Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

FORSÍÐUEFNI

Þrjár spurningar sem margir vilja að Guð svari

Þrjár spurningar sem margir vilja að Guð svari

SUSAN fór að hafa efasemdir um Guð þegar hún var sjö ára en þá var Al vinur hennar lagður inn á sjúkrahús með mænusótt og bundinn við stállunga eftir það. Hún sagði dagblaðinu The New York Times sögu sína þann 6. janúar 2013.

Þegar Susan hafði heimsótt Al á sjúkrahúsið spurði hún mömmu sína: „Hvers vegna ætli Guð geri litlum strák þetta?“

„Presturinn myndi segja að Guð hljóti að hafa sínar ástæður,“ svaraði mamma hennar, „en ég veit ekki hvaða ástæður það gætu verið.“

Tveimur árum síðar, árið 1954, kom á markað bóluefni, sem Jonas Salk þróaði, gegn mænuveiki. Mamma Susan sagði henni að kannski hefði Guð stýrt rannsókn hans.

„Guð hefði átt að stýra læknunum fyrir löngu því að þá væri Al ekki í stállunga,“ svaraði Susan.

Susan lýkur þessari æskuminningu sinni svona: „[Al] dó aðeins átta árum síðar en þá var ég þegar orðin gallharður trúleysingi.“

Margir hafa verið í svipuðum sporum og Susan. Þeir hafa orðið fyrir áföllum í lífinu eða horft upp á aðra verða fyrir þeim og finna ekki fullnægjandi svör við spurningum sínum um Guð. Sumir gerast trúleysingjar. Aðrir efast um að Guð sé til þó að þeir afneiti ekki með öllu tilvist hans.

Efasemdamenn og trúleysingjar þekkja margir hverjir til trúarbragða. Oft er það einmitt reynsla þeirra af trúarbrögðum sem fær þá til að hætta að trúa. Kannski finnst þeim trúarbrögðin ekki geta svarað stóru spurningunum. Hvaða spurningar eru það? Það er kannski kaldhæðnislegt en oft á tíðum eru þetta sömu spurningar og fólk, sem játar trú á Guð, vantar svör við. Skoðaðu þrjár spurningar sem margir myndu vilja spyrja Guð og svör Biblíunnar við þeim.

1 „HVERS VEGNA LEYFIRÐU ÞJÁNINGAR?“

Af hverju spyr fólk að því?

„Kærleiksríkur Guð myndi koma í veg fyrir hörmungar,“ segja margir.

TIL UMHUGSUNAR: Siðir og venjur fólks úr öðrum menningarheimum koma okkur stundum spánskt fyrir sjónir eða hneyksla okkur jafnvel. Við getum auðveldlega misskilið hegðun þeirra. Til dæmis finnst sumum það merki um einlægni að horfast í augu við fólk en öðrum finnst það merki um dónaskap. Hvorugt þarf þó að vera rangt. Við þurfum bara að kynnast fólkinu betur.

Gæti eitthvað svipað hent okkur þegar við reynum að skilja Guð? Mörgum finnst að Guð geti ekki verið til fyrst þjáningar eru til. En aðrir eru sannfærðir um að Guð sé til vegna þess að þeir skilja hvers vegna hann leyfir þjáningar.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN? Vegir Guðs og hugsanir eru ekki eins og okkar. (Jesaja 55:8, 9) Þess vegna getur það sem Guð gerir, eða bíður með að gera, virst undarlegt í okkar augum.

Biblían fer samt ekki fram á að við sættum okkur við innantóma frasa eins og: „Vegir Guðs eru órannsakanlegir.“ Í Biblíunni erum við öllu heldur hvött til að fræðast meira um Guð til að skilja hvers vegna og hvenær hann grípur inn í málin. * Við getum meira að segja nálgast Guð. – Jakobsbréfið 4:8.

2 „HVERS VEGNA ER SVONA MIKIL HRÆSNI INNAN TRÚARBRAGÐANNA?“

Af hverju spyr fólk að því?

