Náttúran varð fyrri til
Náttúran varð fyrri til
„Jafnvel storkurinn í loftinu þekkir sinn ákveðna tíma.“ — Jeremía 8:7.
JEREMÍA minntist á farflug storksins fyrir rúmlega 2.500 árum. Enn þann dag í dag dáist fólk að farferðum dýranna, svo sem laxinum sem getur synt þúsundir kílómetra um reginhaf og snúið síðan aftur í ána þar sem hann klaktist út, og leðurskjaldbökunni sem getur einnig ferðast ótrúlegar vegalengdir. Fylgst var með einni sem átti sér bú í Indónesíu á 20.000 kílómetra farferð hennar að strönd Oregon í Bandaríkjunum. Leðurskjaldbökur snúa oft til sama svæðis í Indónesíu til að gera sér bú að nýju.
Ratvísi sumra dýra er slík að hún má teljast enn merkilegri en hjá þeim dýrum sem flytjast búferlum eftir árstíðum. Lítum á dæmi. Vísindamenn fluttu 18 albatrosa flugleiðis þúsundir kílómetra frá lítilli eyju í miðju Kyrrahafi. Sumum fuglanna var sleppt við útjaðar Kyrrahafsins í vestri og sumum við útjaðar þess í austri. Flestir af fuglunum voru komnir heim fáeinum vikum síðar.
Dúfur hafa verið fluttar á ókunnar slóðir meira en 150 kílómetra frá heimkynnum sínum, ýmist svæfðar djúpt eða í tunnum sem hringsnerust á leiðinni. Eftir að hafa flogið í nokkra hringi tókst dúfunum að gera staðarákvörðun og tóku síðan flugið rakleiðis heim. Þar sem dúfur geta ratað heim þótt settar séu mattar linsur yfir augu þeirra telja vísindamenn að þær skynji úr hvaða áttum þær fái ýmsar mikilvægar upplýsingar sem þær nota til að staðsetja sig miðað við heimaslóðir.
Kóngafiðrildi víða í Norður-Ameríku fljúga suður á bóginn meira en 1.500 kílómetra leið og safnast saman á litlu svæði í Mexíkó. Þau rata til Mexíkó jafnvel þó að þau hafi aldrei komið þangað áður og finna oft tréð þar sem forfeður þeirra í þriðja lið hvíldust árið áður. Ratvísi þeirra er vísindamönnum ráðgáta.
Sjálfvirk leiðsögutæki okkar mannanna eru algerlega háð gervihnöttum en mörg dýr virðast geta notað ýmsa leiðarvísa til að rata, allt frá kennileitum og sólinni upp í segulsvið, lykt og jafnvel hljóð. James L. Gould, prófessor í líffræði, skrifar: „Dýr, sem eiga líf sitt undir nákvæmri ratvísi, eru undantekningarlaust óhóflega vel búin . . . Þau geta yfirleitt beitt fleiri en einni aðferð — þau hafa nokkrar aðferðir til vara og geta skipt milli þeirra eftir því hver þeirra veitir öruggustu upplýsingarnar.“ Það er vísindamönnum hrein ráðgáta hvernig dýrin geta notað svona flóknar aðferðir til að rata.