Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hjálp fyrir syrgjendur

Hjálp fyrir syrgjendur

Hjálp fyrir syrgjendur

„Drottinn er nálægur þeim sem hafa sundurmarið hjarta.“ — Sálmur 34:19.

ÝMSAR tilfinningar geta sótt á mann við ástvinamissi, svo sem geðshræring, tilfinningadoði, dapurleiki og jafnvel sektarkennd eða reiði. Eins og fram kom í greininni á undan syrgja ekki allir á sama hátt. Þess vegna gera kannski ekki allar þessar tilfinningar vart við sig hjá þér og sorgin birtist líklega ekki eins hjá þér og öðrum. Hvað sem því líður er ekkert athugavert við að láta sorgina í ljós þegar þér finnst þú þurfa þess.

„Leyfðu þér að syrgja“

Heloisa, læknirinn sem áður var minnst á, reyndi að byrgja tilfinningar sínar inni eftir að hún missti móður sína. „Ég grét í fyrstu,“ segir hún, „en var fljótlega farin að bæla niður tilfinningarnar, eins og ég gerði þegar sjúklingur hjá mér dó. Heilsu minni hefur hrakað töluvert, sennilega af þessum ástæðum. Ég ráðlegg þeim sem missa ástvini að leyfa sér að syrgja til að fá útrás fyrir tilfinningarnar. Manni léttir mikið við það.“

En þegar dagar og vikur líða gæti þér samt liðið eins og Cecíliu sem missti manninn sinn úr krabbameini. Hún segir: „Stundum verð ég fyrir vonbrigðum með sjálfa mig því ég stend ekki undir væntingum þeirra sem finnst að ég ætti að vera búin að jafna mig.“

Ef þér hefur liðið þannig skaltu reyna að muna að það er engin ein rétt leið til að syrgja. Sumir eiga frekar auðvelt með að vinna úr sorginni, aðrir ekki. Í slíkum tilvikum er ekki hægt að flýta sorgarferlinu. Þess vegna skaltu ekki halda að þú verðir að vera búinn að jafna þig fyrir einhvern vissan tíma. *

Hvað er til ráða ef sorgin er orðin óbærileg og þú ert farinn að örvænta? Þér kann að líða eins og hinum réttláta Jakobi sem „lét ekki huggast“ þegar honum var sagt að Jósef sonur hans væri dáinn. (1. Mósebók 37:35) Ef viðbrögð þín eru þannig hvað geturðu þá gert til að bugast ekki af sorg?

Farðu vel með þig. „Stundum er ég alveg úrvinda af þreytu og þá átta ég mig á að ég hef gert meira en ég í rauninni get,“ segir Cecília. Eins og orð hennar bera með sér getur sorgin lagt þungar byrðar á fólk bæði líkamlega og tilfinningalega. Þess vegna ættirðu að huga vel að heilsunni, fá hæfilega hvíld og borða hollan mat.

Að vísu langar þig kannski ekkert til að borða, hvað þá að kaupa í matinn eða matreiða. Hins vegar eru meiri líkur á að þú smitist og veikist ef þú færð ekki næga næringu og það eykur á vanlíðan þína. Reyndu að minnsta kosti að borða eitthvað smávegis til að viðhalda góðri heilsu. *

Stundaðu einhverja hreyfingu sé þess nokkur kostur, jafnvel þótt þú komist bara í göngutúr. Það getur fengið þig út úr húsi. Hófleg hreyfing leysir þar að auki úr læðingi endorfín en það eru boðefni í heila sem geta bætt líðan þína.

Þiggðu aðstoð. Það getur verið sérlega mikilvægt þegar maður hefur misst maka sinn. Ef til vill sá makinn um ýmislegt sem nú er ógert. Hafi maki þinn til dæmis séð um fjármálin eða heimilisstörfin gæti þér í byrjun þótt erfitt að gera þessi störf. Við slíkar aðstæður geta ráð nærgætinna vina komið sér vel. — Orðskviðirnir 25:11.

