Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lærðu að fara vel með peninga

Lærðu að fara vel með peninga

Lærðu að fara vel með peninga

Í MEGINATRIÐUM er hægt að nota peninga á þrjá vegu: (1) Ráðstafa þeim, (2) spara þá eða (3) gefa þá. Lítum fyrst á hvernig hægt er að ráðstafa peningum skynsamlega.

Ef draga má einhvern lærdóm af kreppunni er hann að minnsta kosti sá að það er skynsamlegt að gera sér raunhæfa fjárhagsáætlun. Hvað er fjárhagsáætlun? Í stuttu máli er það áætlun um það hvernig tekjur eru notaðar, hvort sem það eru tekjur einstaklings, fjölskyldu, fyrirtækis eða ríkisstjórnar.

Sameiginlegt verkefni fjölskyldunnar

Hvernig er hægt að gera fjárhagsáætlun? „Allir í fjölskyldunni ættu að taka þátt í að gera fjárhagsáætlun heimilisins þannig að öllum finnist þeir skuldbundnir að fara eftir henni.“ Þetta segir Denise Chambers í bók sinni Budgeting. Af og til ætti fjölskyldan síðan að bera saman bækur sínar til að athuga hvernig gengur að fara eftir áætluninni. Það getur verið gefandi verkefni fyrir fjölskylduna að búa til góða fjárhagsáætlun og koma auga á leiðir til að halda sig innan marka hennar.

Sumir nota tölvuforrit til að gera fjárhagsáætlun. Aðrir nota einfaldlega blað og blýant og skipta blaðinu niður í tvo dálka, annan fyrir tekjur og hinn fyrir útgjöld. Það er einnig mikilvægt að taka með í dæmið útgjöld sem falla til aðeins einu sinni á ári, eins og sumar skattgreiðslur eða jafnvel sumarleyfisferð.

Gamalreynd aðferð er að nota umslög eða möppur merktar mat, leigu, samgöngum, rafmagni, lækniskostnaði og svo framvegis. Í hverjum mánuði setti fólk ákveðna peningaupphæð í hvert umslag eða möppu til þess að eiga fyrir þeim útgjöldum. Nú til dags finnst mörgum öruggara og einfaldara að leggja peningana inn á bankareikning og taka út eftir þörfum.

Jonathan og Anne, sem búa í Suður-Afríku ásamt tveimur dætrum sínum, nota oft umslög eins og lýst er hér á undan. Jonathan segir: „Ef launin eru lögð inn á bankareikning er jafn mikilvægt að setja sér strangar reglur um það hvernig þeim er ráðstafað. Ef peningarnir, sem áttu að fara í kjötvörur fyrir mánuðinn, eru búnir ætti ekki að taka peninga, sem ætlaðir voru til sparnaðar, til að kaupa meiri kjötvörur.“

Áður rak Jonathan fyrirtæki en hann og fjölskyldan nota nú krafta sína til að byggja samkomuhús í sjálfboðavinnu fyrir trúsystkini sín. Þau vilja gjarnan halda því áfram og þurfa þess vegna meira en nokkru sinni fyrr að fylgja góðri fjárhagsáætlun. Fjölskyldan ræðir reglulega saman um hvernig gangi að halda fjárhagsáætlunina og gera nauðsynlegar breytingar.

Mesti gleðigjafinn

Rannsóknir sýna að það er mikill gleðigjafi að gefa af sjálfum sér, af tíma sínum og kröftum og einnig af fjármunum sínum. Að gefa eins og maður hefur tök á getur verið besti kosturinn af þeim þremur sem nefndir voru í byrjun greinarinnar.

Chris Farrell nefnir í bók sinni The New Frugality að ef maður leggi fyrir geti maður látið aðra njóta góðs af því. Hann ráðleggur: „Eitt af því besta og viturlegasta sem maður getur gert við peningana sína er að gefa þá.“ * Farell bætir við: „Þegar þú veltir fyrir þér hvað skiptir mestu máli er það ekki peningar eða eignir heldur samband þitt við aðra, upplifanir þínar og sú tilfinning að gera gagn.“

Hagfræðingurinn Michael Wagner virðist á sama máli. Í bók sinni Your Money, Day One, þar sem hann hvetur ungt fólk til að spara, segir hann: „Góðsemi þín og örlæti skila sér til baka á ýmsa jákvæða vegu þegar þú tekur það upp hjá sjálfum þér að hjálpa þeim sem minna mega sín. En það besta er ánægjukenndin sem þú finnur í hjarta þínu þegar þú hjálpar náunganum.“

Í Biblíunni kemur fram að gjafmildi leiði til hamingju. Eins og áður var nefnt hefur Biblían að geyma heilræði sem geta hjálpað okkur að fara skynsamlega með efnislegar eigur okkar. Við skulum nú líta á sjö heilræði til viðbótar.

[Neðanmáls]

^ Við getum gefið peninga í formi gjafa eða gestrisni, til dæmis með því að bjóða vinum og ættingjum í mat.