GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | HJÓNABANDIÐ
Að láta af gremju
VANDINN
Þú getur ekki gleymt því sem maki þinn sagði eða gerði. Þér sárnar hranalegu orðin og það sem hann gerði í hugsunarleysi og þú hugsar stöðugt um það. Þar af leiðandi hefur ástúðin horfið sem þið báruð hvort til annars og gremja búið um sig í staðinn. Þú virðist ekki hafa um neitt annað að velja en að þola ástlaust hjónaband hér eftir og þú kennir maka þínum um það líka.
Þú mátt treysta því að hægt sé að bæta ástandið. En skoðaðu fyrst nokkrar staðreyndir um gremju.
ÞAÐ SEM ÞÚ ÆTTIR AÐ VITA
Gremja getur eyðilagt hjónabandið. Gremja grefur undan hjónabandinu því að hún skemmir undirstöður þess, eiginleika á borð við ást, tryggð og traust. Það má því segja að gremja sé ekki afleiðing af vanda í hjónabandinu heldur að hún sé vandinn. Það er ekki að ástæðulausu að Biblían hvetur okkur til að ,láta hvers konar beiskju vera fjarlæga okkur‘. – Efesusbréfið 4:31.
Að ala á gremju bitnar verst á manni sjálfum. Að ala á gremju er eins og að lemja sjálfan sig og ætlast til þess að hinn finni fyrir því. „Þó að þér gremjist við einhvern í fjölskyldunni má vera að honum líði bara vel með sitt og hafi engar áhyggjur,“ segir Mark Sichel í bók sinni Healing From Family Rifts. Hver er niðurstaðan? „Gremjan skaðar þig miklu meira en þann sem þú ert sár út í,“ segir Sichel.
Að burðast með gremju í eftirdragi lætur hjónabandið hjakka í sama farinu.
Þú getur ákveðið hvort þú elur á gremju. Sumir eiga kannski erfitt með að trúa því og segja að makinn særi þá og geri þeim gramt í geði. Vandamálið er að slík hugsun einblínir á nokkuð sem maður ræður engu um – hegðun annarra. Biblían bendir á annan valkost: „Sérhver rannsaki breytni sjálfs sín.“ (Galatabréfið 6:4) Við getum ekki stýrt því hvað aðrir segja eða gera en við getum stýrt því hvernig við bregðumst við. Við eigum fleiri kosti en að ala á gremju.
HVAÐ ER TIL RÁÐA?
Kenndu ekki öðrum um þegar þér gremst. Það er að vísu auðvelt að kenna makanum um. En mundu að þú getur ákveðið hvort þú lætur þér gremjast. Þú getur líka ákveðið að fyrirgefa. Þessa áminningu er að finna í Biblíunni: „Sólin má ekki setjast yfir reiði ykkar.“ (Efesusbréfið 4:26) Ef þú kýst að lifa eftir þessu og ert fús til að fyrirgefa geturðu nálgast hjónabandserfiðleikana með jákvæðu hugarfari. – Ráðlegging Biblíunnar: Kólossubréfið 3:13.
Gerðu heiðarlega sjálfsrannsókn. Í Biblíunni er viðurkennt að sumir séu reiðigjarnir og skapbráðir. (Orðskviðirnir 29:22) Á það við um þig? Spyrðu þig: „Er mér gjarnt til að verða bitur? Hve auðveldlega móðgast ég? Á ég það til að gera úlfalda úr mýflugu?“ Í Biblíunni segir: „Sá sem breiðir yfir bresti annars leitar vinfengis en sá sem bregst trúnaði veldur vinaskilnaði.“ (Orðskviðirnir 17:9; Prédikarinn 7:9) Það getur líka gerst innan hjónabandsins. Ef þér gremst auðveldlega skaltu því spyrja þig hvort þú getir verið þolinmóðari við maka þinn. – Ráðlegging Biblíunnar: 1. Pétursbréf 4:8.
Hugleiddu hvaða mál séu þess eðlis að ræða þurfi um þau. Í Biblíunni stendur: „Að þegja hefur sinn tíma og að tala hefur sinn tíma.“ (Prédikarinn 3:7) Það þarf ekki að tala út um allt sem móðgar okkur. Stundum má einfaldlega fylgja þessu ráði: „Hugleiðið þetta í hvílum yðar og verið hljóðir.“ (Sálmur 4:5) Þegar þú þarft að ræða eitthvað sem þér gremst skaltu bíða þangað til það er hætt að ergja þig. Gift kona að nafni Beatriz segir: „Þegar ég verð sár reyni ég fyrst að róa mig. Eftir það átta ég mig stundum á að það var ekki svo alvarlegt sem gert var á minn hlut og þá á ég auðveldara með að ræða vingjarnlega um það.“ – Ráðlegging Biblíunnar: Orðskviðirnir 19:11.
Lærðu hvað fyrirgefning felur í sér. Í Biblíunni er sögnin „að fyrirgefa“ stundum þýðing á orði sem felur í sér hugmyndina „að sleppa takinu“ á einhverju. Að fyrirgefa þýðir því ekki að þú gerir lítið úr því sem gert var eða látir sem það hafi aldrei gerst. Það getur einfaldlega þýtt að þú sleppir takinu á því vegna þess að þú veist að gremjan getur gert þér og hjónabandi þínu meira illt en það sem olli henni.