Í Biblíunni segir um sannan vin: „Í andstreymi reynist hann sem bróðir.“ (Orðskviðirnir 17:17) Ekki ímynda þér að þú sért öðrum byrði og einangra þig. Félagsskapur við aðra getur verið eins og brú sem hjálpar þér að komast yfir sárustu sorgina. Eftir að ung kona, sem heitir Sally, missti móðir sína fann hún að það hafði mjög góð áhrif á hana að hafa félagsskap við aðra. „Margir vinir mínir buðu mér með þegar þeir gerðu eitthvað til afþreyingar eða skemmtunar,“ segir hún. „Það hjálpaði mér heilmikið að takast á við einmanaleikann. Mér þótti alltaf mjög vænt um að fólk skyldi spyrja einfaldra spurninga eins og til dæmis: ,Hvernig gengur þér að vinna úr sorginni eftir andlát móður þinnar?‘ Mér fannst gott að tala um mömmu því að það hjálpaði mér að jafna mig.“

Rifjaðu upp góðar minningar. Reyndu að rifja upp ánægjulegar stundir sem þú og ástvinur þinn áttuð saman, til dæmis með því að skoða ljósmyndir. Það gæti að vísu verið sársaukafullt til að byrja með. En með tímanum gætu þessar minningar hjálpað þér að jafna þig í stað þess að valda sársauka.

Þú gætir meira að segja haldið dagbók og skrifað niður ánægjulegar minningar, jafnvel ýmislegt sem þú vildir hafa sagt við hin látna meðan hann var enn á lífi. Það getur verið auðveldara að átta sig á tilfinningum sínum þegar maður sér þær á blaði. Dagbókarskrif gætu líka verið ágætis leið fyrir þig til að fá útrás fyrir tilfinningarnar.

Er gott að hafa hluti sem minna á hinn látna? Það eru skiptar skoðanir á því, enda engin furða þar sem fólk syrgir á mismunandi hátt. Sumum finnst slíkir hlutir koma í veg fyrir að maður nái sér. Öðrum finnst þeir gagnlegir. Sally, sem áður var vitnað í, segir: „Ég geymi ýmislegt sem mamma átti. Það er góð leið til að vinna úr sorginni.“ *

Treystu á „Guð allrar huggunar“. Í Biblíunni segir: „Varpa áhyggjum þínum á Drottin, hann mun bera umhyggju fyrir þér.“ (Sálmur 55:23) Bænir til Guðs eru ekki eins konar tilfinningaleg hækja heldur raunveruleg og nauðsynleg samskipti við „Guð allrar huggunar sem hughreystir . . . í sérhverri þrenging“. — 2. Korintubréf 1:3, 4.

Orð Guðs, Biblían, veitir mestu huggunina. Páll postuli sagði: „Þá von hef ég til Guðs . . . að upp muni rísa bæði réttlátir og ranglátir.“ (Postulasagan 24:15) Þegar maður syrgir látinn ástvin getur mesta huggunin verið fólgin í að hugleiða upprisuvonina sem er að finna í Biblíunni. * Kona, sem heitir Lauren, tekur undir þetta en hún missti bróður sinn í slysi þegar hann var á unglingsaldri. „Ég tók Biblíuna og las í henni þó ekki væri nema eitt vers, sama hversu illa mér leið,“ segir hún. „Ég valdi sérstaklega uppörvandi vers og las þau aftur og aftur. Ég fann til dæmis mikla huggun í orðum Jesú, þegar hann sagði við Mörtu eftir dauða Lasarusar: ,Bróðir þinn mun upp rísa.‘“ — Jóhannes 11:23.

„Þú þarft ekki að láta stjórnast af sorginni“

Til að takast á við lífið er best fyrir þig að vinna úr sorginni þótt það geti verið erfitt. Ekki fá sektarkennd eins og þú værir að svíkja ástvin þinn eða gleyma honum af því að þú jafnar þig á sorginni. Sannleikurinn er sá að þú munt aldrei gleyma hinum látna. Minningarnar hellast yfir þig við ákveðnar aðstæður en sorgin verður smátt og smátt léttbærari.

Þú átt eflaust líka eftir að rifja upp ljúfsárar minningar með hlýhug eins og Ashley sem var nefnd í greininni á undan. Hún segir: „Næstsíðasti dagurinn, sem mamma lifði, er mér mjög minnistæður. Henni virtist líða betur og fór fram úr í fyrsta skipti í marga daga. Á meðan systir mín greiddi mömmu fórum við allar þrjár að hlægja að einhverju, og ég sá mömmu brosa sem hún hafði ekki gert lengi. Hún var svo ánægð að geta verið með dætrum sínum.“

Þú getur líka íhugað ýmislegt gott sem þú lærðir af ástvini þínum. Sally hefur þetta að segja: „Mamma var frábær kennari. Hún gaf manni mjög góð ráð án þess að það hljómaði eins og ráðleggingar, og hún kenndi mér að taka réttar ákvarðanir sem voru mínar eigin en ekki bara það sem pabbi eða mamma sögðu mér að gera.“

