SS-foringi verður þjónn hins sanna Guðs
SS-foringi verður þjónn hins sanna Guðs
Gottlieb Bernhardt segir frá
Ég var liðsforingi í þýska stormsveitarliðinu, úrvalslífvarðarsveit Hitlers í Wewelsborgarkastala. Í apríl 1945 fékk ég skipun um að taka af lífi fanga í nærliggjandi fangabúðum. Þetta voru vottar Jehóva. Í SS-sveitunum var krafist skilyrðislausrar hlýðni við yfirboðara. Nú var úr vöndu að ráða. Ég ætla að útskýra hvers vegna.
ÉG FÆDDIST í Þýskalandi árið 1922 í þorpi nálægt ánni Rín. Þótt strangkaþólsk trú hafi ríkt á þessu svæði tilheyrði fjölskylda okkar trúarhreyfingu píetista sem kom fram á 17. öld. Hitler komst til valda í Þýskalandi árið 1933 þegar ég var 11 ára. Nokkrum árum síðar var ég valinn til að sækja menntastofnun nálægt Marienburg, núverandi Malbork í Póllandi, vegna þess að ég skaraði fram úr bæði í námi og íþróttum. Þar, mörg hundruð kílómetra frá heimaslóðum, sökkti ég mér niður í hugmyndafræði þjóðernissósíalista, nasismann. Það sem nemendum var meðal annars kennt snerist um heiður, kostgæfni, hollustu, hlýðni, skyldurækni og afar djúpa virðingu fyrir þýskri arfleifð.
Síðari heimsstyrjöldin og SS-sveitirnar
Þegar síðari heimsstyrjöldin braust út 1939 skráði ég mig í SS-lífvarðarsveit Adolfs Hitlers (Waffen-SS Leibstandarte), úrvalshersveit undir stjórn Hitlers sjálfs. Sveitin sá opinberum embættismönnum fyrir lífvörðum og var notuð til sérstakra hernaðaraðgerða. Ég var sjónarvottur að bardögum í Belgíu, Frakklandi, Hollandi, Rúmeníu, Búlgaríu og Grikklandi. Þegar ég var í Búlgaríu sótti ég guðsþjónustu hjá herpresti. Ég velti fyrir mér hvort sams konar guðsþjónustur væru haldnar meðal óvinaherjanna. Skyldi Guð leggja blessun sína yfir stríð? hugsaði ég. Tekur hann afstöðu?
Seinna var ég valinn til að fara í Junkerschule, skóla fyrir unga menn sem ætlaðir voru til að gegna háum embættum í hernum. Eftir það var ég látinn í sveit sem stóð vörð um aðalstöðvar ríkisins í Berlín. Þar sá ég einu sinni Hitler öskra opinberlega á háttsettan stjórnmálamann. Ég hugsaði með mér: „Þetta er smánarleg framkoma.“ En ég þorði ekki að segja það upphátt.
Í Berlín hitti ég Inge sem vann einnig á höfuðstöðvunum. Þegar til stóð að við gengjum í hjónaband var sveitin, sem ég var í, skyndilega flutt flugleiðis til víglínunnar í Rússlandi — án viðeigandi vetrarklæðnaðar! Við hermennirnir urðum dauðskelkaðir því að veturinn 1941 til 1942 var frostið stundum 30 gráður. Þar var
mér veittur Járnkrossinn í annað sinn. Seinna var flogið með mig til Þýskalands þar sem ég hafði særst alvarlega. Við Inge giftumst 1943.Næst var ég sendur til Obersalzberg, aðalstöðva Hitlers í fjöllum Bæjaralands. Þar var einnig staddur Heinrich Himmler, yfirmaður SS-sveitanna. Hann gerði ráðstafanir til þess að ég fengi meðferð hjá einkanuddara sínum og lækni, Felix Kersten. Seinna fékk ég að vita að Kersten átti landareign sem kölluð var Hartzwalde og var nálægt Berlín. Þegar leið á stríðið bað hann Himmler að leyfa vottum Jehóva frá nærliggjandi fangabúðum að vinna þar. Himmler féllst á það og Kersten kom fram við vottana af virðingu. Vottur, sem vann fyrir Kersten í Svíþjóð, setti alltaf eintak af Varðturninum í ferðatöskuna hans handa vottunum í Þýskalandi. *
Ég kynnist vottum Jehóva
Síðla árs 1944 setti Himmler mig sem einkaaðstoðarmann SS-hershöfðingja en hann var yfirmaður í Wewelsborgarkastala, 400 ára gömlu virki í grennd við borgina Paderborn. Himmler ætlaði að gera Wewelsborg að miðstöð fyrir hugmyndafræði SS-manna. Í nágrenni virkisins voru litlar fangabúðir, kallaðar Niederhagen. Þær hýstu sérstakan fangahóp, votta Jehóva sem einnig voru kallaðir biblíunemendur.
Ernst Specht, einn af föngunum, kom nokkrum sinnum til að meðhöndla mig vegna áverkanna sem ég hafið fengið. Hann var vanur að segja: „Góðan daginn, herra minn.“
„Hvers vegna segir þú ekki ,Heil Hitler‘?“ spurði ég byrstur.
