Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvers vegna að spara í stað þess að eyða?

Hvers vegna að spara í stað þess að eyða?

Hvers vegna að spara í stað þess að eyða?

„ÞAÐ er ekkert gaman að spara,“ segja margir. „En að kaupa föt, græjur og svoleiðis, það er gaman.“

Hvort sem þú hefur orðið fyrir áhrifum af efnahagshruninu í heiminum eða ekki er bæði gagnlegt fyrir þig að skoða hvernig þú getur sparað og hvernig þú getur farið skynsamlega með peninga. Hugleiddu ráð sem koma frá áreiðanlegri heimild og hafa hjálpað milljónum manna í aldanna rás að takast á við fjárhagserfiðleika.

Þrjú forn heilræði

Í einni af dæmisögum sínum benti Jesús frá Nasaret á mikilvæga meginreglu varðandi fjármál. Í þessari dæmisögu segir húsbóndi við þjón sinn: „Þú áttir því að leggja fé mitt í banka. Þá hefði ég fengið það með vöxtum þegar ég kom heim.“ (Matteus 25:27) Það sem Jesús sagði hefur sérstakt gildi fyrir okkar daga. Skoðum hvers vegna.

Ekki er langt síðan vextir voru svo háir í sumum löndum að upphæðin, sem lögð var í banka, meira en tvöfaldaðist á tíu árum. Nú til dags bjóða reyndar ekki margir bankar upp á svo háa innlánsvexti og arður af fjárfestingum er ekki alltaf jafn mikill og fjárfestar vona. Þrátt fyrir það er skynsamlegt að eiga varasjóð fyrir neyðartilfelli.

Biblían bendir á þá staðreynd og segir: „Spekin veitir forsælu eins og silfrið veitir forsælu.“ (Prédikarinn 7:12) En peningar veita þér ekki forsælu eða vernd nema þú leggir eitthvað til hliðar. Hver og einn ætti því að „leggja í sjóð . . . það sem efni leyfa til“, eins og Biblían ráðleggur. – 1. Korintubréf 16:2.

Hvernig hægt er að spara

1. Áður en þú kaupir dýran hlut skaltu hugleiða hvort þú þurfir nauðsynlega á honum að halda.

2. Ef þú þarft að kaupa eitthvað skaltu leita eftir því á útsölu eða kaupa notað og vel með farið. Espen og Janne, foreldrar sem búa í Noregi, þurftu að kaupa barnavagn fyrir Daniel, son sinn. Þau fengu notaðan en nýlegan vagn á hálfvirði. „Þegar Daníel vex upp úr honum er ég viss um að við getum selt hann á góðu verði,“ segir Espen en bendir jafnframt á að það geti verið mjög tímafrekt að leita eftir hlutum á góðu verði. *

3. Forðastu skyndikaup. Sofðu á málinu. Ef þú ert enn viss um að þú þurfir að kaupa hlutinn gætirðu athugað hvort þú fáir hann á útsölu- eða nytjamarkaði. Þú getur líka oft sparað peninga ef þú freistast ekki til að kaupa vörur með þekktum vörumerkjum. Hvers vegna ekki að fá notuð föt af öðrum í stað þess að kaupa tískuföt á börnin þín í dýrum búðum?

Nýbökuð móðir gæti einnig valið að nota taubleyjur sem hægt er að þvo. Samkvæmt vef Ríkisútvarpsins „er áætlað að bréfbleyjunotkun hvers barns kosti um þrjúhundruð þúsund krónur. Með því að nota taubleyjur er hægt að ná þeim kostnaði niður í 90 þúsund eða minna. Þá eru ótalin umhverfisáhrifin en ein bréfbleyja getur verið mörg hundruð ár að eyðast.“

4. Það er yfirleitt ódýrara að kaupa hráefnið og elda matinn heima en að fara út að borða. Ef þú átt börn á skólaaldri væri þá ekki góð hugmynd að kenna þeim að búa til samlokur frekar en að láta þau fá peninga til að kaupa sér dýrara nesti úti í búð? Og í stað þess að kaupa dýra drykki væri hægt að drekka vatn. Það er bæði heilsusamlegra og ódýrara.

Það er ekki ýkja langt síðan að það var alvanalegt að fjölskyldur ræktuðu sitt eigið grænmeti. Gætirðu hugsað þér að gera eitthvað slíkt? Margir, líka þeir sem búa í fjölbýlishúsum eða litlum einbýlishúsum, hafa eitthvert pláss sem þeir geta notað til að koma sér upp grænmetisreit. Það gæti komið þér á óvart hversu mikið hægt er að rækta á litlum moldarbletti.

