Bók sem þú getur treyst — 4. hluti
Medía-Persía og biblíusagan
Þetta er fjórða greinin af sjö í tímaritinu „Vaknið!“ þar sem fjallað er um þau sjö heimsveldi sem koma við sögu í Biblíunni. Markmiðið er að sýna fram á að Biblían sé trúverðug, að hún sé innblásin af Guði og að boðskapur hennar veiti von um að endir verði á þeim þjáningum sem stafa af óstjórn manna.
HALLARÚSTIR og konungagrafir gefa ekki nema óljósa mynd af auðlegð og glæsileika tvíveldisins Medíu og Persíu. Áður en ríkin tvö sameinuðust var Medía voldugra ríkið. En árið 550 f.Kr. komst Medía undir stjórn Kýrusar annars Persakonungs, og hann réð síðan yfir sameinuðu ríki Meda og Persa. Miðstöð þessa víðáttumikla heimsveldis var á svæðinu norður af Persaflóa, en það teygði sig allt frá Eyjahafi til Egyptalands og austur til norðvesturhluta Indlands. Júdea var einnig á yfirráðasvæði þess.
Medía-Persía réð yfir Gyðingaþjóðinni í meira en tvær aldir – allt frá því að Babýlon féll árið 539 f.Kr. uns Grikkir unnu Meda og Persa árið 331 f.Kr. Í mörgum bókum Biblíunnar er rætt um merka atburði sem áttu sér stað á þessu tímabili.
Trúverðug saga
Í Biblíunni segir frá því að Kýrus annar konungur hafi leyst Gyðinga úr ánauð í Babýlon. Þeim var leyft að snúa heim til Jerúsalem og endurreisa musterið sem Babýloníumenn höfðu lagt í rúst árið 607 f.Kr. (Esrabók 1:1-7; 6:3-5) Árið 1879 fannst leirkefli í rústum Babýlonar. Það er nefnt kefli Kýrusar og á því eru áletranir sem staðfesta þessa frásögu. Þar er Kýrus nefndur með nafni og lýst þeirri stefnu hans að leyfa útlægum þjóðum að snúa til heimalands síns, og jafnframt að skila trúarlegum munum þeirra sem teknir höfðu verið herfangi. Biblíuritarinn Jesaja skrásetti spádóm Jehóva um Kýrus. Þar segir: „Allt, sem mér þóknast, framkvæmir hann með því að segja við Jerúsalem: ,Þú verður endurreist og grunnur musterisins lagður.‘“ – Jesaja 44:28.
Kýrus skipaði svo fyrir að kostnaðurinn við endurreisn musterisins skyldi „greiddur úr fjárhirslu konungs“. (Esrabók 6:3, 4) Þessi ótrúlega yfirlýsing kemur heim og saman við aðrar söguheimildir. „Persakonungar höfðu það fyrir reglu að styðja endurreisn helgidóma innan heimsveldisins,“ segir í bókinni Persia and the Bible.
Í Biblíunni kemur fram að andstæðingar Gyðinga hafi síðar meir skrifað Daríusi mikla (einnig nefndur Daríus fyrsti) og véfengt að Kýrus hefði heimilað endurreisn musterisins. Daríus lét leita í skjalageymslum og fannst þá bókrolla í höfuðborginni Ahmeta (öðru nafni Ekbatana) með upprunalegum úrskurði Kýrusar. Í framhaldi af því skrifaði Daríus: „Ég, Daríus, hef gefið þessa skipun [að musterið skyldi endurbyggt], henni skal gaumgæfilega framfylgt.“ Létu menn þá af andstöðu við verkið. * – Esrabók 6:2, 7, 12, 13.
Veraldlegar sagnaheimildir styðja þessar frásagnir. Meðal annars er vitað að Kýrus dvaldist í Ahmeta að sumarlagi og kann að hafa verið staddur þar þegar hann gaf út tilskipun sína. Fornleifauppgötvanir sýna enn fremur að konungar Meda og Persa sýndu mikinn áhuga á trúarlegum málum í heimsveldi sínu og skrifuðu bréf til að skera úr deilum.
Áreiðanlegir spádómar
Í draumi, innblásnum af Guði, sá Daníel spámaður fjögur dýr koma upp úr hafinu. Þau táknuðu heimsveldin eins og þau komu fram hvert af öðru. Hið fyrsta var vængjað ljón og táknaði það Babýlon. Annað dýrið var „eins og bjarndýr“. Um það segir í spádóminum: „Því var skipað: ,Stattu upp og éttu firn af kjöti.‘“ (Daníel 7:5) Þetta ógurlega bjarndýr táknaði Medíu-Persíu.
Eins og Daníel spáði var þetta heimsveldi óseðjandi að leggja undir sig ný lönd. Kýrus vann Medíu skömmu eftir að Daníel sá sýnina og barðist síðan við grannríkin Lýdíu og Babýlon. Sonur hans, Kambýses annar, lagði undir sig Egyptaland. Síðari valdhafar Medíu-Persíu stækkuðu svo heimsveldið enn frekar.
