Er í lagi að svindla til að fá góðar einkunnir?
Er í lagi að svindla til að fá góðar einkunnir?
ERTU í skóla? Þá veistu trúlega um einhverja bekkjarfélaga sem svindla til að fá góðar einkunnir. Þetta er mjög algengt vandamál. Árið 2008 gerði stofnunin Josephson Institute könnun sem náði til næstum 30.000 framhaldsskólanema í Bandaríkjunum og 64 prósent þeirra viðurkenndu að hafa svindlað á prófi það árið. Sumir telja að þeir séu í raun mun fleiri, eða yfir 75 prósent nemenda.
Í Evrópu er svindl líka orðið mjög algengt vandamál, sérstaklega ritstuldur. „Vefsíður, sem selja fullgerðar nemendaritgerðir, meistaraprófsritgerðir og doktorsritgerðir, valda stöðugt meiri áhyggjum,“ segir í grein sem birtist í raftímaritinu Digithum.
Hvers vegna er svindl orðið svona mikið áhyggjuefni? Hagnast þeir sem svindla eitthvað á því? Borgar það sig enn þá að vera heiðarlegur, jafnvel þótt það gæti þýtt lægri einkunnir?
Hvers vegna er svindl svona útbreitt?
Hnignandi siðferði. „Margir kennarar segja að það færist í aukana að svindla vegna þess að siðferði fari hnignandi og fólk hugsi bara um sjálft sig,“ segir í tímaritinu American School Board Journal. Nemandi nokkur sagði um bekkjarfélaga sína á braut fyrir afburðanemendur: „Við . . . svindluðum öll. Við þurftum góðar einkunnir til að komast inn í góða skóla. Við vorum góðir og heiðarlegir nemendur og ekkert siðspillt . . . Við þurftum bara að komast inn í góða háskóla.“ Sumir foreldrar hafa jafnvel smitast af þessu hugarfari. Þar sem þeim er mikið í mun að börnin sín „nái langt“ leggja þau blessun sína yfir að þau svindli eða loka augunum fyrir því. Þannig grafa þau enn frekar undan siðferðiskennd barna sinna.
Krafan um að ná árangri. Donald McCabe, stofnandi International Center for Academic
Integrity, segir að nemendur sem svindla telji að ef þeir væru heiðarlegir væru þeir verr settir en þeir sem svindla og komast upp með það.Nútímatæknin. Nemendur eiga auðveldara með að svindla og geta notað tæknilegri aðferðir við það en áður hefur þekkst. Þeir geta hlaðið niður lokaritgerðum og svarblöðum fyrir heimavinnuna af Netinu handa sér og öðrum. Oft nást ekki nema örfáir og það gefur öðrum byr undir báða vængi.
Slæmar fyrirmyndir. Það er orðið algengt meðal fullorðinna að svindla. Fólk svindlar í stórfyrirtækjum, stjórnmálum, íþróttum og jafnvel heima fyrir þar sem foreldrar svíkja undan skatti og eru óheiðarlegir í tryggingamálum. „Ef þeir sem fara með yfirráð eða þeir sem eru fyrirmyndir annarra svindla held ég að það sendi þau skilaboð til unga fólksins að það sé í lagi að svindla,“ segir David Callahan í bók sinni The Cheating Culture. En er það í lagi? Er hægt að réttlæta svindl til að fá betri einkunnir?
Af hverju ætti maður ekki að svindla?
Spyrðu þig: Hvert er markmið góðrar menntunar? Er það ekki að búa nemendur undir fjölmargar áskoranir lífsins, eins og til dæmis að greina vandamál á vinnustað og finna lausnir á þeim? Nemendur, sem venja sig á að svindla, gætu farið á mis við þessa dýrmætu þjálfun. Þeir sem svindla að staðaldri fela þannig veikleika sína og minnka möguleikana á að ná árangri á mörgum sviðum lífsins.
Þar að auki „gæti ungt fólk, sem velur alltaf auðveldustu leiðina, eins og að svindla mikið í skóla, haldið því áfram seinna meir á vinnustaðnum,“ segir Callahan. Slíkir einstaklingar
eru að vissu leyti eins og ódýr eftirlíking af merkjavöru sem virðist vera ekta en stenst ekki kröfurnar.Að sjálfsögðu eiga þeir sem svindla líka á hættu að vera staðnir að verki og þurfa að taka afleiðingunum. Þetta getur verið mjög vandræðalegt og skammarlegt. En þeir mega líka reikna með að verða vísað úr skóla eða eitthvað þaðan af verra. Í Biblíunni segir skýrt: „Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera.“ (Galatabréfið 6:7) Óttinn við að það komist upp um mann ætti samt ekki að vera aðalástæðan fyrir því að vera heiðarlegur. Við höfum miklu háleitari ástæður fyrir því.
Heiðarleiki er lykillinn að árangri
Skynsamir unglingar leggja sig fram um að þroska með sér eiginleika sem gagnast þeim ekki aðeins í skólanum heldur allt lífið. Þeir vinna því samviskusamlega í skólanum og reyna að hlúa að góðum gildum sem hjálpa þeim að hafa sjálfsvirðingu og verða vel liðnir af vinnuveitendum seinna meir. Þetta veitir þeim líka varanlega hamingju.
Þessi gildi er að finna í Biblíunni og þau koma sér ekki illa fyrir ungt fólk sem lifir eftir þeim. Þvert á móti verða þau ,albúin og hæf ger til sérhvers góðs verks‘, eins og segir í 2. Tímóteusarbréfi 3:16, 17. Jorge, sem er nemandi í níunda bekk, segir: „Bekkjafélagar mínir svindla af því að þeir vilja fá góðar einkunnir án þess að hafa fyrir því. En ég vil þóknast Guði. Í Orðskviðunum 14:2 segir að ,sá sem breyti rétt óttist Drottin en sá sem fyrirlíti hann fari villur vegar‘. Ég veit að við getum ekki falið neitt fyrir Guði. Þess vegna svindla ég ekki og hjálpa heldur ekki öðrum til þess.“
Nemendur, sem reyna að fylgja meginreglum Biblíunnar, eru ekki endilega gáfnaljósin í bekknum. En þeir eru skynsamastir því að þeir leggja traustan grunn að varanlegri velgengni í lífinu. (Sálmur 1:1-3; Matteus 7:24, 25) Umfram allt geta þeir verið vissir um að þeir þóknist skaparanum og að hann styðji þá og styrki.
[Rammi/Mynd á bls. 20]
MEGINREGLUR TIL UMHUGSUNAR
● „Sönn orð standa að eilífu en lygimál aðeins skamma hríð.“ – Orðskviðirnir 12:19.
● „Áreiðanlegur maður blessast ríkulega.“ – Orðskviðirnir 28:20.
● „Guð mun leiða sérhvert verk fyrir dóm sem haldinn verður yfir öllu því sem hulið er, hvort sem það er gott eða illt.“ – Prédikarinn 12:14.
● „Ég hef góða samvisku og vil í öllum greinum breyta vel.“ – Hebreabréfið 13:18.
[Mynd á bls. 18,19]
Nemendur eiga auðveldara með að svindla og geta notað tæknilegri aðferðir við það en áður hefur þekkst.
[Mynd á bls. 20]
Nemendur, sem svindla, eru eins og ódýr eftirlíking af merkjavöru sem lítur bara vel út á yfirborðinu.