Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hafa vísindin afsannað tilvist Guðs?

Hafa vísindin afsannað tilvist Guðs?

Hafa vísindin afsannað tilvist Guðs?

Í 50 ÁR naut breski heimspekingurinn Anthony Flew mikillar virðingar meðal þeirra sem trúa ekki á Guð. Árið 1950 birtist eftir hann ritgerð sem nefnist „Guðfræði og falsanir“, og var hún „endurprentuð oftar en nokkurt annað heimspekirit [20.] aldarinnar“. Árið 1986 var Flew kallaður „mesti hugsuður nútímans af hópi þeirra sem gagnrýna guðstrú“. Það var því mikið áfall fyrir marga þegar Flew tilkynnti árið 2004 að afstaða sín hefði breyst.

Hvað fékk Flew til að skipta um skoðun? Það voru fyrst og fremst vísindin. Hann sannfærðist um að alheimurinn, náttúrulögmálin og lífið sjálft hefðu ekki getað orðið til af hreinni tilviljun. Er það rökrétt ályktun?

Hvernig urðu náttúrulögmálin til?

Eðlisfræðingurinn og rithöfundurinn Paul Davies bendir á að vísindunum takist frábærlega vel að varpa ljósi á áþreifanleg fyrirbæri eins og regnið. En síðan segir hann: „Þegar um er að ræða spurningar eins og: Af hverju eru náttúrulögmálin til? er annað uppi á teningnum. Uppgötvanir vísindamanna hafa gefið fá svör við þess konar spurningum. Mörgum af stóru spurningunum hefur verið ósvarað frá upphafi siðmenningarinnar og það ergir okkur enn þann dag í dag.“

„Stóra málið er ekki aðeins að það skuli vera reglufesta í náttúrunni,“ skrifaði Flew árið 2007, „heldur að þessi reglufesta skuli vera stærðfræðilega nákvæm, altæk og tengjast innbyrðis. Einstein kallaði hana ,birtingarmynd vitsmunanna‘. Við ættum að spyrja okkur hvernig það hafi atvikast að náttúran skuli vera þannig samsett. Þetta er spurningin sem vísindamenn eins og Newton, Einstein og Heisenberg hafa spurt — og svarað. Svar þeirra var: Hugvit Guðs.“

Sannleikurinn er sá að margir virtir vísindamenn álíta ekki óvísindalegt að trúa á viti borna frumorsök. Að halda því fram að alheimurinn, náttúrulögmálin og lífið hafi orðið til af tilviljun lætur hins vegar of mörgum spurningum ósvarað. Almenn reynsla kennir okkur að hönnun, ekki síst flókin og háþróuð, verður ekki til án hönnuðar.

Hvora trúna velurðu?

Enda þótt nýju trúleysingjarnir vilji gjarnan draga fána vísindanna að húni í búðum sínum er sannleikurinn sá að hvorki trúleysi né guðstrú byggist á vísindum einum. Báðar stefnurnar fela í sér vissa trú, annars vegar á tilviljun sem hefur ekkert markmið og hins vegar á viti borna frumorsök. Nýju trúleysingjarnir halda því fram að „allir trúaðir trúi í blindni“. Þetta segir John Lennox en hann er prófessor í stærðfræði við Oxfordháskóla. Hann bætir við: „Við verðum að leggja þunga áherslu á að þeir hafa rangt fyrir sér.“ Spurningin er því þessi: Hvor trúin stenst prófið, trú hinna trúlausu eða trú hinna trúuðu? Til að kanna það skulum við líta á uppruna lífsins.

