Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað gerir mennina góða eða illa?

Hvað gerir mennina góða eða illa?

Sjónarmið Biblíunnar

Hvað gerir mennina góða eða illa?

Á SÍÐUM mannkynssögunnar er að finna ótal dæmi um hatur og blóðsúthellingar. Samt sýna menn oft óvenjulega góðmennsku og fórnfýsi í kjölfar hörmulegra atburða. Hvers vegna verður einn að kaldrifjuðum morðinga en annar að hjartahlýjum mannvini? Hvers vegna kemur stundum fram dýrsleg hegðun í fari mannanna?

Ófullkomleiki og samviska

Í Biblíunni segir blátt áfram að „hneigðir mannsins séu illar, allt frá æsku hans“. (1. Mósebók 8:21) Börn hneigjast því til þess að vera óþekk. (Orðskviðirnir 22:15) Allt frá fæðingu höfum við öll tilhneigingu til að gera rangt. (Sálmur 51:7) Það kostar erfiði að gera gott, rétt eins og að synda móti straumnum.

En okkur er einnig gefin samviska. Þessi meðfædda tilfinning fyrir réttu og röngu hefur þau áhrif að flestir haga sér innan velsæmismarka. Þess vegna gætu jafnvel þeir sem hafa ekki hlotið neina siðferðilega leiðsögn verið góðar manneskjur. (Rómverjabréfið 2:14, 15) En eins og minnst hefur verið á getur tilhneiging okkar til að gera rangt valdið togstreitu. Hvað annað gæti haft áhrif á okkur í baráttunni milli góðs og ills?

Spillt umhverfi

Kamelljónið skiptir litum eftir umhverfi. Á svipaðan hátt verða þeir sem eiga félagsskap við afbrotamenn líklegri til að taka upp glæpsamlega hegðun. „Þú skalt ekki fylgja meirihlutanum til illra verka,“ segir í Biblíunni. (2. Mósebók 23:2) Hins vegar stuðlar það að góðum verkum að eiga náinn félagsskap við þá sem eru heiðarlegir, réttlátir og siðferðilega hreinir. — Orðskviðirnir 13:20.

Við getum samt ekki litið svo á að við séum ónæm fyrir slæmum áhrifum vegna þess eins að við höfum ekki samneyti við þá sem eru viðriðnir illskuverk. Þar sem við erum ófullkomin geta rangar hugsanir leynst í afkimum hugans og beðið eftir tækifæri til að láta til sín taka. (1. Mósebók 4:7) Hið illa getur líka náð inn á heimili okkar í gegnum fjölmiðla. Tölvuleikir, sjónvarpsþættir og kvikmyndir lofsyngja oft ofbeldi og hefndarverk. Jafnvel það að fylgjast reglulega með erlendum eða innlendum fréttum getur gert okkur ónæm fyrir þjáningum og angist vegna illskuverka mannanna.

Hver er undirrót þessa spillta umhverfis? Biblían svarar því: „Allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ (1. Jóhannesarbréf 5:19) ,Hinn vondi,‘ Satan djöfullinn, er afhjúpaður í Biblíunni sem lygari og manndrápari. (Jóhannes 8:44) Hann notar áhrif sín í heiminum til að útbreiða illskuna.

Vegna þess að allir þessir þættir móta hegðun okkar og verk gætu sumir ályktað að illskuverkin séu ekki þeim að kenna. En hver er raunin? Hugsunin stjórnar líkamanum alveg eins og stýrishjól stjórnar akstursstefnu bíls og stýrisblað stýrir stefnu skips.

Gott eða illt, þitt er valið

Allt sem við gerum af ásettu ráði, hvort sem það er gott eða illt, er sprottið af hugsun. Sé sáð jákvæðum og göfugum hugsunum verður ávöxturinn góður. Sé eigingjörnum girndum leyft að skjóta frjóöngum í huganum er hins vegar líklegt að við uppskerum vond verk. (Lúkas 6:43-45; Jakobsbréfið 1:14, 15) Það er því hægt að segja að maðurinn hafi það í hendi sér að vera eins góður eða illur og hann kýs sjálfur.

Sem betur fer segir í Biblíunni að hægt sé að læra að vera góður. (Jesaja 1:16, 17) Kærleikur er aflið sem knýr til góðra verka þar sem „kærleikurinn gerir ekki náunganum mein“. (Rómverjabréfið 13:10) Ef við berum kærleika til fólks er óhugsandi að við vinnum nokkrum manni illt.

Ray frá Pennsylvaníu komst að raun um það. Frá unga aldri hafði honum verið kennt að slást og hann fékk snemma viðurnefni sem endurspeglaði slagsmálahneigð hans. Hann átti einnig erfitt með að hemja skap sitt. Samt gat hann breytt sér smám saman með því að fara eftir meginreglum Biblíunnar. En það var ekki alltaf auðvelt. Honum leið stundum eins og biblíuritaranum Páli sem sagði: „Þannig reynist mér það sem regla að þótt ég vilji gera hið góða er hið illa mér tamast.“ (Rómverjabréfið 7:21) Eftir að hafa lagt sig fram af einbeitni í áraraðir getur Ray núna sigrað illt með góðu. — Rómverjabréfið 12:21.

Hvers vegna er það þess virði að reyna ,að ganga á vegi góðra manna‘? (Orðskviðirnir 2:20-22) Vegna þess að hið góða mun að lokum sigra hið illa. Í Biblíunni segir: „Illvirkjum verður tortímt . . . Innan stundar er hinn óguðlegi horfinn . . . En hinir hógværu fá landið til eignar og gleðjast yfir miklu gengi.“ (Sálmur 37:9-11) Guð mun afmá öll ummerki illskunnar. Dásamleg framtíð bíður þeirra sem vinna stöðugt að því að gera hið góða.

HEFURÐU HUGLEITT?

● Hver ber ábyrgð á gerðum okkar? — Jakobsbréfið 1: 14.

● Getum við breytt um stefnu? — Jesaja 1:16, 17.

● Mun hið illa nokkurn tíma taka enda? — Sálmur 37:9, 10; Orðskviðirnir 2:20-22.

[Myndir á bls. 23]

Maðurinn hefur það í hendi sér að vera eins góður eða illur og hann kýs sjálfur.