Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Heilbrigðar mæður, heilbrigð börn

Heilbrigðar mæður, heilbrigð börn

Heilbrigðar mæður, heilbrigð börn

NÝFÆTT barn liggur í örmum móður sinnar og er bæði heilbrigt og ánægt. Stoltur faðirinn ljómar af gleði. Þetta gerist ótal sinnum á hverju ári og því er auðvelt að taka eðlilega fæðingu sem sjálfsagðan hlut. Er fæðingin ekki bara hluti af lífinu? Er þá nokkur ástæða til að hafa áhyggjur?

Flestar fæðingar ganga vel fyrir sig en alls ekki allar. Því er skynsamlegt að verðandi foreldrar geri allt sem hægt er til að koma í veg fyrir vandkvæði. Foreldrar geta til dæmis kynnt sér hvað getur valdið erfiðleikum við fæðingu, hvar sé best að móðirin fari í eftirlit á meðgöngutímanum og hvaða einföldu ráðstafanir sé hægt að gera til að draga úr áhættunni sem fylgir fæðingu. Skoðum þessi atriði nánar.

Erfiðleikar og orsakir þeirra

Eitt af því sem getur valdið erfiðleikum bæði fyrir móður og barn er ófullnægjandi umönnun á meðgöngutímanum. Cheung Kam-lau er barnalæknir við nýburadeild Prince of Wales spítalans í Hong Kong. Hann segir: „Ef mæður eru ekki undir neinu eftirliti á meðgöngutímanum er áhættan mun meiri.“ Hann segir einnig að „flestar þeirra búist við að eignast heilbrigð og bústin börn en því miður sé það ekki alltaf raunin.“

Í tímaritinu Journal of the American Medical Womens Association segir um vandamál sem geta komið upp hjá mæðrum: „Algengustu dánarorsakir kvenna í fæðingu“ eru miklar blæðingar, sýkingar, hár blóðþrýstingur og fæðingarteppa. Einnig segir í tímaritinu að vel sé hægt að meðhöndla þessi algengu vandamál með góðum árangri og oftast þurfi „ekki að nota tæknilega flóknar aðferðir til að veita meðferð sem stenst nútímakröfur“.

Góður aðgangur að læknisþjónustu gæti líka bjargað mörgum börnum. Í tímaritinu UN Chronicle segir að „hægt væri að draga úr nýburadauða um tvo þriðju ef allar mæður og nýfædd börn“ fengju læknismeðferð sem er „vel þekkt, og hægt að veita án flókinnar tækni“. Að sögn fréttastofunnar Philippines News Agency er því miður allt of algengt að mæður viti ekki hvað sé í boði eða nýti sér ekki meðgöngueftirlit.

Æskilegt eftirlit með móður og barni á meðgöngutíma

„Heilbrigðar mæður eignast heilbrigð börn,“ segir í tímaritinu UN Chronicle. Þar er einnig sagt að ef konur fá litla eða enga læknisþjónustu á meðgöngutímanum, við fæðinguna og í kjölfar hennar sé líklegt að börnin fái einnig litla sem enga læknisþjónustu.

Í sumum löndum getur verið erfitt fyrir þungaðar konur að fá viðeigandi þjónustu. Kannski þurfa þær að ferðast langt eða lækniskostnaðurinn er þeim ofviða. Verðandi mæður ættu samt sem áður að reyna að komast í eftirlit hjá fagaðilum jafnvel þó það sé ekki oft. Það er sérstaklega mikilvægt fyrir konur sem lifa í samræmi við Biblíuna. Þar segir að lífið sé heilagt, þar með talið líf ófæddra barna. — 2. Mósebók 21:22, 23; * 5. Mósebók 22:8.

Þarf að hitta lækni í hverri viku til þess að eftirlit geti talist fullnægjandi? Nei, ekki endilega. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin kannaði tengslin milli vandamála á meðgöngu eða við fæðingu og eftirlits á meðgöngutímanum. Niðurstaðan var sú að konum, sem hittu lækni fjórum sinnum á meðgöngutímanum, virtist ganga álíka vel og þeim sem hittu lækni 12 sinnum eða oftar.

