Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Beinþynning — þögull sjúkdómur

Beinþynning — þögull sjúkdómur

Beinþynning — þögull sjúkdómur

Anna var 19 ára og að ná sér eftir lystarstol þegar hún hné niður með óbærilega verki í baki. Tveir mjóhryggjarliðir höfðu brotnað og hún varð 5 sentímetrum lægri. Orsökin var beinþynning.

BEINÞYNNING þýðir að beinin hafa gisnað. Hún er kölluð þögull sjúkdómur vegna þess að oft eru engin merki um beinþynningu fyrr en beinin eru orðin svo veik að skyndileg áreynsla, högg eða fall veldur beinbroti. Dæmigert er að mjaðmargrind, rifbein, hryggjarliðir eða úlnliðir brotni. Fólk tengir beinþynningu gjarnan við veikburða eldri konur en hún getur líka lagst á ungt fólk eins og dæmið um Önnu sannar.

Alvarlegur sjúkdómur

Alþjóðabeinverndarsamtökin skýra frá því að „á Evrópusambandssvæðinu beinbrotni að jafnaði einhver vegna beinþynningar á 30 sekúndna fresti“. Í Bandaríkjunum eru 10 milljónir með beinþynningu og 34 milljónir til viðbótar eru í hættu að fá hana vegna lítillar beinþéttni. Bandaríska heilbrigðisstofnunin skýrir þar að auki frá því að „fjórði hver karlmaður og önnur hver kona, fimmtug eða eldri, eigi eftir að brotna sökum beinþynningar“. Og það er ekkert útlit fyrir að ástandið batni.

Í fréttabréfi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar segir að áætlað sé að fjöldi beinbrota í heiminum vegna beinþynningar eigi eftir að tvöfaldast næstu 50 árin. Líklega byggist þessi áætlun á því að reiknað er með að öldruðum eigi hlutfallslega eftir að fjölga. Afleiðingarnar eru engu að síður ógnvænlegar. Margir sem þjást af beinþynningu missa starfsgetu sína eða deyja jafnvel. Hátt í fjórðungur þeirra, sem mjaðmarbrotna og eru komnir yfir fimmtugt, deyr innan árs af völdum fylgikvilla.

Ertu í hættu?

Nýlegar rannsóknir sýna að erfðir eru umtalsverður áhættuþáttur. Ef foreldri manns hefur mjaðmarbrotnað eru allt að helmingi meiri líkur á að maður mjaðmarbrotni sjálfur. Annar áhættuþáttur er vannæring á fósturstigi en hún veldur því að beinþéttnin verður minni í barnæsku. Svo hefur aldur líka áhrif. Því eldra sem fólk verður því stökkari verða beinin yfirleitt. Ýmsir sjúkdómar geta einnig ýtt undir beinþynningu. Þetta eru sjúkdómar eins og Cushingssjúkdómur, sykursýki og skjaldkirtilsofvirkni.

Við tíðahvörf hægir á estrógenframleiðslu en það er hormón sem verndar beinmassann. Þess vegna fá nálega fjórfalt fleiri konur beinþynningu en karlar. Þegar eggjastokkar eru fjarlægðir með skurðaðgerð getur skortur á estrógeni leitt til ótímabærra tíðahvarfa.

Áhættuþættir, sem fólk getur sjálft haft áhrif á, eru meðal annars mataræði og lífsstíll. Kalk- og D-vítamínsnauð fæða hefur áhrif á beinrýrnun. Mikil saltneysla getur aukið hættuna því að hún veldur því líkaminn skilur út meira af kalki. Óhófleg áfengisneysla getur einnig stuðlað að beinrýrnun vegna þess að henni fylgja gjarnan slæmar matarvenjur.

Eins og kom fram í inngangi greinarinnar var beinþynning Önnu afleiðing átröskunar. Átröskunin olli næringarskorti, Anna léttist óhóflega og hætti meira að segja að hafa blæðingar. Þar af leiðandi framleiddi líkaminn ekki lengur estrógen og beinin urðu veikbyggðari.

