Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig er hægt að stuðla að farsælu hjónabandi?

Hvernig er hægt að stuðla að farsælu hjónabandi?

Sjónarmið Biblíunnar

Hvernig er hægt að stuðla að farsælu hjónabandi?

„Skaparinn gerði þau frá upphafi karl og konu og sagði: Fyrir því skal maður yfirgefa föður og móður og búa með konu sinni og þau tvö skulu verða einn maður. . . . Það sem Guð hefur tengt saman má eigi maðurinn sundur skilja.“ – Orð Jesú Krists samkvæmt Matteusi 19:4-6.

Í HEIMI þar sem siðferðisviðmið taka stöðugum breytingum líta margir ekki lengur á hjónabandið sem dýrmætt og varanlegt. Leiðir margra hjóna skilja þegar líkamlegt aðdráttarafl dvínar eða þegar vandamál láta á sér kræla – jafnvel þótt þau séu ekki alvarleg. Það sorglega er að oft eru það börnin sem verða verst úti.

Fyrir þá sem hafa lært hvað Biblían kennir kemur þetta ekki á óvart. Í henni var spáð að á „síðustu dögum“, tímanum sem við lifum á núna, myndi fólk almennt skorta þá eiginleika sem eru nauðsynlegir til að halda fjölskyldunni sameinaðri. Þá er átt við eiginleika eins og tryggð, ástúð og einlægan kærleika. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Hefur þú áhyggjur af því hvernig skortur á góðum gildum hefur slæm áhrif á fjölskyldulíf margra? Er hjónabandið dýrmætt í þínum augum?

Ef svo er geturðu leitað huggunar í Biblíunni vegna þess að örugg og óbrigðul ráð hennar hjálpa mörgum hjónum enn þann dag í dag. Hugleiddu til dæmis eftirfarandi fimm ráð sem byggð eru á meginreglum Biblíunnar og geta skipt sköpum fyrir hjónabandið. *

Fimm ráð sem stuðla að farsælu hjónabandi

(1) Líttu á hjónabandið sem heilagt. Eins og sjá má af orðum Jesú, sem vitnað er í vinstra megin á síðunni, líta bæði hann og skaparinn, Jehóva Guð, á hjónabandið sem heilagt. Þetta kemur skýrt fram í fyrirmælum sem Guð gaf ákveðnum mönnum fortíðar þegar þeir skildu við konur sínar til að giftast yngri konum. „Þú hefur svikið konuna sem þú eignaðist í æsku,“ sagði Guð. „Hún var förunautur þinn, og þú hefur svikið hana, jafnvel þótt þú hafir lofað frammi fyrir Guði að þú myndir ekki bregða trúnaði við hana.“ Síðan kom Jehóva með þessa sterku yfirlýsingu: „Ég hata þegar einhver ykkar fer svo grimmilega með eiginkonu sína.“ (Malakí 2:14-16, Today’s English Version) Jehóva lítur greinilega ekki léttvægum augum á hjónabandið og hann tekur eftir hvernig hjón koma fram hvort við annað.

(2) Vertu ábyrgur eiginmaður. Þegar ræða þarf mikilvægt fjölskyldumál verður einhver að taka lokaákvörðun í málinu. Biblían ætlar eiginmanninum það hlutverk. „Maðurinn er höfuð konunnar,“ segir í Efesusbréfinu 5:23. En forystuhlutverkið gefur honum ekki leyfi til að stjórna konu sinni með harðræði. Eiginmaður ætti að hafa í huga að hann og eiginkonan eru „einn maður“ og hann ætti að sýna henni virðingu og ráðgast við hana þegar leysa þarf fjölskyldumál. (1. Pétursbréf 3:7) Í Biblíunni er eiginmönnum einnig sagt að „elska konur sínar eins og eigin líkama“. – Efesusbréfið 5:28.

(3) Veittu eiginmanni þínum stuðning. Í Biblíunni er eiginkonunni lýst sem „meðhjálp“ mannsins. (1. Mósebók 2:18) Sem slík hefur hún til að bera góða eiginleika sem styrkja hjónabandið. Og þar sem hún er meðhjálp hans er hún ekki í samkeppni við mann sinn heldur veitir honum ástúðlegan stuðning. Það stuðlar að friði í fjölskyldunni. Í Efesusbréfinu 5:22 kemur fram að konan eigi að vera manni sínum undirgefin. En hvað ef eiginkonan er ekki sammála manni sínum í einhverju máli? Þá ætti henni að finnast hún geta tjáð skoðun sína á kurteislegan hátt, alveg eins og hún vill að eiginmaðurinn tali við hana.

(4) Verið raunsæ og búist við erfiðleikum. Hugsunarlaus og óvinsamleg orð, fjárhagserfiðleikar, alvarleg veikindi eða álagið sem fylgir barnauppeldi getur reynt verulega á hjónabandið. Biblían segir þess vegna réttilega um þá sem ganga í hjónaband: „Erfitt verður slíkum lífið hér á jörðu.“ (1. Korintubréf 7:28) En erfiðleikar eða raunir þurfa ekki endilega að veikja hjónabandið. Ef maður og kona elska hvort annað og nota viskuna sem þau hafa lært í orði Guðs hafa þau alla möguleika á að geta leyst vandamál sem annars valda sundrungu. Býrð þú yfir visku til að leysa vandamál sem upp geta komið í fjölskyldunni þinni? Í Biblíunni segir: „Ef einhvern yðar brestur visku, þá biðji hann Guð, sem gefur öllum örlátlega og átölulaust, og honum mun gefast.“ – Jakobsbréfið 1:5.

(5) Verið hvort öðru trú. Fátt grefur meira undan hjónabandinu en framhjáhald og það er eina gilda ástæðan fyrir skilnaði í augum Guðs. (Matteus 19:9) „Hjúskapurinn sé í heiðri hafður í öllum greinum og hjónasængin sé óflekkuð því að hórkarla og frillulífismenn mun Guð dæma,“ segir í Biblíunni. (Hebreabréfið 13:4) Hvernig geta hjón forðast þá freistingu að fullnægja kynhvötinni utan hjónabandsins? Biblían segir: „Karlmaðurinn gæti skyldu sinnar gagnvart konunni og sömuleiðis konan gagnvart karlmanninum.“ – 1. Korintubréf 7:3, 4.

Sumum gæti fundist þessi fimm ráð vera óraunsæ eða gamaldags. En reynslan segir annað. Í Biblíunni er sagt frá einstaklingi sem fer eftir leiðbeiningum Guðs á öllum sviðum lífsins og hvernig honum gengur: „Hann er sem tré gróðursett hjá lindum, það ber ávöxt sinn á réttum tíma og blöð þess visna ekki. Allt, sem hann gerir, lánast honum.“ (Sálmur 1:2, 3) Ef við fylgjum leiðbeiningum Guðs fáum við þess vegna hjálp til að eiga farsælt hjónaband.

[Neðanmáls]

^ Nánari upplýsingar og ráð varðandi hjónabandið er að finna í erlendri útgáfu af Varðturninum 1. febrúar 2011.

HEFURÐU HUGLEITT?

● Hvernig lítur Guð á hjónaskilnað? – Malakí 2:14-16, Biblían 1981.

● Hvernig á eiginmaður að koma fram við konuna sína? – Efesusbréfið 5:23, 28.

● Hvar fáum við viturleg ráð sem stuðla að farsælu hjónabandi? – Sálmur 1:2, 3.