GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | HJÓNABANDIÐ
Hvernig getum við hætt að rífast?
VANDINN
Getið þið hjónin ekki rætt saman í rólegheitum? Líður ykkur alltaf eins og þið standið á púðurtunnu sem getur sprungið á hverri stundu?
Ef svo er getið þið huggað ykkur við að það er hægt að bæta ástandið. En þið þurfið að komast að því hvers vegna þið eruð alltaf að rífast.
ÁSTÆÐAN
Misskilningur.
Kona, sem heitir Júlía, * viðurkennir: „Stundum kemur það sem ég segi við manninn minn alveg öfugt út úr mér. Og stundum er ég viss um að ég sé búin að segja eitthvað sem ég hafði bara ætlað að segja honum. Reyndar hefur líka komið fyrir að ég var sannfærð um að hafa sagt honum eitthvað sem mig hafði bara dreymt.“
Ólíkar skoðanir.
Sama hve samrýmd þið hjónin eruð hafið þið örugglega ólíkar skoðanir á einhverjum málum, vegna þess að engir tveir einstaklingar eru eins. Þessi skoðanamunur getur gert hjónabandið áhugaverðara eða erfiðara. Hjá mörgum hjónum veldur hann spennu.
Slæmar fyrirmyndir.
„Foreldrar mínir rifust oft og töluðu niðrandi hvort til annars,“ segir Rakel. „Sem gift kona talaði ég síðan við manninn minn eins og mamma talaði við pabba. Ég hafði ekki lært að sýna virðingu.“
Hvað býr að baki?
Heiftarlegt rifrildi ristir oft dýpra en það sem rifist er um. Rifrildi gæti til dæmis hafist svona: „Þú kemur alltaf of seint!“ En ekki er víst að deilan snúist um stundvísi heldur að makanum finnist ekki tekið tillit til sín.
Hver sem ástæðan er fyrir því að þið rífist geta tíð rifrildi haft slæm áhrif á heilsuna og jafnvel verið undanfari skilnaðar. Hvernig er hægt að venja sig af því að rífast?
HVAÐ ER TIL RÁÐA?
Góð leið til að koma í veg fyrir rifrildi er að skilja hvað liggur að baki því. Prófaðu eftirfarandi æfingu með maka þínum þegar þið eruð bæði afslöppuð.
1. Hvort um sig ætti að skrifa niður um hvað nýlegt rifrildi snerist. Eiginmaðurinn skrifar til dæmis á sitt blað: „Þú varst heilan dag með vinkonum þínum og hringdir ekki í mig til að láta mig vita hvar þú værir.“ Hún skrifar ef til vill: „Þú reiddist vegna þess að ég var með vinkonum mínum.“
2. Ræðið eftirfarandi með opnum huga: Var málið í raun svo alvarlegt? Hefði verið hægt að líta fram hjá því? Til að halda friðinn má stundum láta sér nægja að vera sammála um að vera ósammála og láta kærleikann breiða yfir ágreininginn. – Meginregla: Orðskviðirnir 17:9, Biblían 1981.
Ef þið komist að því að ágreiningurinn hafi verið lítilvægur skuluð þið biðja hvort annað fyrirgefningar og líta svo á að málið sé afgreitt. – Meginregla: Kólossubréfið 3:13, 14.
Ef málið er alvarlegra en það í augum annars ykkar eða ykkar beggja skuluð þið stíga næsta skref.
3. Skrifið niður hvernig ykkur leið meðan þið rifust. Hann gæti skrifað eitthvað á þessa leið: „Mér fannst þú taka vinkonur þínar fram yfir mig.“ Hún gæti skrifað: „Mér fannst þú koma fram við mig eins og krakka sem þarf að láta pabba sinn vita um ferðir sínar.“
4. Skiptist á blöðum og lesið athugasemdir hvort annars. Hvað lá að baki ósættinu að mati maka þíns? Ræðið hvernig þið hefðuð getað krufið málið til mergjar í stað þess að fara að rífast. – Meginregla: Orðskviðirnir 29:11.
5. Ræðið um hvað þið lærðuð af þessari æfingu. Hvernig getur það hjálpað ykkur til að stöðva eða koma í veg fyrir rifrildi?
^ gr. 7 Nöfnum hefur verið breytt.