Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Mayday! Mayday! Mayday!“ — Kallið sem bjargar mannslífum

„Mayday! Mayday! Mayday!“ — Kallið sem bjargar mannslífum

„Mayday! Mayday! Mayday!“ — Kallið sem bjargar mannslífum

Eldur blossaði upp í fiskiskipinu og reykinn lagði um allt. Áhöfnin var í bráðri lífshættu. Talsmaður strandgæslunnar sagði: „Hefði skipstjórinn ekki notað neyðarkallið ,Mayday‘ hefði ,Nautical Legacy‘ aldrei fundist.“ Kanadíska strandgæslan brást skjótt við og tókst að bjarga allri áhöfninni. *

„MAYDAY! Mayday! Mayday!“ Þegar þessi orð heyrast í fjarskiptatækjum boða þau lífshættulegt neyðarástand og eru ákall um tafarlausa aðstoð. En ber „Mayday“ neyðarkallið tilætlaðan árangur? Árið 2008 fór bandaríska strandgæslan í meira en 24.000 björgunarleiðangra og bjargaði 4.910 mannslífum, að meðaltali 13 á dag, og aðstoðaði rúmlega 31.000 manns í lífsháska.

En hvers vegna er orðið „Mayday“ notað? Hvernig var hægt að senda hjálparbeiðni frá skipum í sjávarháska áður en talstöðin kom til sögunnar?

Fyrri tíma aðferðir

Árið 1588 tók spænska herskipið Santa Maria del la Rosa að reka stjórnlaust í ofsaveðri. Neyðarkall var sent út með því að hleypa af fallbyssuskotum. Skipið, sem tilheyrði flotanum ósigrandi, sökk og enginn komst lífs af svo vitað sé. Oft notuðu sjómenn fyrri tíma sérstaka fána til að óska eftir neyðaraðstoð. Enn í dag er um alþjóðlegt neyðarkallmerki að ræða þegar skip flaggar hvítum fána með rauðu krossmarki horn í horn.

Upp úr 1760 fóru sjómenn að læra merkjasendingakerfi sem kallast semafórstafrófið. Það virkaði þannig að sá sem sá um merkjasendingarnar hélt á flaggi í hvorri hendi og líkti eftir vísum á klukku. Hver „tími“, sem hann sýndi, táknaði síðan ákveðinn bókstaf eða tölustaf.

Handflögg, fallbyssuskot og sjónrænar merkjasendingar komu hins vegar aðeins að gagni ef einhverjir voru nógu nálægt til að heyra eða sjá neyðarmerkið. Áhöfn í sjávarháska hafði oft litla von um björgun. En hvað varð til að bæta ástandið?

Árangursríkari neyðarköll

Upp úr 1840 urðu stórstígar framfarir á sviði fjarskipta. Samuel Morse fann upp merkjakerfi sem mátti nota til að senda boð eftir línu með handstýrðu áhaldi sem var kallað morslykill. Meðan handfanginu á morslyklinum var haldið niðri, gat sá sem var á hinum enda línunnar numið merkið. Morse bjó til táknkerfi sem var samsett úr ákveðnum fjölda af stuttum og löngum hljóðum, eða punktum og strikum, sem táknuðu bókstafina og tölustafina.

Til að hægt væri að nota morsstafrófið til sjós notuðu sjómenn sterk ljósmerki í stað hljóðmerkjanna sem send voru með ritsíma. Sá sem sá um merkjasendingarnar notaði stutt ljósmerki til að tákna punkt og lengri til að tákna strikið. Fljótlega var svo farið að nota ákveðið neyðarkallmerki sem var einfalt í notkun. Það samanstóð af þremur punktum, þremur strikum og þremur punktum sem táknuðu bókstafina SOS. *

Sem betur fer enduðu framfarir á sviði neyðarkallmerkja ekki þar með. Guglielmo Marconi sendi fyrsta loftskeytið yfir Atlantshaf árið 1901. Þar með var hægt að senda SOS neyðarkallmerki á öldum ljósvakans í stað þess að nota ljósmerki. Enn var ekki komið að því að loftskeytamenn gætu notað mannsröddina til að senda neyðarkall. Alþjóðlega neyðarkallmerkið „Mayday! Mayday! Mayday!“ átti eftir að líta dagsins ljós.

Talað mál barst loksins á öldum ljósvakans árið 1906 þegar Reginald Fessenden sendi út dagskrá með mæltu máli og tónlist. Sjómenn, sem höfðu loftskeytatæki, gátu heyrt útsendingu Fessendens í allt að 80 km fjarlægð. Árið 1915 vakti það mikinn fögnuð enn fleira fólks, sem statt var í Eiffelturninum í París, að heyra rödd sem barst í beinni útsendingu frá Arlington, í Virginíu, í Bandaríkjunum. Vegalengdin var 14.000 km. Og ímyndaðu þér hvað skipverjar á gufuskipinu America hljóta að hafa verið eftirvæntingarfullir árið 1922 þegar fyrsta þráðlausa samtalið á milli skips og strandstöðvar átti sér stað. Strandstöðin var í Deal Beach, New Jersey, í Bandaríkjunum en skipið var statt í um 600 km fjarlægð.

Neyðarkallið samræmt

Loftskeytamenn á öðrum og þriðja áratug tuttugustu aldar fóru fljótlega að ræða saman sín á milli. En nú tala áhafnir skipa ýmis tungumál. Hvernig gátu skipstjórar þá sent neyðarkall sem væri skiljanlegt alls staðar í heiminum? Alþjóðaloftskeytaþingið fjallaði um málið árið 1927 og tók upp alþjóðlega neyðarkallið „Mayday“. *

Við getum verið þakklát fyrir það að fjarskiptatæknin er í stöðugri framför. Til dæmis hafa ratsjár og GPS-staðsetningartæki tekið við af fallbyssuskotum og merkjagjöf með handflöggum. Auk þess eru fjarskiptatæki orðin staðalbúnaður og björgunarmiðstöðvar fylgjast stöðugt með fjarskiptarásum og eru ávallt í viðbragðsstöðu. Það eru miklar líkur á því að neyðarkallið „Mayday! Mayday! Mayday!“ heyrist eins og þegar fiskiskipið Nautical Legacy var í háska statt, og skiptir þá ekki máli hvar eða hvenær slíkt gerist. Það eru góðar líkur á því að þér verði bjargað ef þú lendir í sjávarháska, ólíkt því sem var fyrr á öldum.

[Neðanmáls]

^ Úr bókinni True Stories of Rescue and Survival — Canada’s Unknown Heroes.

^ Bókstafirnir SOS urðu fyrir valinu vegna þess að það var bæði auðvelt að senda þá og greina. Þeir höfðu enga sérstaka merkingu.

^ „Mayday“ er endurtekið þrisvar sinnum til að sýna fram á að alvara sé á ferðum og til að fyrirbyggja að orðinu sé ruglað saman við eitthvað annað.

[Mynd á bls. 19]

Eldur um borð í „Nautical Legacy“.

[Rétthafi myndar]

Með góðfúslegu leyfi Fisheries and Oceans Canada. Birt með leyfi © Her Majesty the Queen in Right of Canada, 2010.

[Mynd á bls. 20]

Til að geta notað morsstafrófið til merkjasendinga á sjó þurfti að nota ljósmerki í stað hljóðmerkja.

[Rétthafi myndar]

© Science and Society/SuperStock