Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

LÖND OG ÞJÓÐIR

Heimsókn til Ítalíu

Heimsókn til Ítalíu

ÍTALÍA er land andstæðna. Þar eru langar strendur og hrikaleg fjöll, sumrin í suðri eru steikjandi heit og veturnir í norðri ískaldir. Ítalía er eldfjallaland en aðeins nokkur eldfjöll eru virk, svo sem Strombóli og Etna.

Ítalía er eitt þéttbýlasta land Evrópu. Margar þjóðir hafa átt leið um landið, eins og Arabar, Býsansmenn, Grikkir, Normannar og Föníkumenn.

Ferðalangar sigla um síki Feneyja á gondólum.

Landið er ríkt af minjum sem tengjast sögu og listum. Forngrískar og rómverskar rústir og byggingar frá barokk- og endurreisnartímanum prýða marga bæi og borgir á Ítalíu. Málverk, marmarastyttur og gosbrunnar eru eftir listamenn á borð við Bernini, Michelangelo og Rafael.

Matur skipar stóran sess í daglegu lífi fólks og margar hefðir tengjast matarvenjum. Pasta er oftast borið fram sem aðalréttur og þar á eftir kjöt eða fiskur með grænmeti. Ólífuolía er notuð óspart enda framleidd í stórum stíl í landinu. Ítalir eru frægir fyrir pítsur og rísottó.

Pasta er uppistaða ítalskrar matargerðar.

Ítalir eru þekktir fyrir að vera hlýlegir, gestrisnir og félagslyndir. Þeir hafa yndi af því að halda uppi samræðum við aðra svo að það er ekki óalgengt að sjá fólk rabba saman á torgunum eða eiga líflegar samræður þegar þeir rölta um göturnar.

Flestir Ítalir eru rómversk-kaþólskir en fáir eru kirkjuræknir. Að sögn hafa ítök kirkjunnar veikst á síðustu áratugum því að fólk tekur ekki lengur mikið mark á reglum kirkjunnar varðandi fóstureyðingar og skilnað.

Söfnuður Votta Jehóva blómstrar á Ítalíu. Vottarnir eru þekktir fyrir boðunarstarf og biblíufræðslu og fyrir að fylgja því sem Biblían kennir. Starfræktir eru meira en 3.000 söfnuðir í landinu. Margir þeirra reyna að ná til fólks sem talar annað mál en ítölsku. Það er mikil þörf á að veita biblíufræðslu á þessum tungumálum þar sem fjöldi útlendinga á Ítalíu hefur þrefaldast á síðasta áratug.

VISSIR ÞÚ?

Ítalir líta ekki á Vatíkanið sem hluta af Ítalíu þótt það sé staðsett í Róm. Ástæðan er sú að Vatíkanið hefur verið sjálfstætt ríki síðan 1929.

Dólómítafjöll á Norðaustur-Ítalíu.