Það sem læknar geta gert

Heilbrigðisstarfsmenn, einkum þeir sem sérhæfa sig í fæðingarlækningum, gera eftirfarandi ráðstafanir til að bæta horfur móður og ófædds barns hennar:

◼ Fara yfir sjúkrasögu móðurinnar og skoða hana til að meta áhættuþætti og sjá fyrir hugsanleg vandkvæði sem gætu komið upp hjá móður eða fóstri.

◼ Taka blóð- og þvagsýni til að athuga hvort um sé að ræða blóðleysi, sýkingu, rhesus-blóðflokkamisræmi eða sjúkdóma eins og sykursýki, rauða hunda, samræðissjúkdóma eða nýrnasjúkdóma sem geta hækkað blóðþrýsting.

◼ Mæla með bólusetningum gegn sjúkdómum eins og flensu, stífkrampa og rhesus-blóðflokkamisræmi ef það þykir ráðlegt og sjúklingurinn samþykkir það.

◼ Ráðleggja ef til vill mæðrum að taka vítamín, sérstaklega fólínsýru.

Með því að meta áhættuþætti fyrir móður á meðgöngutímanum og gera nauðsynlegar ráðstafanir — eða hjálpa móðurinni að gera þær — auka læknar líkurnar á því að henni og barninu vegni vel.

Að draga úr áhættu við fæðingu

Joy Phumaphi er fyrrverandi framkvæmdastjóri deildar sem tilheyrir Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og fæst við að bæta heilsu bæði fjölskyldna og samfélags. Hún segir: „Fæðingin er hættulegasti tíminn fyrir þungaðar konur.“ Hvað er hægt að gera til að koma í veg fyrir alvarlega eða jafnvel lífshættulega kvilla við fæðingu? Það er raunar einfalt en mæður verða að gera þessar varúðarráðstafanir. * Það er sérlega mikilvægt fyrir þær konur sem þiggja ekki blóð vegna biblíufræddrar samvisku sinnar eða vilja forðast blóðgjafir af læknisfræðilegum ástæðum. — Postulasagan 15:20, 28, 29.

Slíkir sjúklingar ættu að gera sitt besta til að ganga úr skugga um að heilbrigðisstarfsmaðurinn, hvort heldur læknir eða ljósmóðir, sé hæfur til að nota aðrar læknismeðferðir í stað blóðgjafar og hafi reynslu af því. Einnig væri skynsamlegt af foreldrum, sem eiga von á barni, að athuga hvort starfsmenn spítalans eða fæðingarheimilisins séu samstarfsfúsir. * Hér eru tvær góðar spurningar til að leggja fyrir lækni: 1. Hvað gerir þú ef móðir eða barn missir mikið blóð eða önnur vandamál koma upp? 2. Hvað verður gert ef þú ert ekki á staðnum þegar barnið fæðist?

Hyggin kona hefur að sjálfsögðu samráð við lækni til að tryggja að blóðrauði hennar sé eins hár og mögulegt er innan eðlilegra marka fyrir fæðingu. Í því skyni gæti læknir mælt með að konan taki inn fólínsýru og önnur B-vítamín ásamt járni.

Læknirinn athugar einnig ýmislegt annað. Hafa einhver heilsufarsvandamál, sem þarf að huga að, komið í ljós við meðgöngueftirlit? Þarf verðandi móðir að vera rúmliggjandi? Ætti hún að fá meiri hvíld? Væri viturlegt fyrir hana að þyngjast eða léttast eða hreyfa sig meira? Þarf hún að hugsa betur um líkamlegt hreinlæti, þar á meðal tannhirðu?

Rannsóknir sýna að sjúkdómar í tannholdi og gómum hjá þunguðum konum eru tengdir aukinni hættu á meðgöngueitrun. Það er alvarlegt ástand sem einkennist meðal annars af skyndilegri hækkun á blóðþrýstingi, slæmum höfuðverk og bjúg (vatn safnast fyrir í vefjum líkamans). * Meðgöngueitrun getur leitt til fyrirburafæðingar og er helsta dánarorsök bæði fósturs og móður, sér í lagi í vanþróuðum löndum.