„Ef Guð hefði mætur á einlægni,“ segja einhverjir, „væru þeir sem segjast tilbiðja hann ekki með svona mikla sýndarmennsku.“

TIL UMHUGSUNAR: Hugsaðu þér son sem gerir að engu gott uppeldi sem hann fær í föðurhúsum, flytur að heiman og lifir spilltu lífi. Faðir hans er ekki sáttur við lífernið en leyfir syninum þó að velja sína leið. Er rétt af þeim sem hitta soninn síðar að álykta að hann hafi átt slæman eða jafnvel engan föður? Auðvitað ekki. Á sama hátt sannar hræsni innan trúarbragða ekki annað en að Guð leyfi fólki að velja lífsstefnu sína sjálft.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN? Guð hefur andstyggð á trúarhræsni. (Jeremía 7:29-31; 32:35) En hann gefur fólki jafnframt frjálsan vilja. Margir sem segjast trúa á Guð kjósa að fylgja kennisetningum manna og setja sér eigin siðferðisstaðla. – Matteus 15:7-9.

Trú, sem Guð hefur velþóknun á, er hins vegar ekki hræsnisfull. * Jesús sagði: „Á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóhannes 13:35) Og kærleikurinn þarf að vera flærðarlaus. (Rómverjabréfið 12:9) Fæstum trúarbrögðum hefur tekist að fylgja þessari meginreglu. Í þjóðarmorðunum í Rúanda árið 1994 drápu til dæmis tugþúsundir trúaðs fólks trúsystkini sín einfaldlega vegna þess að þau voru af öðrum ættflokki. Aftur á móti tóku vottar Jehóva ekki þátt í fjöldamorðunum og margir þeirra vernduðu trúsystkini sín og aðra. Þeir lögðu sig meira að segja í lífshættu til þess. Slík fórnfýsi sannar að trú getur verið hræsnislaus.

3 „HVERS VEGNA ERUM VIÐ TIL?“

Af hverju spyr fólk að því?

Sumir spyrja sig: „Hvers vegna lifir fólk aðeins 80 til 90 ár og deyr síðan? Hver er tilgangurinn með svo stuttri tilveru?“

TIL UMHUGSUNAR: Margir sem trúa ekki á Guð viðurkenna þó að eitthvað hafi orsakað skipulagðan og margbrotinn efnisheiminn. Þeir sjá að jörðin, aðrar reikistjörnur og tunglið eru á nákvæmlega réttum stað til að líf geti þrifist á jörðinni. Þeir álykta að náttúrulögmálin, sem stýra alheiminum, séu í fullkomnu jafnvægi og að líf á jörðinni væri útilokað ef aðeins örlítil breyting yrði á þeim.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN? Þó að margir líti á stutt æviskeið mannsins sem sönnun fyrir að Guð sé ekki til gefur efnisheimurinn okkur meira en nægar vísbendingar um skapara. (Rómverjabréfið 1:20) Guð var með ákveðin áform þegar hann bjó til efnisheiminn og tilvist okkar er nátengd þeim. Guð skapaði mennina til að lifa að eilífu á jörðinni og hann er ekki hættur við áform sín. – Sálmur 37:11, 29; Jesaja 55:11.

Þó að hægt sé að skilja af efnisheiminum að Guð sé til og jafnvel eiginleika hans, ætlaðist Guð ekki til að við myndum skilja áform hans með þeim hætti. Við komumst ekki að því hver áform Guðs eru – og þar af leiðandi hver tilgangurinn er með lífi okkar – nema að hann segi okkur frá því. Í Biblíunni talar hann til okkar á einfaldan og skýran hátt. * Vottar Jehóva hvetja þig til að skoða með opnum huga svörin sem þar er að finna.

^ gr. 17 Rök fyrir því að Guð leyfir þjáningar má sjá í 11. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? Bókin er gefin út af Vottum Jehóva. Hægt er að nálgast bókina á www.pr418.com/is.

^ gr. 23 Frekari upplýsingar má finna í 15. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? Bókin er gefin út af Vottum Jehóva. Einnig má nálgast hana á www.pr418.com/is.

^ gr. 29 Frekari upplýsingar má finna í 3. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? sem er gefin út af Vottum Jehóva. Einnig má nálgast bókina á www.pr418.com/is.