Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Styður Guð hernað nú á tímum?

Styður Guð hernað nú á tímum?

Sjónarmið Biblíunnar

Styður Guð hernað nú á tímum?

DAVÍÐ Ísraelskonungur sagði um hlutverk sitt sem hermaður: „[Guð] þjálfar hendur mínar til hernaðar, arma mína til að spenna eirbogann.“ – Sálmur 18:35.

Páll skrifaði til kristinna manna: „Þótt ég sé maður berst ég ekki á mannlegan hátt því að vopnin, sem ég nota, eru ekki jarðnesk.“ – 2. Korintubréf 10:3, 4.

Stangast þessir textar á? Eða eru gildar ástæður fyrir því að Guð skyldi samþykkja að Ísraelsþjóðin til forna færi í hernað en vera mótfallinn því að kristnir menn gerðu það? Hefur skoðun Guðs á hernaði breyst? Svörin eru augljós ef við skoðum þrennt sem er verulega ólíkt með Ísraelsþjóðinni og kristna söfnuðinum.

Þrenns konar þýðingarmikill munur

1. Ísrael til forna var þjóð sem Guð hafði sett ákveðin landamæri en hún var umkringd þjóðum sem voru oft óvinveittar. Guð skipaði því þjóð sinni að verja land sitt og veitti henni jafnvel sigur yfir óvinum hennar. (Dómarabókin 11:32, 33) Hins vegar hefur kristni söfnuðurinn engin landamæri og þeir sem tilheyra honum eru af öllum þjóðum og kynþáttum. Ef fylgjendur Krists í einu landi tækju þátt í hernaði gegn annarri þjóð væru þeir að berjast gegn trúsystkinum sínum sem þeim er skylt að elska og jafnvel láta lífið fyrir. – Matteus 5:44; Jóhannes 15:12, 13.

2. Í Ísrael til forna var mennskur konungur og hásæti hans var í Jerúsalem. Sannkristnir menn eru hins vegar undir stjórn Jesú Krists en hann ríkir nú sem voldug andavera á himnum. (Daníel 7:13, 14) Jesús sagði sjálfur: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi. Væri mitt ríki af þessum heimi hefðu þjónar mínir barist svo ég yrði ekki framseldur Gyðingum. En nú er ríki mitt ekki þaðan.“ (Jóhannes 18:36) Ekkert pólitískt ríki nú á tímum getur haldið því fram að það stjórni á vegum Krists. Hvaða þýðingu hefur það fyrir „þjóna“ Jesú, það er að segja fylgjendur hans? Þriðja atriðið skýrir það.

3. Í Ísrael til forna, eins og hjá öðrum þjóðum, voru oft notaðir sendiboðar sem nú á tímum kallast sendiherrar eða erindrekar. (2. Konungabók 18:13-15; Lúkas 19:12-14) Kristur hefur einnig gert út sendiboða en það er tvenns konar munur á þeim og venjulegum erindrekum þjóða. Í fyrsta lagi eru allir fylgjendur Jesú sendiboðar hans. Hann sagði við þá: „Eins og faðirinn hefur sent mig, eins sendi ég yður.“ (Jóhannes 20:21) Þar sem þeir eru friðsamir erindrekar taka þeir sér ekki vopn í hönd. Í öðru lagi prédika fylgjendur Krists fyrir öllum sem vilja hlusta á boðskap þeirra. Jesús sagði: „Fagnaðarerindið um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina til þess að allar þjóðir fái að heyra það.“ (Matteus 24:14) Hann sagði einnig: „Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum . . . og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður.“ – Matteus 28:19, 20.

Því miður fá erindrekar Krists ekki alltaf hlýjar viðtökur. Þess vegna skrifaði Páll til trúboðans Tímóteusar: „Þú skalt og að þínu leyti illt þola eins og góður hermaður Krists Jesú.“ (2. Tímóteusarbréf 2:3) Vopn Tímóteusar voru auðvitað andleg og fólu meðal annars í sér ritað orð Guðs sem er kallað „sverð andans“. – Efesusbréfið 6:11-17.

Hvers vegna yfirgaf Guð Ísrael og sneri sér að kristna söfnuðinum?

Í ein 1.500 ár átti Ísraelsþjóðin sérstakt samband við Guð en það byggðist á sáttmála eða samningi. (2. Mósebók 19:5) Sá sáttmáli var gerður fyrir milligöngu Móse og fól í sér boðorðin tíu og ýmis önnur lög en öll lögðu þau áherslu á sanna tilbeiðslu og gott siðferði. (2. Mósebók 19:3, 7, 9; 20:1-17) En því miður urðu Ísraelsmenn Guði ótrúir og það gekk jafnvel svo langt að þeir drápu suma af spámönnum hans. – 2. Kroníkubók 36:15, 16; Lúkas 11:47, 48.

Að lokum sendi Jehóva son sinn, Jesú Krist, en hann var fæddur Gyðingur. Í stað þess að fagna honum sem Messíasi höfnuðu flestir Gyðingar honum. Þar með batt Guð enda á langvarandi sáttmála sinn við þjóðina og þá féll hinn táknræni veggur sem aðskildi Gyðinga frá öðrum þjóðum. * (Efesusbréfið 2:13-18; Kólossubréfið 2:14) Um svipað leyti stofnaði Guð kristna söfnuðinn og skipaði Jesú höfuð hans. Fyrir lok fyrstu aldar var söfnuðurinn orðinn fjölþjóðlegur. Pétur postuli, sem var Gyðingur, sagði: „[Guð] tekur opnum örmum hverjum þeim sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ – Postulasagan 10:35.

Vottar Jehóva reyna að taka hina frumkristnu sér til fyrirmyndar. Þeir eru þekktir fyrir að boða fagnaðarerindið meðal almennings og vera hlutlausir varðandi stjórnmál og hernað. (Matteus 26:52; Postulasagan 5:42) Þeir láta ekkert draga athygli sína frá því að boða fagnaðarerindið um Guðsríki, einu stjórnina sem útrýmir illsku og kemur á varanlegum friði á jörðinni. Páll postuli hafði þessa dásamlegu von í huga þegar hann skrifaði: „Ég bið í orðastað Krists: Látið sættast við Guð.“ (2. Korintubréf 5:20) Þessi orð eru enn mikilvægari núna þar sem síðustu dagar þessa núverandi illa heims eru brátt á enda. – 2. Tímóteusarbréf 3:1-5.

[Neðanmáls]

^ Orðið „Gyðingur“ var í fyrstu notað um fólk sem tilheyrði ættkvíslinni Júda í Ísrael. Síðar var nafnið notað yfir alla Hebrea. – Esrabók 4:12.

HEFURÐU HUGLEITT?

● Hvaða framúrskarandi eiginleika eiga kristnir menn að sýna hver öðrum? – Jóhannes 13:34, 35.

● Hvert er helsta „vopn“ kristins manns? – Efesusbréfið 6:17

● Hvaða mikilvæga boðskap kunngera fulltrúar Krists? – Matteus 24:14; 2. Korintubréf 5:20.

[Mynd á blaðsíðu 21]

Vottar Jehóva mynda fjölþjóðlegt bræðrafélag og eru hlutlausir í styrjöldum þjóða.