Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Mikilvægasta spurningin

Mikilvægasta spurningin

Mikilvægasta spurningin

„ÞAÐ er varla hægt að hugsa sér að nokkuð skipti manninn meira máli en að fá svar við spurningunni: ,Er til Guð?‘“ Þetta segir erfðafræðingurinn Francis S. Collins. Hann hefur mikið til síns máls. Ef enginn Guð er til eru ekki til nein æðri máttarvöld sem geta leiðbeint okkur í lífinu, sérstaklega í siðferðilegum málum. Við þurfum þá bara að bjarga okkur ein og óstudd.

Sumir efast um tilvist Guðs af þeirri einföldu ástæðu að margir vísindamenn trúa ekki á Guð. Almennar skoðanir geta þó stundum verið kolrangar eins og sýnt er fram á í greininni á eftir.

Það er dapurlegt að mörg af trúarbrögðum heims skuli hafa aukið á ringulreiðina með því að halda fram kenningum sem stangast á við góð og gild vísindi. Dæmi um það er sú óbiblíulega skoðun að Guð hafi skapað heiminn á sex sólarhringum fyrir nokkur þúsund árum.

Sökum þess hve hugmyndir og kenningar manna eru margbreytilegar hafa margir gefist upp á að leita sannleikans um tilvist Guðs. En getur nokkuð verið mikilvægara – eða afdrifaríkara – en að fá áreiðanlegt svar við þessari grundvallarspurningu lífsins? Enginn maður hefur auðvitað séð Guð og ekkert okkar var heldur sjónarvottur að því þegar alheimurinn varð til og lífið kviknaði. Hvort sem við trúum á Guð eða ekki byggjast skoðanir okkar að vissu leyti á trú. En hvers konar trú?

Trú byggð á gildum rökum

Trú er mikilvægur þáttur í lífi okkar, að minnsta kosti á mörgum sviðum. Við ráðum okkur í vinnu í trausti þess að fá greidd laun. Við sáum fræi í jörð og erum sannfærð um að það beri ávöxt. Við treystum vinum okkar. Og við trúum á náttúrulögmálin sem stjórna alheiminum. Þetta er upplýst trú vegna þess að hún byggist á þekkingu og rökum. Trú á Guð er byggð á sams konar grunni.

Í Biblíunni stendur: „Trúin er . . . sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá.“ (Hebreabréfið 11:1) Í annarri biblíuþýðingu segir: „Trú . . . veitir okkur vissu fyrir veruleika sem við sjáum ekki.“ (The New English Bible) Lýsum þessu með dæmi: Segjum að þú sért að ganga á sjávarströnd. Skyndilega skelfur jörðin undir fótum þér. Þú sérð fjara út með ógnarhraða og veist þegar í stað hvað er á seyði. Skjálftaflóðbylgja er yfirvofandi. Hér er það skjálftinn og hratt útfallið sem sannfærir þig um þann veruleika sem þú ert ekki enn búinn að sjá, það er að segja yfirvofandi flóðbylgjuna. Þessi upplýsta trú hefur þau áhrif að þú forðar þér með hraði.

Trúin á Guð ætti að vera upplýst trú byggð á þekkingu og sannfærandi rökum. Þá fyrst getur Guð verið ósýnilegur veruleiki fyrir þér. En þarftu að vera vísindamaður til að vega og meta rökin fyrir tilvist Guðs? Nóbelsverðlaunahafinn Vladimir Prelog bendir á að „nóbelsverðlaunahafar séu ekki fróðari en aðrir um Guð, trú og líf eftir dauðann“.

Heiðarleiki og sannleiksþorsti ætti að vera þér hvatning til að skoða vísbendingarnar með opnum huga og draga síðan rökréttar ályktanir af þeim. Hvaða rök og vísbendingar er hægt að skoða?

[Mynd á bls. 3]

Bóndinn trúir að fræið spíri og beri ávöxt.