Lítum á fleira. Ef þú þarft á farsíma að halda gætirðu þá notað hann einungis þegar mikið liggur við og keypt fyrirframgreitt símkort? Ef þú átt þurrkara gætirðu ef til vill takmarkað notkun hans. Geturðu kannski hengt eitthvað af þvottinum upp á snúru – stundum jafnvel allan þvottinn? Gætirðu notað orkufrek raftæki sparlega? Hugleiddu hvort þú þurfir yfirleitt að kveikja á tækinu eða vera með það í biðstöðu langtímum saman. Þú gætir einnig fengið ráð hjá öðrum um hvernig hægt sé að minnka rafmagnsnotkunina á heimilinu.

Það væri einnig skynsamlegt að stofna sparnaðarreikning. En Hilton, sem er í sjálfboðavinnu í Suður-Afríku, segir: „Það er ekki skynsamlegt að leggja öll eggin í sömu körfu. Stundum fara bankar og fjármálastofnanir á hausinn. Við höfum upplifað það.“ Það væri því viturlegt að eiga viðskipti við banka þar sem ríkið ábyrgist innistæður ef vera skyldi að hann færi í þrot.

Að losa sig úr skuldum

1. Reyndu að borga meira en venjulega lágmarksafborgun af lánum eða kreditkortaskuldum í hverjum mánuði.

2. Borgaðu fyrst niður skuldir eða lán sem bera hæstu vexti.

3. Hafðu stjórn á eyðslunni. Það er sérstaklega mikilvægt.

Hefurðu freistast til að kaupa hluti vegna auglýsingaáróðurs? Danny, sem er fjölskyldufaðir í Svíþjóð, viðurkennir það. Hann átti stöndugt fyrirtæki en varð að selja það til að geta borgað kreditkortaskuldir sínar. Hann lærði sína lexíu og hefur nú góða stjórn á fjármálum sínum. Hann gefur þetta ráð: „Varastu græðgi. Vertu nægjusamur og lifðu ekki um efni fram.“

Eðlilegar skuldir

Mjög fáir eru í þeirri aðstöðu að geta staðgreitt hús eða íbúð. Margir kaupa því fasteign með því að taka lán í banka eða hjá lánasjóði. Það sem greitt er mánaðarlega af láninu mætti líta á sem leigu fyrir húsið. En þegar búið er að greiða niður lánið, sem tekur yfirleitt mörg ár, eiga þeir húsið.

Mörgum finnst einnig góð hugmynd að taka lán til að geta keypt sér sparneytið farartæki. Ef lánið er borgað hratt niður verður bíllinn verðmæt eign sem mætti líta á sem innistæðu á reikningi. * Sumum finnst skynsamlegt að kaupa notaðan bíl sem er vel með farinn og lítið keyrður. Aðrir spara peninga með því að nota almenningssamgöngur eða jafnvel reiðhjól.

Hvað sem þú velur að gera skaltu vera hógvær og raunsær í kaupum og taka vel ígrundaðar ákvarðanir. Bruðl og kæruleysi getur komist upp í vana og leitt af sér margs konar erfiðleika. Leggðu þig þess vegna fram um að vera varkár og hygginn neytandi því að það getur verið þér til gæfu.

Ef þú vilt vera hagsýnn og una glaður við þitt þarftu að læra að fara vel með peninga. Um það fjallar næsta grein.

[Neðanmáls]

^ Til að vera viss um að þú sért ekki að kaupa stolna hluti skaltu biðja um kvittun með nafni og heimilisfangi seljanda.

^ Hafðu í huga að ef þú verður atvinnulaus og getur ekki staðið við skuldbindingar þínar gætirðu misst húsið eða bílinn og alla þá peninga sem þú hefur lagt í þær fjárfestingar.

[Myndir á blaðsíðu 5]

LEIÐIR TIL AÐ SPARA

Leitaðu að hlutum á útsölu.

Kauptu föt á útsölu- eða nytjamörkuðum.

Kenndu börnum þínum matargerð.

[Mynd á blaðsíðu 6]

Lækkaðu matarreikninginn með því að koma þér upp litlum grænmetisgarði. Sparaðu peninga með því að þurrka þvottinn utandyra.