Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fíngerðu fuglahúsin í Istanbúl

Fíngerðu fuglahúsin í Istanbúl

Fíngerðu fuglahúsin í Istanbúl

● Fuglahús má sjá víða í heiminum. Þetta eru úrvalsstaðir til að fóðra fugla og fuglar nota þau til að halda á sér hita, til hreiðurgerðar, til að ala upp ungviðið og sem vernd gegn rándýrum og náttúruöflunum. Fuglahús í Istanbúl eru hönnuð til að líkjast alvöruhúsum. Sum eru eins og höfðingjasetur en önnur líkjast moskum eða höllum. * Þau eru kölluð fuglasetur og jafnvel spörvahallir.

Elstu fuglahúsin eru allt frá 15. öld og í þeim má sjá merki um ósmanska byggingarlist. Þau eru einföld að gerð en í byrjun 18. aldar fóru fuglahúsin að líkjast stórum íburðarmiklum hefðarsetrum. Á sumum fuglahúsum voru ílát fyrir mat og vatn, gangstéttir og jafnvel svalir þar sem fuglarnir gátu setið og notið útsýnisins ef svo má að orði komast. Fuglahúsunum var yfirleitt komið fyrir á þeirri hlið bygginganna sem var sólríkust og veitti besta skjólið fyrir vindi, utan seilingar katta, hunda og fólks. Stundum voru húsin svona úr garði gerð til að skreyta byggingar og bæta heildarmyndina en ekki bara fuglanna vegna. Fuglahús má finna utan á moskum, stórum sem smáum, á drykkjarfontum, bókasöfnum, brúm og íbúðarhúsum.

Því miður hafa mörg þessara fíngerðu fuglahúsa látið á sjá því að náttúruöflin hafa leikið þau grátt. Fólk hefur líka vísvitandi skemmt sum fuglahús vegna þess að það ber ekki skynbragð á gildi þeirra. Fuglahúsunum fækkar því stöðugt. En ef þú kannt að meta sögufræga byggingarlist og ert einhvern tíma staddur í Istanbúl skaltu reyna að koma auga á þessa fíngerðu smíði undir einhverju þakskegginu. Þar sem þú veist núna hvað þetta er geta fíngerðu fuglahúsin gefið heimsókn þinni til borgarinnar aukið gildi.

[Neðanmáls]

^ Þó að þau líkist alvöruhúsum eru þau yfirleitt ekki eftirmynd neinna ákveðinna bygginga.