Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er Guð raunveruleg persóna?

Er Guð raunveruleg persóna?

Sjónarmið Biblíunnar

Er Guð raunveruleg persóna?

LOTNING fyrir náttúrunni knýr marga til að trúa á yfirnáttúrulegt afl, einhvers konar guðdóm. Ertu heillaður af margbreytileika alheimsins? Dáist þú að náttúruundrum jarðar og flókinni hönnun mannslíkamans?

Sé svo má vera að þú trúir einnig á guðdómlegan kraft. Í sumum trúarbrögðum er kennt að slíkur kraftur búi í fjöllum, trjám, himni og öðru í efnisheiminum. Aðrir trúa að andar forfeðranna, sumir góðir en aðrir illir, renni saman í dularfull öfl sem mynda í sameiningu eina yfirnáttúrulega veru — Guð.

Í báðum tilfellum er almennt trúað að þetta yfirnáttúrulega afl sé án persónuleika. Sumir eiga erfitt með að trúa að Guð hafi til að bera hugsanir, tilfinningar, fyrirætlanir og langanir. Er Guð raunveruleg persóna? Skýr svör fást í Biblíunni sem er eitt elsta helgirit heims og það útbreiddasta.

Eðli mannsins er vísbending um eðli Guðs

Samkvæmt kenningum Biblíunnar var maðurinn skapaður þannig að hann endurspeglaði eiginleika Guðs. „Guð skapaði manninn eftir sinni mynd,“ segir í 1. Mósebók 1:27.

Greinilegt er að þessi orð merkja ekki að fyrsti maðurinn hafi verið nákvæm eftirmynd Guðs. Í Biblíunni segir að Guð sé ósýnilegur andi en mennirnir séu mótaðir úr áþreifanlegum frumefnum jarðar. (1. Mósebók 2:7; Jóhannes 4:24) Ef litið er fram hjá þessum grundvallarmun á Guði og mönnum ættu eiginleikar mannsins að varpa nokkru ljósi á eðli Guðs.

Mennirnir eru færir um að beita kröftum sínum og framkvæma vel úthugsuð verk með fullri vitund. Þessi verk gætu verið sprottin af góðvild, íhugun, skynsemi og réttlætiskennd. Mennirnir búa yfir tilfinningum allt frá einlægri ást til haturs og reiði. Þessi einkenni blandast með ýmsum hætti og það veldur því að við erum lítils háttar frábrugðin hvert öðru. Víst er að við höfum hvert um sig persónuleika sem er ólíkur öllum öðrum. Mennirnir eru persónur.

Er nokkurt vit í því að Guð hafi skapað okkur sem flóknar persónur en sjálfur sé hann ópersónulegt afl fljótandi án tilgangs á öðru tilverusviði? Séu mennirnir skapaðir í Guðs mynd hlýtur eðli Guðs á margan hátt að vera líkt mannlegu eðli. Lítum á eftirfarandi.

Guð á sér nafn. Í Biblíunni segir í Jesaja 42:8: „Ég er Jahve; það er nafn mitt.“ (Biblían 1908) Guð vill að nafn sitt sé þekkt. Í Biblíunni er einnig sagt: „Nafn Jahve sé blessað héðan í frá og að eilífu; frá sólarupprás til sólarlags sé nafn Jahve lofað.“ (Sálmur 113:2, 3, Biblían 1908) Tilbiðjendur hans koma þess vegna fram við hann eins og persónu með því að nota nafn hans.

Guð er einstakur. Í Biblíunni er kennt að Guð sé einstakur. (1. Korintubréf 8:5, 6) Þar stendur: „Þess vegna ert þú mikill, Drottinn Guð. Enginn jafnast á við þig og enginn er Guð nema þú.“ (2. Samúelsbók 7:22) Í Biblíunni er einnig sagt að Jahve eða Jehóva (önnur algeng framburðarmynd nafnsins) sé „Guð á himnum uppi og á jörðu niðri og enginn annar“. — 5. Mósebók 4:39.

Jehóva Guð hatar hið illa. Eingöngu persóna getur fundið fyrir hatri. Í Biblíunni er okkur sagt að skaparinn hati ,hrokafullt augnaráð, lygna tungu og hendur sem úthella saklausu blóði, hjarta sem bruggar fjörráð, fætur sem fráir eru til illverka, ljúgvott sem sver meinsæri og þann sem kveikir illdeilur meðal bræðra‘. (Orðskviðirnir 6:16-19) Tökum eftir að Guð hatar breytni sem veldur öðrum skaða. Þetta kennir okkur að Guði er annt um velferð okkar og hann hatar það sem er okkur til tjóns.

Jehóva er kærleiksríkur Guð. Í Biblíunni er sagt að Guði þyki afar vænt um „heiminn“ og er þá átt við mannfólkið. (Jóhannes 3:16) Honum er lýst sem ástúðlegum föður sem vill börnum sínum það besta. (Jesaja 64:7) Mennirnir geta hlotið margs konar blessun með því að viðurkenna Guð sem ástúðlegan föður sinn.

Þú getur verið vinur Guðs

Í Biblíunni er sagt að skaparinn sé sjálfstæð persóna sem beri nafn og hafi persónuleika. Hann er fær um að beita afli sínu og framkvæma úthugsaðar aðgerðir sprottnar af háleitum eiginleikum svo sem góðvild, visku og réttlætiskennd. Hann er hvorki fjarlægur né óaðgengilegur. Þvert á móti segir hann: „Ég, Drottinn, er Guð þinn, ég held í hægri hönd þína og segi við þig:,Óttast eigi, ég bjarga þér.‘“ — Jesaja 41:13.

Guð hefur tilgang með mennina. Í Biblíunni stendur: „Réttlátir fá landið til eignar og búa þar ævinlega.“ (Sálmur 37:29) Þar sem við vitum að Jehóva er einstakur og hefur skýr persónueinkenni er auðveldara fyrir okkur að eignast persónulegt samband við hann og njóta þeirrar blessunar sem hann býður þeim sem verða vinir hans. — 5. Mósebók 6:4, 5; 1. Pétursbréf 5:6, 7.

HEFURÐU HUGLEITT?

● Á Guð sér nafn? — Jesaja 42:8

● Eru til margir guðir? — 1. Korintubréf 8:5, 6.

● Geta mennirnir átt persónulegt samband við hinn sanna Guð? — 1. Pétursbréf 5:6, 7.

[Mynd á bls. 13]

Hefði Guð skapað okkur sem flóknar persónur ef hann væri sjálfur ópersónulegt afl?