Mikilvægi þess að sýna ást og umhyggju
Mikilvægi þess að sýna ást og umhyggju
„FAÐMAÐU þau mikið!“ sagði prófessor í barnageðlækningum við nýbakaða móður sem hafði eignast tvíbura. Hún hafði leitað ráða hjá honum um hvernig best væri að ala upp börnin. „Sýna þarf ást og umhyggju á marga vegu,“ bætti prófessorinn við. „Til dæmis með faðmlögum og kossum, hlýju, skilningi, gleði, örlæti, fyrirgefningu, og aga þegar tilefni er til. Við ættum aldrei að gera ráð fyrir því að börnin viti að við elskum þau.“
Tiffany Field vinnur við háskólann í Miami í Flórída og er forstjóri deildar sem rannsakar áhrif snertingar á fólk. Hún virðist sammála ráðunum hér að ofan. „Snerting er jafn mikilvæg fyrir vöxt og velferð barna eins og hollt mataræði og hreyfing,“ segir hún.
Þurfa fullorðnir líka að finna fyrir ást og umhyggju annarra? Já. Eftir rannsóknir sínar komst sálfræðingurinn Claude Steiner að þeirri niðurstöðu að umhyggja í orði og verki sé mikilvæg fyrir tilfinningalega velferð okkar á hvaða aldri sem er. Laura er hjúkrunarfræðingur sem annast stóran hóp aldraðra. Hún segir: „Ég hef séð að umhyggja gagnvart öldruðum hefur mjög mikið að segja. Ef maður er vingjarnlegur við þá og snertir þá ávinnur maður sér traust þeirra og þá eru þeir fúsir til að fylgja leiðbeiningum manns. Enn fremur sýnir slík umhyggja að maður virðir reisn þeirra.“
Auk þess hefur sá sem sýnir umhyggjuna jafn gott af því og sá sem nýtur hennar. Jesús Kristur sagði einu sinni: „Sælla er að gefa en þiggja.“ (Postulasagan 20:35) Það er sérstaklega gefandi að sýna umhyggju í garð þeirra sem eru áhyggjufullir, niðurdregnir eða óöruggir. Margar frásögur í Biblíunni lýsa því þegar slíkir einstaklingar fengu þess konar hjálp.
Ímyndaðu þér hversu hughreystandi það hefur verið fyrir mann, sem var „altekinn líkþrá“ og útskúfaður úr samfélaginu, að finna hlýlega snertingu frá engum öðrum en Jesú Kristi. — Lúkas 5:12, 13; Matteus 8:1-3.
Hugsaðu þér hve styrkjandi það hlýtur að hafa verið fyrir hinn aldraða Daníel spámann að finna engil Guðs snerta sig þrisvar og uppörva með hlýlegum orðum. Þessi innilega snerting og uppbyggjandi orð voru einmitt það sem Daníel þurfti til að ná líkamlegum og andlegum þrótti á ný. — Daníel 10:9-11, 15, 16, 18, 19.
Einu sinni ferðuðust góðir vinir Páls postula 50 kílómetra, frá Efesus til Míletus, til að hitta hann. Þar sagði Páll þeim að þeir myndu kannski ekki sjá hann framar. Það hlýtur að hafa verið mjög uppörvandi fyrir postulann þegar dyggir vinir hans „féllu um háls [honum] og kysstu hann“. — Postulasagan 20:36, 37.
Það má því segja að bæði Biblían og nútímarannsóknir hvetji okkur til að sýna hvert öðru ást og umhyggju. Þegar við svölum þessari þörf er það til góðs fyrir okkur bæði líkamlega og tilfinningalega. Einlæg en jafnframt viðeigandi umhyggja í verki er því ekki bara mikilvæg fyrir börn.