Hann svaraði kurteislega: „Varst þú alinn upp í kristinni trú?“
„Já,“ sagði ég. „Ég var alinn upp sem píetisti.“
Hann hélt áfram og sagði: „Þá veistu að í Biblíunni er okkur lofað frelsun (heil) aðeins fyrir milligöngu einnar persónu, Jesú Krists. Það er þess vegna sem ég get ekki sagt ,Heil Hitler‘.“
„Hvers vegna ertu hér?“ spurði ég bæði undrandi og hrifinn í senn.
„Ég er biblíunemandi,“ svaraði hann.
Samtölin við Ernst og Erich Nicolaizig, annan vott sem var hárskeri, snertu hjarta mitt. Samræður sem þessar voru samt bannaðar og yfirliðsforinginn skipaði mér að hætta þeim. Ég hugsaði samt með sjálfum mér að Þýskaland ætti að heita kristið land og milljónir
manna tilheyrðu stóru kirkjunum. Ef allir hefðu komið fram eins og vottarnir hefði ekki komið til neinnar styrjaldar. „Þeir hefðu átt að njóta aðdáunar í stað þess að vera ofsóttir,“ hugsaði ég með mér.Um þetta leyti hringdi ekkja í örvæntingu sinni og bað um aðstoð við að flytja son sinn sem þurfti bráðnauðsynlega að komast í botnlangaaðgerð. Ég pantaði strax flutning en yfirmaður minn afturkallaði skipun mína. Hver var ástæðan? Eiginmaður konunnar hafði verið tekinn af lífi en hann tilheyrði hópi sem reyndi að ráða Hitler af dögum í júlí 1944. Drengurinn dó og ég gat ekkert að gert. Þessi atburður kemur róti á samvisku mína enn þann dag í dag.
Þótt ég væri aðeins rúmlega tvítugur fór ég að líta lífið raunsæjum augum — ekki eins og nasistaáróðurinn kynnti það. Á sama tíma jókst aðdáun mín á vottum Jehóva og því sem þeir kenndu. Það leiddi síðan til afdrífaríkustu ákvörðunar í lífi mínu.
Í apríl 1945 nálguðust Bandamenn og yfirforingi minn flúði Wewelsborg. Þá kom sveit manna með skipun frá Himmler um að eyðileggja virkið og drepa fangana. Yfirmaðurinn í nálægum fangabúðum rétti mér nafnalista yfir þá fanga sem átti að taka af lífi — allt vottar. Og af hvaða ástæðu? Þeir vissu víst hvar listaverkadýrgripir voru sem Þriðja ríkið hafði rænt, listaverk sem höfðu verið falin í einhverjum af byggingunum. Þessu leyndarmáli mátti ekki ljóstra upp! Hvernig gat ég brugðist við þessari aftökuskipun?
Ég fór til yfirmanns fangabúðanna og sagði: „Bandarísku hersveitirnar eru á leiðinni. Heldurðu ekki að það væri skynsamlegt fyrir þig og menn þína að fara?“ Hann tók mig á orðinu! Þá gerði ég það sem var óhugsandi fyrir SS-foringja. Ég óhlýðnaðist skipun og vottarnir björguðust.
Heiður að vera bróðir þeirra
Eftir stríðið höfðum við Inge samband við votta Jehóva og fórum heilshugar að kynna okkur Biblíuna. Kona að nafni Auguste og fleiri vottar hjálpuðu okkur. Stríðsáverkarnir, sem ég hafði hlotið, og afleiðingar stríðsins gerðu lífið erfitt fyrir okkur. Við hjónin vígðumst samt Jehóva og létum skírast, ég árið 1948 og Inge árið 1949.
Nokkrir vottar, sem höfðu verið í Wewelsborg á stríðsárunum, komu þangað aftur til endurfunda á sjötta áratugnum. Þar á meðal voru Ernst Specht, Erich Nikolaizig og annar trúfastur fangi, Max Hollweg. Ég lít á það sem mikinn heiður að vera kallaður bróðir þeirra því að þessir hugrökku þjónar Guðs hættu lífinu til að vitna fyrir mér. Martha Niemann, sem hafði verið ritari í Wewelsborg, var líka í hópnum. Hún hafði einnig hrifist af framkomu vottanna og orðið vígður þjónn Jehóva.
Þegar ég lít til baka yfir liðin ár sé ég ótal merki þess að ,allur heimurinn sé á valdi hins vonda‘, Satans djöfulsins — en ég skildi það ekki þegar ég var ungur og óþroskaður hugsjónamaður. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Ég sé einnig greinilega hinn gríðarlega mun milli þess að vera í þjónustu einræðisstjórnar eins var í höndum Hitlers og að þjóna Jehóva. Hið fyrra krefst skilyrðislausrar hlýðni en Jehóva vill aftur á móti að við þjónum honum vegna kærleika sem byggist á nákvæmri þekkingu á eiginleikum hans og fyrirætlun, eins og kemur fram í Biblíunni. (Lúkas 10:27; Jóhannes 17:3) Ég er staðráðinn í að þjóna Jehóva eins lengi og ég lifi.
[Neðanmáls]
^ Sjá Varðturninn á ensku 1. júlí 1972, bls. 399.
[Mynd á bls. 17]
Brúðkaupsmyndin af okkur í febrúar 1943.
[Mynd á bls. 17]
Kastalinn í Wewelsborg átti að verða miðstöð SS-hugmyndafræðinnar.
[Mynd á bls. 18]
Nýleg mynd af okkur Inge.