Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Samskiptasíður — hvers vegna svona vinsælar?

Samskiptasíður — hvers vegna svona vinsælar?

Samskiptasíður — hvers vegna svona vinsælar?

HVAÐA samskiptaleiðir á listanum hér að neðan hefur þú notað undanfarinn mánuð?

Samræður augliti til auglitis

Handskrifað bréf eða kort

Símann

Tölvupóst

Smáskilaboð

Skyndiskilaboð

Myndsímtöl

Samskiptasíður

Aldrei hafa verið eins margar leiðir til að eiga samskipti og nú og allar hafa þær sína kosti og galla. Skoðum nokkur dæmi:

SAMRÆÐUR AUGLITI TIL AUGLITIS

Kostir: Við sjáum svipbrigði, raddbrigði og handatilburði.

Gallar: Báðir þurfa að vera á staðnum og í aðstæðum til að ræða saman.

HANDSKRIFAÐ BRÉF EÐA KORT

Kostir: Hlýlegt og persónulegt.

Gallar: Tekur tíma að skrifa og nokkra daga að berast viðtakanda.

TÖLVUPÓSTUR

Kostir: Getur verið fljótlegt að skrifa og berst strax.

Gallar: Oft tilfinningasnauður texti og getur verið auðvelt að misskilja.

Síðan höfum við samskiptasíðurnar og sumir vilja meina að þær séu besta leiðin til að halda sambandi við aðra. Til eru mörg hundruð samskiptasíður og um 800 milljónir manns nota vinsælustu síðuna, Facebook. Í tímaritinu Time stendur: „Ef Facebook væri þjóð væri hún sú þriðja fjölmennasta í heimi. Aðeins Kína og Indland væru fjölmennari.“ En hvað eru samskiptasíður og hvers vegna hafa þær orðið svona vinsælar?

Samskiptasíða er vefsetur sem gerir notendum kleift að deila upplýsingum með völdum hópi vina. „Þetta er frábær leið til að halda tengslum við aðra,“ segir Jean sem er 21 árs. „Það er líka þægilegt að geta sýnt vinum myndir frá ferðalögum og öðrum atburðum með því að setja þær inn á síðuna.“

Hvers vegna er ekki bara hægt að skrifa bréf? Sumir myndu segja að það sé of tímafrekt og það er dýrt ef maður þarf að fjölfalda myndir. En að nota símann? Mörgum finnst það líka tímafrekt af því að það er bara hægt að hringja í einn í einu og sumir eru ekki heima eða hafa ekki tíma til að tala þegar þú getur það. Hvað með tölvupóst? „Enginn nennir að svara tölvupósti lengur og ef þeir gera það líða oft vikur áður en þeir svara,“ segir Danielle, sem er tvítug, í kvörtunartón. „Á samskiptasíðunni skrifa ég bara stuttlega hvað ég er að gera og vinir mínir geta skrifað hvernig dagurinn þeirra var. Við fáum allar nýjustu fréttir um leið og við förum inn á síðuna. Þetta er svo einfalt.“

Samskiptasíður snúast samt ekki bara um innantómt mas. Margir nota þær til að athuga hvernig farið hafi fyrir ástvinum þegar náttúruhamfarir eiga sér stað. Gott dæmi um það er þegar jarðskjálfti og flóðbylgja skullu á Japan 11. mars 2011 og lögðu hluta landsins í rúst.

Benjamin, sem býr í Bandaríkjunum, hefur þessa sögu að segja: „Símkerfið lá niðri eftir flóðbylgjuna í Japan. Kunningi minn sagðist hafa sent tölvupóst til vinkonu okkar í Tókýó en hún hafði ekki svarað. Ég fór samstundis inn á Netið í farsímanum mínum og skoðaði síðuna hennar. Ég sá strax að hún hafði sett inn stutt skilaboð um að það væri í lagi með hana og að hún myndi segja betur frá síðar.“

Hann heldur áfram: „Til að hafa samband við vini mína, sem þekkja hana en eru ekki með samskiptasíðu, þurfti ég að senda tölvupóst á hvern og einn þeirra. Það tók tíma að hafa upp á netföngum þeirra og skrifa þeim öllum. Margir svöruðu innan nokkurra daga. En einn svaraði ekki fyrr en eftir hálfan mánuð! Þessir einstaklingar fengu svo mikinn tölvupóst frá hinum og þessum að það var erfitt fyrir þá að svara öllum. Það hefði verið mikill tímasparnaður ef þeir hefðu notað samskiptasíður. Á nokkrum mínútum hefðu allir getað fengið nýjustu fréttir.“

Samskiptasíður hafa augljóslega sína kosti. En eru einhverjar hættur sem fylgja notkun þeirra? Hverjar gætu þær þá verið og hvernig getum við gætt okkar?

[Rammi/​Myndir á bls. 5]

SVONA VIRKA ÞÆR

1. Þú setur inn skilaboð á síðuna þína (uppfærir stöðuna).

2. Allir sem eru á vinalistanum þínum sjá athugasemdina þegar þeir fara inn á sína síðu – og þú sérð athugasemdir þeirra þegar þú opnar síðuna þína.