Hvernig getum við verið viss um að þessi túlkun á spádóminum sé rétt? Í annarri sýn sér Daníel hrút stanga í vestur, norður og suður. Sá spádómur rættist þegar Medía-Persía réðst inn í önnur lönd, þar á meðal hina voldugu Babýlon. Engill Guðs túlkaði þessa sýn og sagði við Daníel: „Tvíhyrndi hrúturinn, sem þú sást, táknar konungana í Medíu og Persíu.“ – Daníel 8:3, 4, 20.
Því er við að bæta að um það bil tveim öldum áður en Babýlon féll lýsti Jesaja í spádómi hvernig Persakonungur myndi fara að því að vinna borgina. Jesaja nafngreindi jafnframt konunginn þótt hann væri ófæddur. Hann skrifaði: „Svo segir Drottinn við sinn smurða, Kýrus, sem ég hef tekið í hægri Jesaja 45:1) Bæði Jesaja og Jeremía tiltóku að ár og vötn Babýlonar myndi þorna. Þar er átt við síkin sem voru Babýlon til varnar en þau fengu vatn úr Efrat. (Jesaja 44:27; Jeremía 50:38) Grísku sagnaritararnir Heródótos og Xenófón staðfesta að biblíuspádómurinn hafi ræst nákvæmlega og nefna jafnframt að Babýloníumenn hafi haldið mikla veislu nóttina sem Kýrus vann borgina. (Jesaja 21:5, 9; Daníel 5:1-4, 30) Kýrus hafði veitt Efrat úr farvegi hennar og hersveitir hans komust því greiðlega inn í borgina um hliðin sem stóðu opin meðfram ánni. Mótspyrna var harla lítil. Hin volduga Babýlon féll á einni nóttu.
höndina á til að leggja undir hann þjóðir . . . til að opna hlið fyrir honum svo að borgarhlið verði ekki lokuð.“ (Þessi atburður varð til þess að annar stórmerkur spádómur rættist. Jeremía hafði spáð því löngu áður að þjóð Guðs yrði í útlegð í Babýlon í 70 ár. (Jeremía 25:11, 12; 29:10) Þessi spádómur rættist á réttum tíma og hinum útlægu var leyft að snúa heim.
Loforð sem þú getur treyst
Skömmu eftir að Medía-Persía vann Babýlon skrásetti Daníel merkan spádóm. Þessi spádómur varpar ljósi á geysilega þýðingarmikinn atburð sem er þáttur í fyrirætlun Guðs með mannkynið. Gabríel engill upplýsti Daníel nákvæmlega um hvenær komu Messíasar væri að vænta – hans sem spáð var fyrir í 1. Mósebók 3:15. Engillinn sagði: „Frá því að orð barst um endurreisn og endurbyggingu Jerúsalem, allt til komu hins smurða, líða sjö vikur og á sextíu og tveim vikum verður hún endurreist.“ (Daníel 9:25) Samanlagt eru þetta 69 vikur. Hvenær hófst tímabilið sem hér um ræðir?
Þótt Kýrus hafi leyft Gyðingum að snúa heim skömmu eftir að Babýlon féll leið og beið áður en borgarmúrar Jerúsalem voru reistir að nýju. Árið 455 f.Kr. heimilaði Artaxerxes konungur Nehemía byrlara sínum, sem var Gyðingur, að fara heim til Jerúsalem og stjórna endurreisn múranna. (Nehemíabók 2:1-6) Það var þá sem vikurnar 69 hófust.
Ekki var þó um að ræða 69 bókstaflegar vikur heldur stendur hver vikudagur fyrir heilt ár. Þetta kemur reyndar fram í sumum biblíuþýðingum þar sem talað er um vikur ára eða sjöundir ára. * (Daníel 9:24, 25) Messías átti að koma fram eftir 69 „vikur“ sem væru 7 ár hver, eða eftir samtals 483 ár. Spádómurinn rættist árið 29 þegar Jesús lét skírast en þá voru nákvæmlega 483 ár liðin frá árinu 455 f.Kr. *
Spádómur Daníels rættist nákvæmlega og það skýtur enn styrkari stoðum undir það að Jesús sé Messías. Og í því er fólgin trygging fyrir voninni sem við höfum um betri tíma. Sem konungur ríkis Guðs á himnum mun Jesús binda enda á grimmdarstjórn manna. Hann uppfyllir síðan marga aðra spádóma Biblíunnar, þar á meðal spádómana sem segja að þeir sem dáið hafa hljóti upprisu og eilíft líf í paradís á jörð. – Daníel 12:2; Jóhannes 5:28, 29; Opinberunarbókin 21:3-5.
^ Að minnsta kosti þrír konungar eru nefndir Daríus.
^ Sjá til dæmis íslensku biblíuna frá 1859 en þar er talað um „sjöundir (ára)“.
^ Ítarlega umfjöllun um þennan spádóm er að finna í bókinni Hvað kennir Biblían?, bls. 197-199. Þar er einnig að finna skýringarmynd með tímalínu yfir áravikurnar 69.