Ungt fólk spyr
Er rangt að vera vinsæll?
Veldu orð í eyðuna og kláraðu eftirfarandi staðhæfingu:
Það er ․․․․․ til góðs að vera vinsæll.
-
A. alltaf
-
B. stundum
-
C. aldrei
RÉTTA svarið er B. Hvers vegna? Það að vera vinsæll þýðir einfaldlega að mörgum líki vel við mann – og það er ekki alltaf rangt. Í Biblíunni var sagt fyrir að kristnir menn myndu vera ,ljós fyrir lýðina‘ og að fólk myndi laðast að þeim. (Jesaja 42:6; Postulasagan 13:47) Í þeim skilningi er því hægt að segja að sannkristnir menn séu vinsælir.
Vissir þú?
Jesús var vinsæll. Jafnvel á unga aldri hafði hann öðlast „náð hjá Guði og mönnum“. (Lúkas 2:52) Í Biblíunni kemur líka fram að þegar Jesús var orðinn fullorðinn hafi ,mikill mannfjöldi fylgt honum úr Galíleu, Dekapólis, Jerúsalem, Júdeu og landinu handan Jórdanar‘. – Matteus 4:25.
Hvers vegna var það viðeigandi?
Vegna þess að Jesús var ekki að sækjast eftir heiðri eða vinsældum og hann gerði ekki hvað sem er til að hljóta viðurkenningu annarra. Hann gerði einfaldlega það sem var rétt – og sú afstaða vakti stundum hrifningu annarra. (Jóhannes 8:29, 30) En Jesús vissi að fólk skiptir auðveldlega um skoðun og að hrifningin væri bara tímabundin. Hann var meðvitaður um að sá tími kæmi að fólkið myndi vilja lífláta hann. – Lúkas 9:22.
Niðurstaða:
Vinsældir eru eins og auðæfi. Að hljóta þau er ekki alltaf rangt. Spurningin er hvað fólk gerir til að öðlast þau – eða viðhalda þeim.
Varnaðarorð:
Margir unglingar gera hvað sem er til að verða vinsælir. Sumir vilja þóknast öllum og fylgja fjöldanum. Aðrir eru yfirgangsseggir sem reyna að þvinga fólk til að líta upp til sín – jafnvel þótt það sé bara vegna ótta. *
Á næstu blaðsíðum skoðum við þessar tvær varasömu leiðir til að afla sér vinsælda. Síðan skulum við skoða betri leið.
^ Í Biblíunni er talað um yfirgangsseggi sem kallaðir voru „risarnir“ og sagt að þeir hafi verið ,víðfrægir‘. Aðalmarkmið þeirra var að upphefja sjálfa sig. – 1. Mósebók 6:4.