Annað sem ýtir undir beinþynningu er hreyfingarleysi. Reykingar hafa einnig töluverð áhrif því að þær geta minnkað beinþéttnina. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni má rekja áttunda hvert mjaðmarbrot til reykinga. Rannsóknir hafa þó sýnt að þegar fólk hættir að reykja minnkar hættan á beinþynningu og brotum.

Forvarnir

Grunnurinn að því að verjast beinþynningu er lagður strax á uppvaxtarárunum. Þá byggir líkaminn upp 90 prósent af beinmassanum. Kalk líkamans er að mestum hluta geymt í beinunum en kalk er ómissandi næringarefni til að byggja upp sterk bein. Við fáum kalk að miklu leyti úr mjólk og mjólkurvörum, svo sem skyri og osti, laxi og sardínum úr dós (með beinunum), möndlum, hafragrjónum, sesamfræjum, tófú og dökkgrænu grænmeti.

Til að geta nýtt kalkið þarf líkaminn D-vítamín. Það myndast í húðinni fyrir áhrif sólar. Manuel Mirassou Ortega, sem er doktor í lyflæknisfræði og félagi í mexíkóskum samtökum um steinefnaskipti, segir: „Tíu mínútna sólbað á dag á sinn þátt í að verja okkur gegn beinþynningu því það gefur um 600 einingar af D-vítamíni.“ Vítamínið er einnig að finna í eggjarauðum, sjávarfiskum og lifur, svo eitthvað sé nefnt.

Seint verður ofmetið hversu mikilvæg hreyfing er til að verjast beinþynningu. Hreyfing á þátt í að byggja upp beinin á barns- og unglingsaldri. Og á efri árum á hún sinn þátt í að hamla því að beinin gisni. Helst er mælt með æfingum sem reyna á vöðvana án þess að reyna um of á bein og liði líkamans. Að ganga, labba upp stiga og jafnvel að dansa eru einfaldar en áhrifaríkar æfingar sem reyna á burðarþol líkamans. *

Ýmislegt má gera til að verjast þessum þögla sjúkdómi. Eins og við höfum skoðað má bæta mataræði sitt og lífsstíl til að viðhalda beinþéttninni og styrkja beinin. Að vísu er hægara sagt en gert að breyta venjum sínum ef maður hefur vanið sig á kyrrsetulíf. En hugsið bara um gagnið sem má hafa af því. Meðal annars gæti maður losnað við að lenda í hópi þeirra milljóna sem þjást af beinþynningu í heiminum.

[Neðanmáls]

^ Ef kona æfir svo stíft að hún hættir að hafa blæðingar geta beinin orðið stökk vegna estrógensskorts. Mælt er með því að konur eldri en 65 ára láti mæla beinþéttnina til að fylgjast með því hvort þær séu með beinþynningu og þá hve slæma. Ef beinþynningin er mikil er hugsanlega hægt að fá lyf til hamla henni eða meðhöndla. Áður en byrjað er á meðferð ætti þó að huga bæði að kostum og göllum hennar.

[Innskot á bls. 15]

Það hefur forvarnargildi að bæta mataræði sitt og lífsstíl til að viðhalda beinþéttninni og styrkja beinin.

[Rammi/myndir á bls. 13]

Beinþynning einkennist af því að beinin verða gisin og styrkur þeirra minnkar. Beinin verða stökk og brothætt. Sjúkdóminn má greina með röntgenrannsókn sem mælir kalkmagnið í beinunum.

[Myndir]

Heilbrigt bein

Beinþynning

[Rétthafi myndar]

© BSIP/Photo Researchers, Inc.

[Mynd á bls. 14]

Æfingar, sem reyna á vöðvana, hamla því að beinin gisni.

[Myndir á bls. 14]

Möndlur og mjólkurvörur eru kjörinn kalkgjafi.