Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Náttúran varð fyrri til

Náttúran varð fyrri til

Náttúran varð fyrri til

„Spyrðu . . . fugla himins og þeir munu skýra þér frá . . . að hönd Drottins hefur gert þetta.“ — Jobsbók 12:7-9.

FUGLAR virðast vera sérhannaðir til að fljúga, hvernig sem á þá er litið. Stafurinn í flugfjöðrum fugla þarf til dæmis að bera þunga fuglsins þegar hann flýgur. Hvernig geta vængirnir verið jafn léttir og raun ber vitni en jafnframt nógu sterkir? Ef skorið er gegnum fjöðurstaf kemur ýmislegt athyglisvert í ljós. Hann er með hörðu yfirborði en frauðkenndur að innan. Verkfræðingar hafa rannsakað fjöðurstafi og nota burðarbita af svipaðri gerð við smíði flugvéla.

Beinagerð fugla er einnig sérstæð. Flest beinin eru hol að innan og í sumum eru kraftsperrur af vissri gerð sem verkfræðingar kalla Warren-gerð. Svipuð hönnun var notuð við smíði á vængjum geimskutlunnar.

Flugmaður notar fáein vængbörð á vængjum og stéli flugvélar til að halda henni í jafnvægi. Fugl notar hins vegar eina 48 vöðva á vængjum og baki til að breyta stellingu og hreyfingu vængja og einstakra fjaðra og gerir það nokkrum sinnum á sekúndu. Það er ekki nema eðlilegt að flugfimi fuglanna sé öfundarefni flugvélahönnuða.

Flug er mjög orkufrekt, einkum sjálft flugtakið. Fuglar þurfa því öflugan „hreyfil“ sem getur brennt miklu eldsneyti á skömmum tíma. Hjartsláttur fugla er hraðari en hjartsláttur spendýra af svipaðri stærð og þeir eru yfirleitt með stærra og sterkara hjarta. Einnig eru lungu fuglanna öðruvísi en lungu spendýra og eru afkastameiri vegna þess að þau eru með gegnumstreymi.

Margir fuglar eru gerðir til að bera nægilegt eldsneyti til að fljúga óralangar leiðir. Moldþröstur léttist um helming á tíu tíma farflugi. Þegar lappajaðrakan leggur af stað frá Alaska til Nýja-Sjálands er rúmlega helmingur líkamsþungans fita. Svo ótrúlegt sem það er getur fuglinn flogið óslitið í hér um bil 190 klukkustundir (átta daga). Engin farþegaflugvél getur leikið það eftir.