Vandvirkur læknir athugar auðvitað hvort það séu merki um sýkingu hjá verðandi móður. Og ef hún hefur einhverja ótímabæra verki á meðgöngunni mun hann senda hana á spítala með hraði en það gæti bjargað lífi hennar.

Quazi Monirul Islam er læknir og yfirmaður deildar hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni sem vinnur að öruggari meðgöngum og fæðingum. Hann segir: „Konur hætta lífi sínu til að gefa líf.“ Góð læknismeðferð á meðgöngu, við fæðingu og strax í kjölfar fæðingar getur afstýrt ýmsum kvillum og jafnvel dauðsföllum. Það er auðvitað mikilvægast að mæður reyni að vera við sem besta heilsu því að staðreyndin er einfaldlega sú að ef þú vilt eignast heilbrigt barn þarftu að gera þitt besta til að vera heilbrigð móðir.

[Neðanmáls]

^ Í hebreska frumtextanum er átt við að móðir eða ófætt barn látist af slysförum.

^ Sjá rammagreinina „Undirbúningur á meðgöngu“.

^ Hjón, sem eru vottar Jehóva, geta leitað ráða hjá spítalasamskiptanefnd safnaðarins áður en barnið fæðist. Þeir sem eru í nefndinni heimsækja spítala og lækna og láta þeim í té læknisfræðilegar upplýsingar um hvernig megi meðhöndla sjúklinga, sem eru vottar, án blóðgjafar. Nefndin getur einnig aðstoðað við að finna lækna sem virða trú sjúklinga og hafa reynslu af meðferð án blóðgjafar.

^ Þó að þörf sé á frekari rannsóknum á því hvort sjúkdómar í tannholdi og gómum tengist meðgöngueitrun er skynsamlegt að sinna tannhirðu vel.

[Innskot á bls. 27]

Samkvæmt tölum frá október 2007 deyr nærri því ein kona á mínútu — 536.000 á ári — vegna vandkvæða á meðgöngu og í fæðingu. — Mannfjöldasjóður Sameinuðu þjóðanna

[Innskot á bls. 28]

„Á hverju ári fæðast 3,3 milljónir barna andvana og meira en 4 milljónir barna deyja innan 28 daga frá fæðingu.“ — UN Chronicle

[Rammi á bls. 29]

UNDIRBÚNINGUR Á MEÐGÖNGU

1. Vertu skynsöm og kynntu þér málin fyrir fram áður en þú velur þér spítala, lækni eða ljósmóður.

2. Farðu reglulega til læknisins eða ljósmóðurinnar og myndaðu traust og vinalegt samband við þau.

3. Hugaðu vel að heilsunni. Ef þú getur skaltu taka viðeigandi vítamín en forðast að taka lyf (jafnvel lausasölulyf) nema læknirinn þinn samþykki það. Það er skynsamlegt að forðast áfengi. „Þó að áhættan sé mest fyrir börn mæðra sem drekka mikið er enn ekki vitað hvort það sé yfirleitt óhætt fyrir konu að bragða áfengi á meðgöngutímanum,“ samkvæmt bandarískri stofnun sem rannsakar áfengissýki og misnotkun áfengis.

4. Ef þú færð ótímabærar hríðir (fyrir 37. viku) skaltu án tafar hafa samband við lækninn þinn eða fæðingardeildina. Skjót viðbrögð geta afstýrt fyrirburafæðingu og hugsanlegum fylgikvillum hennar. *

5. Skjalfestu ákvarðanir þínar hvað varðar læknismeðferð. Mörgum hefur fundist gagnlegt að fylla út yfirlýsingu og umboð vegna læknismeðferðar. Aflaðu þér upplýsinga um hvað sé notað í þínu landi og hefur lagalegt gildi.

6. Eftir barnsburð skaltu huga vel að heilsu þinni og barnsins, sérstaklega ef barnið fæddist fyrir tímann. Leitaðu strax til barnalæknis ef einhver vandamál koma upp.

[Neðanmáls]

^ Algengt er að fyrirburum, sem eiga í erfiðleikum með að framleiða nóg af blóðfrumum, sé gefið blóð.