Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

FORSÍÐUEFNI | HEFURÐU STJÓRN Á EIGIN LÍFI?

Áskorun: Aðstæður sem þú getur ekki breytt

Áskorun: Aðstæður sem þú getur ekki breytt

HEFUR líf þitt umturnast vegna ólæknandi sjúkdóms, skilnaðar eða ástvinamissis? Þegar aðstæður manns breytast til frambúðar getur maður fundið til mikils vanmáttar og óskað einskis frekar en að lífið færist aftur í rétt horf. Hvernig geturðu náð stjórninni aftur á lífi þínu?

DÆMI ÚR BIBLÍUNNI: PÁLL

Páll postuli var kappsamur trúboði á fyrstu öld og ferðaðist víða. En ferðalög hans voru skyndilega stöðvuð þegar hann var handtekinn án saka og settur í stofufangelsi í tvö ár þar sem hermenn stóðu vörð um húsið. Í stað þess að örvænta einbeitti Páll sér að því sem hann gat gert. Hann notaði orð Guðs til að uppörva og hjálpa öllum sem heimsóttu hann. Við þessar aðstæður skrifaði hann meira að segja nokkur bréfanna sem eru hluti af Biblíunni. – Postulasagan 28:30, 31.

HVERNIG FER ANJA AÐ?

Eins og kom fram í greininni hér á undan á Anja ekki heimangengt. „Krabbameinið hefur áhrif á öllum sviðum lífsins,“ segir hún. „Ég má ekki við því að fá sýkingu núna, þannig að vinna og félagslíf eru nánast út úr myndinni.“ Hvernig tekst Anja á við þessar óumflýjanlegu aðstæður? „Það var mikilvægt fyrir mig að skapa mér nýjar venjur,“ segir hún. „Ég setti í forgang það sem mér fannst mikilvægast og bjó til áætlun miðað við takmarkaða getu mína. Núna finnst mér ég hafa stjórn á hlutunum.“

„Ég hef lært að láta mér nægja það sem ég hef.“ – Orð Páls postula í Filippíbréfinu 4:11.

HVAÐ GETUR ÞÚ GERT?

Ef óumflýjanlegar aðstæður hafa tekið stjórnina á lífi þínu skaltu prófa eftirfarandi:

  • Einbeittu þér að því sem þú getur stjórnað. Þú getur hugsanlega ekki haft fulla stjórn því hvernig heilsan er. En geturðu stundað einhverja hreyfingu, borðað hollan mat og hvílt þig nægilega?

  • Ákveddu fyrst hverju þú vilt áorka í lífinu og gerðu síðan ráðstafanir til að ná markmiðum þínum hægt og bítandi. Reyndu að vinna að þeim að minnsta kosti svolitla stund á hverjum degi.

  • Gerðu eitthvað sem lætur þér finnast þú hafa stjórn á hlutunum, þó að það sé einfaldlega að þurrka af eldhúsborðinu, vaska upp eða því um líkt. Klæddu þig snyrtilega. Byrjaðu daginn á því sem er mikilvægast.

  • Komdu auga á möguleikana í aðstæðum þínum. Gera þær þér kleift að setja þig í spor annarra sem glíma við erfiðleika? Geturðu notað reynslu þína til að hjálpa öðrum?

Mundu: Þú getur kannski ekki stjórnað aðstæðum þínum en þú gætir haft stjórn á því hvernig þú bregst við þeim.