Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fólki svíður undan ranglætinu

Fólki svíður undan ranglætinu

Fólki svíður undan ranglætinu

MICHAEL var látinn laus úr fangelsi í Texas árið 2010. Þá hafði hann setið inni í 27 ár fyrir nauðgun – sem hann var saklaus af. Hann var látinn laus eftir að DNA rannsókn sannaði sakleysi hans, en slík rannsókn var ekki möguleg þegar hann var sakfelldur. Síðar fundu yfirvöld út hverjir frömdu glæpinn en það var ekki hægt að sækja þá til saka vegna þess að brotið var fyrnt.

Margir glæpamenn þurfa aldrei að svara til saka. Dagblaðið The Telegraph skýrir til dæmis frá því að í Bretlandi hafi „óleystum morðmálum fjölgað um helming á síðasta áratug svo að margir óttast að lögreglan og dómskerfið ráði ekki við ofbeldisglæpi“.

Breska lögreglan þurfti að berjast við annars konar glæpi í ágúst í fyrra þegar óeirðir brutust út í Birmingham, Liverpool, London og á fleiri stöðum. Æstur múgur gekk berserksgang, kveikti í, braut rúður í verslunum, rændi og ruplaði. Fyrirtæki, heimili fólks og farartæki voru eyðilögð og þar með lífsviðurværi margra. Hvers vegna? Margir gerðu þetta af hreinni græðgi. En sumir virðast hafa gert þetta vegna þess að þeim fannst þeir sjálfir beittir órétti. Sumir fréttaskýrendur sögðu að óeirðaseggirnir væru vonsvikið ungt fólk sem kom úr fátækrahverfum, fannst það hornreka í samfélaginu og ekki eiga sér neina framtíð.

Job, sem sagt er frá í Biblíunni, sagði: „Kalli ég á hjálp er enga réttvísi að finna.“ (Jobsbók 19:7) Eins og þá kalla margir eftir réttlæti en allt of sjaldan fá þeir svar. Hefur einhver vald til að útrýma ranglætinu? Er vonin um réttláta framtíð aðeins barnaleg hugsjón? Til að fá svör við þessum spurningum þurfum við að skoða hvað liggur að baki ranglætinu.