þegar viðskiptum er lokið“.