Læknismeðferð án blóðgjafar
Læknismeðferð án blóðgjafar
SÉRFRÆÐINGAR í fremstu röð frá meira en 40 löndum söfnuðust saman í Moskvu dagana 20.-22. maí 2011. Tilefnið var sextugasta alþjóðaráðstefna Félags hjarta- og æðaskurðlækna í Evrópu. „Atburður af þessari stærðargráðu hefur jafn mikla þýðingu fyrir lækna eins og Ólympíuleikarnir fyrir íþróttamenn,“ sagði rússneskur sjónvarpsfréttamaður.
Í tengslum við ráðstefnuna var settur upp kynningarbás um læknismeðferð án blóðgjafar, og vakti hann mikla athygli alla þrjá dagana sem ráðstefnan stóð yfir. Básinn var mannaður fólki frá Spítalaupplýsingum Votta Jehóva. Læknar höfðu með sér þaðan upplýsingamöppur, mynddiska og bækur í hundraðatali ásamt læknisfræðilegum greinum um þetta mikilvæga mál. Mynddiskurinn sem inniheldur fræðslumyndina Transfusion-Alternative Strategies – Simple, Safe, Effective * var sérstaklega eftirsóttur.
Margir læknar, sem komu við í kynningarbásnum, voru á þeirri skoðun að það þyrfti að draga úr blóðmissi við skurðaðgerðir. Hjartaskurðlæknir frá Ítalíu, sem flutti erindi á ráðstefnunni, sagðist vera vel kunnugur vottum Jehóva og kvaðst hafa gert um 70 opnar hjartaaðgerðir á sjúklingum í söfnuðinum. Þær hefðu verið gerðar án blóðgjafa og heppnast vel. Hann sagði einnig að það væri talið sjálfsagt á spítalanum, þar sem hann starfaði, að gera skurðaðgerðir án blóðgjafa. Prófessor frá Deutsches Herzzentrum Berlin fékk eintak af mynddisknum handa sjálfum sér og annað handa samstarfsmanni. Hann sagði áheyrendum að hann hefði nýverið gert skurðaðgerð án blóðgjafar á barni sem vó ekki nema 2,5 kílógrömm, og að á læknastöðinni hans hefðu verið gerðar hjartaskurðaðgerðir á enn minni börnum.
Mánuði eftir ráðstefnuna í Moskvu sóttu læknar frá ýmsum löndum fjórðu ráðstefnu svæfinga- og gjörgæslulækna á norðvestursvæði Rússlands. Hún var haldin í Belomorsk í Arkhangelsk. Spítalaupplýsingar settu upp sama kynningarbásinn þar, og sem fyrr vakti hann mikla athygli. Læknir frá Sankti Pétursborg sagði um efnið sem þar var í boði: „Þetta er einmitt það sem okkur vantar!“ Hann sagði það vera miður að sumir starfsbræðra sinna héldu áfram að gefa sjúklingum með brunasár blóð, bara af gömlum vana. „Það væri mjög gagnlegt að hafa efnið frá ykkur á ráðstefnu um meðferð brunasára sem verið er að skipuleggja í Sankti Pétursborg,“ bætti hann við ákafur í bragði.
Sífellt fleiri læknar í heiminum hafa áttað sig á kostum þess að gefa sjúklingum ekki blóð í tengslum við skurðaðgerðir og aðra læknismeðferð. Tíminn á eftir að leiða í ljós hvort það verði einhvern tíma almenn regla við læknismeðferð.
[Neðanmáls]
^ Gerður af Vottum Jehóva.
[Mynd á bls. 21]
Kynningarbás frá Spítalaupplýsingum Votta Jehóva. Læknar höfðu með sér þaðan upplýsingamöppur, mynddiska og bækur í hundraðatali ásamt læknisfræðilegum greinum.
[Mynd á bls. 22]
Með viðeigandi lyfjum, skurðtækni og tækjabúnaði er hægt að draga úr blóðmissi og gera skurðaðgerðir án blóðgjafa.