Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sjónarmið Biblíunnar

Þarf maður að fara í musteri, helgidóm eða kirkju til að biðja til Guðs?

Þarf maður að fara í musteri, helgidóm eða kirkju til að biðja til Guðs?

MARGIR fara reglubundið í ýmiss konar byggingar til að biðjast fyrir. Aðrir fara langar pílagrímsferðir til slíkra staða. Finnst þér þú þurfa að fara í musteri, helgidóm eða kirkju til að bera fram bænir til Guðs? Eða finnst þér þú geta talað við hann hvenær og hvar sem er? Hvað segir í Biblíunni?

Í byrjun mannkynssögunnar voru ekki til neinar trúarlegar byggingar. Foreldrar mannkyns bjuggu í fallegum garði. (1. Mósebók 2:8) Þaðan gátu þeir haft samband við Jehóva Guð, skapara sinn. Þegar fram liðu stundir fjölgaði mönnunum og réttlátir menn eins og Nói ,gengu með Guði‘ án þess að trúarleg bygging kæmi við sögu. (1. Mósebók 6:9) Þeir voru bænræknir, elskuðu Jehóva og hann hafði velþóknun á þeim.

Guð býr ekki í byggingum sem eru gerðar af mönnum

Trúfastir menn fyrr á tímum vissu að skapari jarðarinnar og víðáttu alheimsins býr ekki í byggingum sem eru gerðar af mönnum. „Býr þá Guð hjá mönnunum á jörðinni?“ spurði hinn vitri konungur Salómon. „Nei, jafnvel himinninn og himnanna himnar rúma þig ekki,“ svaraði hann réttilega. (2. Kroníkubók 6:18) Að vísu höfðu Ísraelsmenn til forna samfundatjald og síðar musteri þar sem þeir söfnuðust saman árlega til að halda trúarlegar hátíðir samkvæmt lögum Guðs. (2. Mósebók 23:14-17) En þeir gátu beðið til Guðs hvenær sem var – þegar þeir gættu hjarða sinna, unnu á akrinum, voru með fjölskyldum sínum eða þá í einrúmi. – Sálmur 65:3; Matteus 6:6.

Eins getum við beðið til Guðs hvar og hvenær sem er. Jesús Kristur, fyrirmynd okkar, fór oft á kyrrláta og óbyggða staði til að biðjast fyrir. (Markús 1:35) Til dæmis fór hann eitt sinn „til fjalls að biðjast fyrir og var alla nóttina á bæn til Guðs.“ – Lúkas 6:12.

Þar sem Jesús var Gyðingur sótti hann að staðaldri trúarlegar hátíðir í musterinu í Jerúsalem. (Jóhannes 2:13, 14) En hann sagði fyrir að sá tími kæmi þegar musterið yrði ekki lengur miðstöð sannrar tilbeiðslu. Þegar Jesús talaði við samverska konu í nánd við fjall eitt í Samaríu, þar sem musteri þjóðar hennar var, sagði hann: „Sú stund kemur að þið munuð hvorki tilbiðja föðurinn á þessu fjalli né í Jerúsalem.“ Hann bætti síðan við að hinir sönnu tilbiðjendur myndu „tilbiðja föðurinn í anda og sannleika“. – Jóhannes 4:21, 23.

Athygli Jesú beindist svo sannarlega ekki að trúarlegum byggingum heldur að sannri tilbeiðslu af einlægu hjarta. Þýddi það að sannir fylgjendur Jesú, sem seinna voru kallaðir kristnir menn, tilbæðu Guð eingöngu í einrúmi? (Postulasagan 11:26) Nei, og það af góðum og gildum ástæðum.

Tilbiðjendur Guðs eru andleg fjölskylda

Sannir þjónar Guðs eru fjölskylda, það er að segja andleg fjölskylda. (Lúkas 8:21) Góð fjölskylda gerir margt saman eins og að njóta sameiginlegra máltíða. Það styrkir fjölskylduböndin. Þetta á einnig við í trúarlegum skilningi. Safnaðarsamkomur eru eins og andleg veisla að því leyti að þar nærist hinn innri maður og trúarleg tengsl styrkjast. Páll postuli sagði: „Gefum gætur hvert að öðru og hvetjum hvert annað til kærleika og góðra verka. Vanrækið ekki safnaðarsamkomur ykkar eins og sumra er siður heldur uppörvið hvert annað.“ – Hebreabréfið 10:24, 25.

Sannir tilbiðjendur líta þess vegna svo á að samkomurnar gegni mikilvægu hlutverki. Þá á maður auðveldara með að þroska kristna eiginleika en það er ekki hægt að gera að fullu í einrúmi. Þessir eiginleikar eru meðal annars kærleiki, fyrirgefning, gæska, hógværð og friður. – 2. Korintubréf 2:7; Galatabréfið 5:19-23.

Hvar kom frumkristni söfnuðurinn saman til félagsskapar og tilbeiðslu? Hann kom oft saman á einkaheimilum. (Rómverjabréfið 16:5; Kólossubréfið 4:15) Páll postuli skrifaði til dæmis trúbróður sínum og sendi bréfið einnig til safnaðarins sem kom saman í húsi hans. – Fílemonsbréfið 1, 2.

Eins er því farið nú á tímum. Þjónar Guðs þurfa ekki íburðarmiklar byggingar til trúarathafna heldur staði sem eru hentugir og rúma alla samkomugesti. Vottar Jehóva nota slíka staði og kalla þá ríkissali. Það er reyndar mjög líklegt að ríkissalur sé á svæðinu þar sem þú býrð. Þessar byggingar eru hentugar og fábrotnar og samkomurnar látlausar. Þar fer fram söngur, bænir og umræður um biblíuleg málefni.

Vottum Jehóva þykir mikilvægt að eiga persónulegar og innilegar stundir með Guði. Þeir nota því daglega tíma til að biðja, bæði með fjölskyldum sínum og í einrúmi. „Nálægið ykkur Guði og þá mun hann nálgast ykkur,“ segir í Jakobsbréfinu 4:8.

HEFURÐU HUGLEITT?

● Býr Guð í byggingum sem menn hafa gert? – 2. Kroníkubók 6:18.

● Hvar var Jesús alla nóttina á bæn? – Lúkas 6:12.

● Hvers vegna safnast tilbiðjendur Guðs saman? – Hebreabréfið 10:24, 25.

[Innskot á bls. 11]

Er líklegra að hlustað verði á bænir þínar á ákveðnum stöðum?