Minningar um ástvin þinn geta einmitt verið það sem þú þarft til að halda áfram að takast á við lífið. Ungur maður að nafni Alex komst einmitt að því. Hann segir: „Eftir að pabbi dó hét ég því að lifa á þann hátt sem hann hafði kennt mér og gleyma aldrei að hafa ánægju af lífinu. Ég vil segja við þá sem hafa misst föður eða móður: ,Þú sættir þig aldrei við dauða foreldris, en þú þarft ekki að láta stjórnast af sorginni. Syrgðu eins mikið og þú þarft, en ekki gleyma að lífið heldur áfram og þú verður að gera það besta úr því.‘“

[Neðanmáls]

^ Við slíkar aðstæður skaltu forðast að taka skjótar ákvarðanir eins og varðandi flutninga eða nýtt ástarsamband. Þú ættir ekki að stíga slík skref fyrr en þú hefur haft nægan tíma til að venjast nýjum og breyttum aðstæðum.

^ Þótt áfengi geti eitthvað dregið úr sárustu sorginni eru áhrifin skammvinn. Þegar til lengdar lætur hjálpar áfengið þér ekki að fást við sorgina og getur þar að auki orðið vanabindandi.

^ Þar sem fólk syrgir með mismunandi hætti ættu vinir og ættingjar ekki að þröngva skoðunum sínum um þessi mál upp á syrgjendur. — Galatabréfið 6:2, 5.

^ Upplýsingar um eðli dauðans og fyrirheit Guðs um upprisu er að finna í 6. og 7. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? sem Vottar Jehóva gefa út.

[Innskot á blaðsíðu 8]

„Ég tók Biblíuna og las í henni þó ekki væri nema eitt vers, sama hversu illa mér leið.“ — Lauren

[Rammi/mynd á blaðsíðu 7]

AÐ TAKAST Á VIÐ SEKTARKENND

Ef til vill finnst manni að einhver vanræksla af manns eigin hálfu hafi átt þátt dauða ástvinarins. Það getur í sjálfu sér verið gagnlegt að gera sér ljóst að sektarkennd — af raunverulegum eða ímynduðum orsökum — er eðlileg sorgarviðbrögð. Hér ætti enn sem fyrr ekki endilega að byrgja slíkar tilfinningar inni. Tali maður um sektarkennd sína getur það veitt manni þá útrás sem svo mikil þörf er á.

Gerum okkur þó ljóst að hversu mjög sem við elskum einhvern getum við ekki stjórnað lífi hans, og ekki getum við heldur hindrað að „tími og tilviljun“ mæti ástvinum okkar. (Prédikarinn 9:11) Auk þess er ekki að efa að hvatirnar voru ekki slæmar. Var það til dæmis ætlunin, með því að leita ekki fyrr til læknis, að láta ástvin sinn veikjast og deyja? Að sjálfsögðu ekki! Er maður þá í raun og veru sekur um að valda dauða hans? Nei.

Móðir lærði að takast á við sektarkenndina eftir að dóttir hennar fórst í bílslysi. Hún útskýrir: „Mér fannst ég sek fyrir að hafa sent hana út. En síðan gerði ég mér ljóst að það væri fáránlegt að finnast það. Það var ekkert rangt við að biðja hana um að fara í sendiferð með föður sínum. Þetta var bara hræðilegt slys.“

,En það er svo margt sem ég vildi að ég hefði sagt eða gert,‘ segir maður ef til vill. Satt er það, en hver okkar getur sagt að við höfum verið hinn fullkomni faðir, móðir eða barn? „Allir hrösum við margvíslega,“ minnir Biblían okkur á. „Hrasi einhver ekki í orði, þá er hann maður fullkominn.“ (Jakobsbréfið 3:2; Rómverjabréfið 5:12) Viðurkennum því þá staðreynd að við erum ekki fullkomin. Það breytir engu að hugsa sífellt „ef aðeins“ þetta eða hitt, en það gæti aftur á móti valdið því að við verðum lengur að ná okkur. *

[Neðanmáls]

^ Efnið í þessum ramma er tekið úr bæklingnum Þegar ástvinur deyr. . . sem Vottar Jehóva gefa út.

[Mynd á blaðsíðu 6]

Stundum þarf aldrað foreldri, sem syrgir ástvin, að hugga uppkominn son eða dóttur sem syrgir líka.

[Myndir á blaðsíðu 9]

Að halda dagbók, skoða myndir og þiggja hjálp eru leiðir til að takast á við ástvinamissi.