Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

„Maður finnur óneitanlega fyrir þörfinni að biðja til Guðs þegar maður gegnir forsetaembætti.“ – BARACK OBAMA, FORSETI BANDARÍKJANNA.

Aðspurðir sögðust 56 prósent Argentínumanna á aldrinum 10 til 24 ára myndu velja að klæðast treyju fótboltalandsliðsins til þess að sýna þjóðarstolt. – LA NACIÓN, ARGENTÍNU.

Niðurstöður rannsóknar benda til þess að „um það bil þriðjungur matvæla, sem framleiddur er í heiminum til manneldis, fari til spillis. Það samsvarar um 1,3 milljörðum tonna á ári.“ – MATVÆLA- OG LANDBÚNAÐARSTOFNUN SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA, ÍTALÍU.

„Hernaðartíðindi berast úr öllum áttum. Þar af leiðandi þarf her föðurlandsins ávallt að vera viðbúinn til þess að vernda þjóðina og það sem er henni heilagt fyrir sérhverjum kröfum utanaðkomandi óvinar.“ – KIRILL PATRÍARKI, YFIRMAÐUR RÚSSNESKU RÉTTTRÚNAÐARKIRKJUNNAR.

Umferðarslys eru algengust á milli klukkan sjö og átta á morgnana ef marka má tjónatilkynningar sem bárust þýsku tryggingarfélagi árið 2010. „Ein besta leiðin til að koma í veg fyrir slys er að taka sér nógu góðan tíma til að komast í vinnu á morgnana,“ segir einn af yfirmönnum fyrirtækisins. – PRESSEPORTAL, ÞÝSKALANDI.

Ungir leiðtogar í Malasíu

Vinsæll sjónvarpsþáttur í Malasíu gengur út á það að velja góðan imam, eða íslamskan trúarleiðtoga. Þátturinn kallast „Imam Muda“ eða „Ungur leiðtogi“ og er tekinn upp í Kúala Lúmpúr. Keppendur eru á aldrinum 18 til 27 ára og þeir hafa mismundi bakgrunn. Í keppninni eru þeir slegnir út hver á fætur öðrum þangað til aðeins einn stendur eftir. Verðlaunin eru bæði peningar og glænýr bíll en sigurvegaranum er líka boðið ýmislegt fleira eins og að gerast imam, að fá skólastyrk til náms í Sádi-Arabíu auk pílagrímsferðar til Mekka. Keppendur verða að geta sinnt öllum störfum imams og geta rætt um bæði trúarleg álitamál og önnur. Þeir þurfa líka að geta farið með langa kafla úr Kóraninum. Þáttahöfundurinn segir það markmið sitt að „laða ungt fólk“ að íslamstrú.

Óvarkárni á Netinu

Margir notendur samskiptasíðna sjá ekki fyrir mögulegar afleiðingar þess að birta viðkvæmar upplýsingar. En óvarkárni getur átt það til að elta mann uppi síðar meir. Haft var eftir skólastjóranum Timothy Wright í ástralska blaðinu Sydney Morning Herald: „Nútímatækni gerir það að verkum að orð sögð í kæruleysi, ærumeiðandi ummæli, óviðeigandi ljósmyndir eða upplýsingar um aðra eru varðveittar til langs tíma og hver sem hefur netaðgang getur nálgast þær.“ Þetta þýðir að „vinnuveitandi getur tíu árum síðar komist yfir upplýsingar um mistök sem við gerðum þegar við vorum 15 ára“, segir Wright.