Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Réttlæti undir stjórn Guðs

Réttlæti undir stjórn Guðs

Réttlæti undir stjórn Guðs

SPÁDÓMAR Biblíunnar sýna að Guð ætlar innan skamms að leysa núverandi stjórnir manna af hólmi. Hann ætlar að koma á einni stjórn, Guðsríki, þar sem Jesús Kristur ríkir sem konungur. (Opinberunarbókin 11:15) Hvernig mun ríki Guðs útrýma ranglætinu? Það mun gera það á tvo vegu.

1. Ríki Guðs mun afmá ranglátar og óhæfar stjórnir manna. Í Daníel 2:44 stendur: „Á dögum þessara konunga [mannlegra stjórna] mun Guð himnanna magna upp ríki . . . Það mun eyða öllum þessum ríkjum [manna] og gera þau að engu en standa sjálft að eilífu.“

2. Ríki Guðs mun eyða hinum illu og vernda hina réttlátu. Í Sálmi 37:10 segir: „Innan stundar er hinn óguðlegi horfinn, ef þú leitar hans er hann ekki að finna.“ Í versi 28 lesum við: „Drottinn hefur mætur á réttlæti og yfirgefur eigi sína trúuðu. Þeir verða að eilífu varðveittir.“

Hinir „trúuðu“ fá að sjá það verða að veruleika sem Jesús kenndi okkur að biðja um í faðirvorinu. Hann sagði: „Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matteus 6:10) Hver er vilji Guðs með jörðina?

Þegar stjórn Guðs fer með völd yfir jörðinni . . .

verður spillingu og kúgun útrýmt. Í Hebreabréfinu 1:9 stendur: „Þú hefur elskað réttlæti og hatað ranglæti.“ Jesús er réttlátur stjórnandi og hann ætlar að bjarga „hinum snauða, sem hrópar á hjálp, og lítilmagnanum sem enginn hjálpar . . . frá ofbeldi og ofríki leysir hann þá því að blóð þeirra er dýrmætt í augum hans.“ – Sálmur 72:12-14.

hafa allir allsnægtir. „Jörðin hefur gefið ávöxt sinn, Guð, vor Guð, blessi oss.“ (Sálmur 67:7) „Gnóttir korns verði í landinu, bylgist það á fjallatindunum.“ (Sálmur 72:16) Jesús mettaði þúsundir manna með einu kraftaverki. Það er bara forsmekkur af því sem hann mun afreka sem konungur Guðsríkis. – Matteus 14:15-21; 15:32-38.

takmarkast réttlætið ekki við mannlega getu. „Enginn skapaður hlutur er Guði hulinn, allt er bert og öndvert augum hans. Honum eigum við reikningsskil að gera.“ (Hebreabréfið 4:13) Og um Krist lesum við: „Hann mun ekki dæma eftir því sem augu hans sjá og ekki skera úr málum eftir því sem eyru hans heyra. Með réttvísi mun hann dæma hina vanmáttugu og skera með réttlæti úr málum hinna fátæku í landinu.“ – Jesaja 11:3, 4.

Guðsríki er í nánd

Síversnandi ástand heimsins ber vitni um að hann líði brátt undir lok. „Þótt óguðlegir grói sem grasið og allir illvirkjar blómstri verða þeir upprættir um aldur og ævi,“ segir í Sálmi 92:8. Hvernig má umflýja vanþóknun Guðs og vera meðal þeirra sem hann verndar? Jesús Kristur sagði: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ – Jóhannes 17:3.

Langar þig til að fá þessa dýrmætu þekkingu? Heide, Dorothy og Firuddin, sem talað er um í þessari greinasyrpu, fengu aðstoð til þess frá vottum Jehóva. Þeir vilja gjarnan svara spurningum þínum, án allra skuldbindinga eða endurgjalds.

[Rammi/​mynd á bls. 9]

ÞEGAR LÍFIÐ VIRÐIST ÓRÉTTLÁTT

Emily, sem býr í Bandaríkjunum, greindist með hvítblæði þegar hún var sjö ára. Á meðan vinir hennar hafa þurft að kljást við einstaka kvef eða flensu hefur Emily gengist undir margra ára erfiða læknismeðferð, þar á meðal lyfjameðferð. „Hvítblæði er hræðilegt!“ segir hún.

Þó að lífið hafi ekki farið mildum höndum um Emily hefur hún ekki gefið upp vonina. Hún bíður þess tíma þegar Guðsríki fer með völd og „enginn borgarbúi mun segja:,Ég er veikur.‘“ (Jesaja 33:24) Hún segir: „Uppáhaldsritningarstaðurinn minn er Markús 12:30: ,Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum.‘ Þegar ég bið til Jehóva gerir hann mig sterka. Ég þakka Jehóva fyrir að hafa gefið mér fjölskylduna mína, söfnuðinn og vonina um eilíft líf í paradís á jörð. Þessi von hefur hjálpað mér mjög mikið.“

[Myndir á bls. 8, 9]

Undir stjórn Guðsríkis verða allsnægtir matar, raunverulegt réttlæti og engir fordómar.