SJÓNARMIÐ BIBLÍUNNAR
Hjónabandið
Er hjónabandið aðeins lagalegur samningur?
„Það sem Guð hefur tengt saman má eigi maðurinn sundur skilja.“ – Matteus 19:6.
HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?
Í augum Guðs er hjónabandið miklu meira en lagalegur samningur. Það er heilagt samband karls og konu. Í Biblíunni stendur: „Frá upphafi sköpunar gerði Guð þau karl og konu. Fyrir því skal maður yfirgefa föður sinn og móður og bindast konu sinni og þau tvö skulu verða einn maður ... Það sem Guð hefur tengt saman má maður eigi sundur skilja.“ * – Markús 10:6-9; 1. Mósebók 2:24.
Orðalagið „það sem Guð hefur tengt saman“ þýðir ekki að Guð ákveði hver sé ákjósanlegasti maki hvers og eins. En með því að benda á að skaparinn sé höfundur hjónabandsins leggur Biblían áherslu á að það skuli tekið alvarlega. Hjón, sem líta samband sitt þessum augum, virða það sem heilagt og varanlegt. Það styrkir ásetning þeirra að láta hjónabandið heppnast. Ef þau leita leiðsagnar í Biblíunni til að gera hlutverkum sínum góð skil auka þau enn frekar líkurnar á farsælu hjónabandi.
Hvert er hlutverk mannsins?
„Maðurinn er höfuð konunnar.“ – Efesusbréfið 5:23.
HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?
Til að fjölskyldunni vegni vel þarf einhver að eiga lokaorðið þegar ákvarðanir eru teknar. Biblían leggur þá ábyrgð á herðar eiginmannsins. En það gerir hann hvorki einráðan né gefur honum rétt til að vera með yfirgang. Hann hefur heldur ekki leyfi til að víkja sér undan ábyrgð sinni. Það myndi grafa undan virðingu eiginkonunnar fyrir honum og leggja á hana óþarfar byrðar. Guð ætlast til að hann sé duglegur að vinna til að sjá fyrir konu sinni og að hann virði hana mikils sem lífsförunaut og sálufélaga. (1. Tímóteusarbréf 5:8, Biblían 1981; 1. Pétursbréf 3:7) „Eiginmennirnir [skulu] elska konur sínar eins og eigin líkami,“ segir í Efesusbréfinu 5:28.
Eiginmaður, sem elskar konuna sína, metur hana að verðleikum. Hann kann að meta skoðanir hennar, ekki síst í málum sem hafa áhrif á fjölskylduna. Hann ætti ekki að krefjast þess að hafa sitt fram bara vegna þess að hann er höfuð fjölskyldunnar. Þegar Abraham, sem var guðrækinn maður, hafnaði skynsamlegum ráðum konu sinnar varðandi hag fjölskyldunnar sagði Jehóva Guð honum: „Öllu sem Sara segir skaltu hlýðnast.“ (1. Mósebók 21:9-12) Abraham var auðmjúkur og gerði eins og Guð bauð honum, fjölskyldunni til góðs. Friður og eining ríkti í fjölskyldunni og Guð blessaði hana.
Hvert er hlutverk konunnar?
„Eins skuluð þið, eiginkonur, vera eftirlátar eiginmönnum ykkar.“ – 1. Pétursbréf 3:1.
HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?
Guð sagði rétt áður en hann skapaði konu handa fyrsta manninum: „Eigi er það gott að maðurinn sé einn. Ég vil gera honum meðhjálp við hans hæfi.“ (1. Mósebók 2:18) Maðurinn og konan fengu því hvort sitt hlutverk og bættu hvort annað upp. Guð skapaði konuna ekki eins og manninn eða sem keppinaut hans heldur sem mótpart hans. Saman gætu þau innt af hendi það verkefni sem Guð gaf þeim, að eignast börn og fylla jörðina afkomendum sínum. – 1. Mósebók 1:28.
Guð gerði konuna vel úr garði – líkamlega, hugarfarslega og tilfinningalega – til að hún gæti sinnt því hlutverki sem hann fól henni. Með því að nota þessar gjafir af skynsemi og kærleika á hún mjög stóran þátt í að gera hjónabandið farsælt. Hún stuðlar líka að því að maðurinn hennar sé ánægður og hann finnur að hún elskar hann. Guð segir slíka konu eiga hrós skilið. * – Orðskviðirnir 31:28, 31.
^ gr. 5 Biblían heimilar hjónaskilnað vegna hjúskaparbrots. – Matteus 19:9.
^ gr. 14 Hjón geta fundið margar góðar ráðleggingar um hjónaband og fjölskyldulíf í greinaflokknum „Góð ráð handa fjölskyldunni“ í þessu tímariti.