Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | UPPELDI

Að bregðast rétt við frekjuköstum

Að bregðast rétt við frekjuköstum

VANDINN

Þegar tveggja ára sonur ykkar kemst í uppnám fær hann kast. Hann öskrar, stappar niður fótum og kastar hlutum. Þið veltið fyrir ykkur hvort barnið sé í lagi. „Fær drengurinn frekjukast vegna þess að við gerum eitthvað rangt? Á hann eftir að vaxa upp úr þessu?“

Þið getið kennt tveggja ára barni að breyta hegðun sinni. En það er gott að reyna að finna fyrst út hvers vegna barnið fær frekjuköst. *

ÁSTÆÐAN

Ung börn hafa litla reynslu í að stýra tilfinningum sínum. Það eitt og sér getur valdið einstaka frekjuköstum. En fleira kemur til.

Hugsið út í breytingarnar sem verða í lífi barns um tveggja ára aldur. Foreldrarnir hafa hingað til sinnt öllum þörfum þess. Ef barnið grét komu þau hlaupandi: „Er hann lasinn? Er hann svangur? Þarf að skipta á honum eða hugga hann?“ Foreldrarnir gerðu allt til að hafa barnið ánægt. Og það er eðlilegt því að ungbarn er algerlega háð umönnun foreldranna.

Um tveggja ára aldurinn fer barnið að átta sig á að foreldrarnir hætta að hlaupa upp til handa og fóta eftir öllum þörfum þess. Dæmið hefur snúist við. Nú ætlast þau til að barnið komi til móts við óskir þeirra í staðinn fyrir að þau snúist í kringum barnið. Tveggja ára barn tekur slíkum breytingum ekki alltaf þegjandi og hljóðalaust. Kannski mótmælir það með frekjuköstum.

Með tímanum sætta börn sig yfirleitt við að það er í verkahring foreldranna að leiðbeina þeim, ekki bara að sinna þörfum þeirra. Og vonandi skilur barnið einnig að það eigi að ,vera hlýðið foreldrum sínum‘. (Kólossubréfið 3:20) En þangað til getur verið að barnið reyni til hins ýtrasta á þolinmæði foreldranna með hverju frekjukastinu á fætur öðru.

 HVAÐ ER TIL RÁÐA?

Verið skilningsrík. Barnið ykkar er ekki fullorðin manneskja í smækkaðri mynd. Það hefur ekki lært að stýra tilfinningum sínum og getur því misst stjórn á sér þegar það kemst í uppnám. Reynið að setja ykkur í spor barnsins. – Meginregla: 1. Korintubréf 13:11.

Haldið rónni. Það bætir ekki úr skák ef þið missið stjórn á ykkur líka þegar barnið fær frekjukast. Reynið eftir megni að halda ró ykkar og leiða frekjukastið hjá ykkur. Að muna hvers vegna börn fá frekjuköst hjálpar ykkur að halda rónni. – Meginregla: Orðskviðirnir 19:11.

Látið ekki undan. Ef þið látið undan því sem barnið heimtar á það líklega eftir að taka annað kast næst þegar það vill fá eitthvað. Verið róleg en ákveðin við barnið. – Meginregla: Matteus 5:37.

Að muna hvers vegna börn fá frekjuköst hjálpar ykkur að halda rónni.

Verið þolinmóð. Gerið ekki ráð fyrir að frekjuköstin hverfi eins og dögg fyrir sólu, sérstaklega ef barnið hefur fengið ástæðu til að ætla að það geti fengið sitt fram með frekjukasti. En líklega á köstunum eftir að fækka ef þið farið rétt að og eruð sjálfum ykkur samkvæm. Á endanum munu þau svo alveg hætta. Í Biblíunni stendur: „Kærleikurinn er langlyndur.“ – 1. Korintubréf 13:4.

Prófið einnig þetta:

  • Takið barnið í fangið, ef hægt er, þegar það fær frekjukast. Komið í veg fyrir að það geti barist um en þó án þess að meiða það. Ekki öskra á barnið. Bíðið bara eftir að það róist. Með tímanum lærir barnið að það hefur ekkert upp úr frekjukasti.

  • Hafið ákveðinn stað þar sem þið getið látið barnið vera út af fyrir sig þegar það fær frekjukast. Segið því að það megi koma fram þegar það hefur róast.

  • Ef barnið fær frekjukast á almannafæri skuluð þið taka það afsíðis. Látið ekki undan bara af því að barnið er með læti. Með því væruð þið að segja barninu ykkar að það geti fengið hvað sem það vill með frekjukasti.

^ gr. 5 Meginreglurnar eiga við bæði kynin þó að dæmin í þessari grein séu um stráka.