Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

EM 2012 — sögulegur viðburður

EM 2012 — sögulegur viðburður

EM 2012 — sögulegur viðburður

FINNST þér gaman að horfa á góðan fótboltaleik eða jafnvel taka þátt í honum? Ef svo er veistu líklega af Evrópumeistaramóti UEFA (Knattspyrnusambands Evrópu) árið 2012. Opnunarleikurinn fór fram 8. júní í Varsjá í Póllandi og úrslitaleikurinn 1. júlí í Kíev í Úkraínu. Hvaða keppni var EM 2012 og hvaða undirbúningur var lagður í hana? Og hvað gerði EM 2012 að sögulegum viðburði?

„Skrifum söguna saman“

Evrópumeistaramótið hefur verið haldið á fjögurra á fresti síðan 1960. Meðal þeirra mörgu ríkja, sem haldið hafa keppnina, eru Austurríki, Belgía, England, Frakkland, Holland, Ítalía, Júgóslavía, Portúgal, Spánn, Sviss, Svíþjóð og Þýskaland.

Í ár héldu Pólland og Úkraína lokakeppnina saman. Í Póllandi voru borgirnar Gdańsk, Poznan, Varsjá og Wroclaw gestgjafarnir en í Úkraínu fóru leikirnir fram í Donetsk, Kharkív, Kíev og Lvív.

Að sögn UEFA er þetta „í þriðja sinn sem lokakeppnin er sameiginlega haldin af tveimur löndum (þar á undan voru Belgía/​Holland árið 2000 og Austurríki/​Sviss árið 2008).“ En þrátt fyrir það var EM 2012 sögulegt. Í hvaða skilningi? Lokakeppnin í ár var ekki bara afrakstur mikillar samvinnu þessara þjóða og mótshaldaranna, heldur var þetta líka í fyrsta skipti sem keppnin fór fram í Mið- og Austur-Evrópu. Þess vegna var slagorð mótsins í ár: „Skrifum söguna saman“.

Undirbúningur

Það er auðvitað fátt jafn mikilvægt við undirbúning móts og að verða sér úti um fullnægjandi aðstöðu til að spila leikina. Þess vegna fóru borgirnar Poznan og Kharkív í endurbætur á leikvöngum sínum og hinar sex borgirnar byggðu nýja. Þessir leikvangar eiga að geta tekið á móti 358.000 áhorfendum.

Þar sem búist var við slíkum mannfjölda höfðu gestgjafarnir hugsað vel út í öryggismál. Þúsundir öryggisvarða voru í þjálfun fyrir mótið. Samkvæmt Science & Scholarship in Poland tóku þeir þátt í „140 öryggisæfingum“ þar sem þeir æfðu „mannfjöldastjórnun, að mynda öryggissvæði og samvinnu við erlenda gæslumenn“.

Af hverju var þörf á slíkum ráðstöfunum? Yfirvöld gera sér grein fyrir því að stórir íþróttaviðburðir sem þessir eru hugsanleg skotmörk hryðjuverkamanna. Reynsla fyrri ára hefur einnig sýnt að fótboltabullur og aðrir ófriðarseggir geta ógnað öryggi áhorfenda.

Öfgalaust viðhorf

Því miður fer áhugi margra áhorfenda á íþróttum langt yfir strikið. Einn þeirra sagði: „Ef það gengur illa hjá liðinu mínu finnst mér líf mitt vera innantómt og ég verð óhamingjusamur. Ef minnsta hætta væri á kjarnorkustríði held ég satt að segja að ég hefði mestar áhyggjur af því hvort það hefði áhrif á leiki helgarinnar.“

Skoðum hins vegar skynsamlegt viðhorf til afþreyingar sem fram kemur í fornu spekiriti, Biblíunni. Biblían viðurkennir gildi uppbyggilegrar afþreyingar. Hún segir: „Að hlæja hefur sinn tíma . . . og að dansa hefur sinn tíma.“ (Prédikarinn 3:1-4) Biblían hvetur líka til hófsemi. (1. Tímóteusarbréf 3:2, 11) Þess vegna væri viturlegt að fylgja leiðsögn Biblíunnar þegar við ákveðum hvað sé aðalatriðið í lífi okkar ,svo að við getum metið þá hluti rétt sem máli skipta‘. – Filippíbréfið 1:10

[Rammi/​mynd á bls. 24]

EKKERT TÓBAK Á EM 2012

Hinn 20. október 2011 tilkynnti UEFA að „öll notkun, sala og allar auglýsingar á tóbaki yrðu bannaðar á öllum leikvöngum EM 2012“. Hvaða ástæða var gefin fyrir banninu? Forseti UEFA, Michel Platini, sagði: „Bannið á tóbaki á EM 2012 snýst um að virða heilsu áhorfenda og allra þeirra sem koma að mótinu.“ Meðal þeirra sem studdu bannið var Androulla Vassiliou sem situr í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Hún hvatti gestgjafana til að láta reykingarbannið ná einnig til annarra staða eins og veitingarstaða og almenningsfarartækja. Vassiliou sagði: „Fótbolti er íþrótt sem snýst um góða heilsu og frammistöðu en reykingar um hið gagnstæða. Fótbolti og reykingar eiga enga samleið.“

[Rammi á bls. 24]

(Sjá uppsettan texta í ritinu)

PÓLLAND

VARSJÁ

Gdańsk

Poznan

Wroclaw

ÚKRAÍNA

KÍEV

Lvív

Kharkív

Donetsk

[Mynd á bls. 23]

Úrslitaleikurinn á EM 2008 milli Spánverja og Þjóðverja, haldinn á Ernst Happel-leikvanginum í Vín í Austurríki.

[Mynd á bls. 24]

Ólympíuleikvangurinn í Kíev í Úkraínu.

[Rétthafi myndar á bls. 24]

Myndir á bls. 23 og 24: Getty Images