Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | UNGLINGAR

Þegar samband endar

Þegar samband endar

VANDINN

„Ég hélt að ég hefði fundið þann eina rétta. Ég hugsaði með mér að ég gæti vel eytt ævinni með þessum strák. En þegar við vorum búin að vera saman í tvo mánuði varð ég að slíta sambandinu. Ég trúði varla að samband, sem byrjaði svona vel, gæti endað svona fljótt!“ – Anna. *

„Mér fannst við eiga svo margt sameiginlegt að ég var sannfærð um að við myndum gifta okkur. En með tímanum rann það upp fyrir mér hversu ólík við vorum. Þegar ég áttaði mig á mistökunum, sem ég var að gera, sleit ég sambandinu.“ – Elín.

Hefur eitthvað þessu líkt komið fyrir þig? Þá geturðu haft gagn af þessari grein.

ÞAÐ SEM ÞÚ ÆTTIR AÐ VITA

Sambandsslit geta verið sársaukafull, jafnvel fyrir þann sem slítur því. „Mér leið hræðilega!“ segir ung kona sem heitir Sara, en hún sleit sambandinu við kærastann eftir hálfs árs samband. „Eina stundina var hann hluti af lífi mínu og framtíðaráformum en þá næstu var hann farinn. Þegar ég heyrði lög sem minntu mig á góðu stundirnar sem við áttum saman, eða kom á staði sem höfðu sérstaka merkingu fyrir okkur, saknaði ég hans. Ég fann fyrir þessu þó að ég hafi sjálf slitið sambandinu.“

Þó að sambandsslit séu erfið geta þau verið til góðs. „Auðvitað langar mann ekki að særa neinn,“ segir Elín. „Það er hins vegar hvorugu til góðs að halda áfram í sambandi sem gengur ekki upp.“ Sara er á sama máli. „Ég held að maður geti varla orðið hamingjusamur í hjónabandi með einhverjum sem maður er ekki ánægður með í tilhugalífinu,“ segir hún. „Þá er betra að slíta sambandinu“.

Sambandsslit eru ekki merki um að manni hafi mistekist. Vel heppnað tilhugalíf endar í rauninni með ákvörðun og ákvörðunin er ekki alltaf sú að giftast. Ef annað hvort ykkar hefur alvarlegar efasemdir um sambandið getur verið réttast að slíta því. Þó að sambandið gangi ekki upp merkir það ekki að þér hafi mistekist. Þú getur komist yfir sambandsslitin. Hvernig?

HVAÐ ER TIL RÁÐA?

Viðurkenndu sársaukann. „Ég missti ekki bara vin minn heldur besta vin minn,“ segir Elín sem minnst er á í byrjun greinarinnar. Það er eðlilegt að við taki ákveðið sorgarferli þegar maður slítur sambandi við þann sem hefur verið manni svo kær. Ungur maður að nafni Adam segir: „Því fylgir alltaf einhver sársauki þegar samband tekur enda, jafnvel þegar maður veit að það er fyrir bestu.“ Kannski líður þér svipað og Davíð konungi sem var uppi á biblíutímanum. Þegar hann gekk í gegnum erfiðan tíma skrifaði hann: „Ég ... lauga rekkju mína tárum hverja nótt.“ (Sálmur 6:7) Stundum er besta leiðin til að losna við sársauka að takast á við hann í stað þess að forðast hann. Að viðurkenna tilfinningar sínar getur verið fyrsta skrefið í átt að bata. – Ráðlegging Biblíunnar: Prédikarinn 3:1, 4.

Hafðu félagsskap við þá sem er annt um þig. Það getur að vísu verið hægara sagt en gert. „Til að byrja með langaði mig ekki einu sinni að hitta neinn,“ segir Anna sem vitnað er í fyrr í greininni. „Ég þurfti tíma til að jafna mig, hugleiða málin og átta mig á hlutunum.“ Með tímanum skildi Anna þó hversu viturlegt það var að verja tíma með nánum vinum sem gátu uppörvað hana. „Mér líður betur núna,“ segir hún, „og ég er smám saman að jafna mig á því að við hættum saman.“ – Ráðlegging Biblíunnar: Orðskviðirnir 17:17.

Lærðu af reynslunni. Spyrðu þig: „Hefur þessi reynsla sýnt mér að ég þurfi að breyta einhverju í fari mínu? Myndi ég gera eitthvað öðruvísi ef ég færi í annað samband?“ „Þegar frá leið átti ég auðveldara með að skilja betur hvað hafði gerst,“ segir ung kona að nafni María. „En það leið lengri tími þar til ég gat sett tilfinningarnar til hliðar og litið raunsætt á málið.“ Adam, sem minnst var á fyrr í greininni, hefur svipaða sögu að segja: „Ég var heilt ár að komast yfir sambandsslitin og það tók mig enn lengri tíma að geta nýtt mér reynsluna til góðs. Ég lærði margt um sjálfan mig, hitt kynið og sambönd af þessari lífsreynslu. Mér líður ekki nærri eins illa núna yfir því að við hættum saman.“

Trúðu Guði fyrir áhyggjum þínum. Í Biblíunni segir um Guð: „Hann græðir þá sem hafa sundurkramið hjarta og bindur um benjar þeirra.“ (Sálmur 147:3) Guð velur hvorki maka fyrir okkur né getum við kennt honum um sambandsslit. En honum er samt annt um velferð okkar. Úthelltu hjarta þínu fyrir honum í bæn. – Ráðlegging Biblíunnar: 1. Pétursbréf 5:7.

^ gr. 4 Nöfnum í þessari grein hefur verið breytt.