Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Ég var alinn upp sem trúleysingi“

„Ég var alinn upp sem trúleysingi“

„Ég var alinn upp sem trúleysingi“

PRÓFESSOR František Vyskočil við Karlova-háskólann í Prag er heimsþekktur fyrir rannsóknir sínar á sviði taugalífeðlisfræði. Hann var eitt sinn trúlaus en trúir nú staðfastlega á Guð. Prófessor Vyskočil segir frá því í viðtali við Vaknið! hvers vegna honum snerist hugur.

Hvernig leist þú á trúarbrögð áður en þú hófst feril þinn í vísindum?

Ég var alinn upp sem trúleysingi og faðir minn gerði oft gys að prestum. Ég útskrifaðist úr háskóla árið 1963 með námsgráðu í líffræði og efnafræði. Á námsárunum trúði ég að þróunarkenningin skýrði fjölbreytileika lífsins.

Segðu okkur aðeins frá vísindaferli þínum.

Að loknu doktorsnámi rannsakaði ég efnafræðilega og raffræðilega eiginleika taugamóta. Ég rannsakaði einnig taugunga, jónadælur, vefjaígræðslur og afnæmingu með lyfjum. Margar af niðurstöðunum hafa verið birtar og sumar greinar hafa verið valdar úr sem viðteknar heimildir. Þegar fram liðu stundir var ég kjörinn til að hljóta aðild að Lærdómsfélagi Tékklands en það er félagsskapur vísindamanna. Eftir „flauelsbyltinguna“ árið 1989 var ég skipaður prófessor við Karlova-háskólann. Þá fékk ég jafnframt leyfi til að ferðast til Vesturlanda til að hitta starfsbræður, þeirra á meðal nokkra nóbelsverðlaunahafa.

Leiddirðu nokkurn tíma hugann að Guði?

Já, í vissum skilningi. Ég velti stundum fyrir mér hvers vegna margt hámenntað fólk trúði á Guð þótt það léti lítið á því bera þar sem við bjuggum í kommúnistaríki. Sumir af prófessorum mínum voru í þessum hópi. Ég leit hins vegar svo á að Guð væri uppfinning manna. Og mér ofbauð þegar ég hugsaði til þeirra óhæfuverka sem voru framin í nafni trúar.

Hvernig stóð á því að þér snerist hugur gagnvart þróunarkenningunni?

Ég fór að efast um að þróunarkenningin væri rétt þegar ég vann að rannsóknum á taugamótum. Ég var agndofa yfir því hve ótrúlega flóknar þessar tengingar milli taugafrumna voru. Ég velti fyrir mér hvort taugamót og hin erfðafræðilegu kerfi sem þau byggjast á hefðu getað myndast af hreinni tilviljun. Það var hreinlega ekki heil brú í því.

Upp úr 1970 hlýddi ég á fyrirlestur hjá frægum rússneskum vísindamanni og prófessor. Hann sagði að lifandi verur gætu ekki hafa myndast við tilviljunarkenndar stökkbreytingar og náttúruval. Áheyrandi spurði hvernig þær hefðu þá orðið til. Prófessorinn tók litla rússneska biblíu upp úr jakkavasanum, hélt henni á loft og sagði: „Lestu Biblíuna, einkum sköpunarsöguna.“

Eftir á spurði ég prófessorinn frammi í forsalnum hvort honum væri alvara með Biblíuna. Hann svaraði efnislega: „Einfaldir gerlar geta skipt sér á 20 mínútna fresti og innihaldið mörg hundruð ólík prótín. Í hverju prótíni eru 20 gerðir af amínósýrum og þær raðast í keðjur sem geta verið nokkur hundruð hlekkir á lengd. Ef gerlar ættu að þróast með jákvæðum stökkbreytingum, einni og einni í senn, myndi það taka miklu meira en þrjá eða fjóra milljarða ára, en það er sá tími sem margir vísindamenn telja að lífið hafi verið til á jörðinni.“ Honum fannst sköpunarsaga Biblíunnar miklu skynsamlegri.

Hvaða áhrif höfðu orð prófessorsins á þig?

Orð hans ásamt alvarlegum efasemdum mínum urðu til þess að ég ræddi málið við nokkra trúhneigða starfsbræður og vini en mér þóttu skoðanir þeirra ekki sannfærandi. Þá ræddi ég við lyfjafræðing sem var vottur Jehóva. Um þriggja ára skeið skýrði hann Biblíuna fyrir mér og Emu, eiginkonu minni. Tvennt kom okkur verulega á óvart. Í fyrsta lagi er fátt sameiginlegt með hefðbundinni „kristni“ og Biblíunni. Í öðru lagi kemur Biblían heim og saman við sönn vísindi þó að hún sé í sjálfu sér ekki vísindarit.

Hefur breytt afstaða þín tálmað þér við rannsóknir þínar?

Alls ekki. Allir góðir vísindamenn þurfa að vera eins hlutlausir og hægt er, óháð trú sinni. En trú mín hefur breytt sjálfum mér. Í stað þess að vera sjálfsöruggur úr hófi fram, sífellt að keppa við aðra vísindamenn og hreykja mér af kunnáttu minni í vísindum er ég nú þakklátur Guði fyrir þá hæfileika sem ég kann að hafa. Ófáir vísindamenn, þeirra á meðal ég, eru hættir að eigna tómri tilviljun þá undraverðu hönnun sem er að finna í sköpunarverkinu. Þess í stað spyrjum við: ,Hvernig hannaði Guð þetta?‘

[Innskot á bls. 9]

Ófáir vísindamenn, þeirra á meðal ég, spyrja: ,Hvernig hannaði Guð þetta?‘