Þróunarsinnar viðurkenna fúslega að það sé leyndardómur hvernig lífið kviknaði, en um það eru margar ólíkar kenningar. Richard Dawkins er vel þekktur trúleysingi. Hann heldur því fram að þar sem reikistjörnurnar í alheiminum séu óhemjumargar hafi líf hlotið að kvikna einhvers staðar. En margir virtir vísindamenn eru ekki alls kostar sannfærðir um það. John Barrow er prófessor við háskólann í Cambridge. Hann segir að trúin á „þróun lífsins og hugans“ lendi í „blindgötu hvaða leið sem valin sé. Það er hreinlega svo margt sem getur komið í veg fyrir að líf þróist í flóknu og fjandsamlegu umhverfi að það er hreinn hroki að gefa sér að allt sé mögulegt ef til er nóg kolefni og tíminn nógu langur.“

Höfum einnig hugfast að lífið er ekki bara úrval ákveðinna frumefna heldur byggist það á afar flóknu upplýsingakerfi sem er geymt í kjarnsýrunni DNA. Þegar talað er um uppruna lífsins erum við því einnig að tala um uppruna líffræðilegra upplýsinga. Við þekkjum aðeins eina uppsprettu upplýsinga og það eru vitsmunir. Getur flókið samsafn upplýsinga, svo sem tölvuforrit, algebruformúla, alfræðiorðabók eða jafnvel kökuuppskrift, myndast við tilviljunarkennda atburði? Að sjálfsögðu ekki. Ekkert af þessu er þó nándar nærri jafn flókið og skilvirkt og það upplýsingakerfi sem er fólgið í erfðalykli lifandi vera.

Eru það góð vísindi að líta á tilviljun sem frumorsök?

Að sögn trúleysingja er „alheimurinn eins og hann er af dularfullum orsökum, og það vill bara svo til að hann býður upp á aðstæður til lífs“. Þetta segir Paul Davies. „Ef aðstæður hefðu verið aðrar værum við ekki hér til að ræða málið,“ segja trúleysingar. „Það er hugsanlegt að alheimurinn og allt sem í honum er sé háð hvert öðru, en hugsanlega ekki. Það býr hins vegar engin hönnun, tilgangur eða markmið að baki því öllu — að minnsta kosti ekkert sem við fáum skilið.“ Davies bendir á að „þetta sjónarmið hafi þann kost að það sé auðvelt að verja það, svo auðvelt að það sé þægilegt að nota það sem afsökun“. Það er með öðrum orðum þægileg aðferð til að þurfa ekki að taka afstöðu til málsins.

Sameindalíffræðingurinn Michael Denton segir í bók sinni Evolution: A Theory in Crisis að þróunarkenningin „líkist frekar kennisetningu í stjörnuspeki miðalda en alvarlegri . . . vísindakenningu“. Hann nefnir einnig að þróunarkenning Darwins sé ein af mestu bábiljum okkar tíma.

Því er ekki að neita að það ber töluverðan keim af bábilju að tala um tilviljun sem frumorsök alls. Hugsum okkur eftirfarandi: Fornleifafræðingur finnur hrjúfan stein sem er nokkurn veginn ferhyrndur. Hann hugsar með sér að þessi lögun sé hrein tilviljun og það er engan vegin órökrétt. Síðar finnur hann stein sem er nákvæm brjóstmynd af manni. Gerir hann þá ráð fyrir að það sé hrein tilviljun? Nei, skynsemin segir honum að einhver hafi gert brjóstmyndina. Í Biblíunni er að finna áþekka röksemd. Þar segir: „Sérhvert hús hefur einhver gert en Guð er sá sem allt hefur gert.“ (Hebreabréfið 3:4) Ertu sammála þessari staðhæfingu?

Prófessor John Lennox segir: „Sú tilgáta um uppruna okkar að það sé til Guð og skapari sem hannaði alheiminn í ákveðnum tilgangi verður því trúverðugri sem við kynnum okkur alheiminn betur.“

Eitt af því sem grefur undan trú manna á Guð er því miður ódæðisverkin sem eru framin í nafni hans. Sumir hafa þess vegna ályktað sem svo að mannkynið væri betur sett án trúarbragða. Hvað heldur þú?