HAMINGJURÍK LÍFSSTEFNA
Að fyrirgefa
„ÞEGAR ÉG VAR BARN FÉKK ÉG OFT AÐ HEYRA SVÍVIRÐINGAR OG ÖSKUR,“ segir kona að nafni Patricia. „Ég lærði ekki að fyrirgefa. Jafnvel eftir að ég varð fullorðin var ég oft móðguð dögum saman og ég missti svefn út af því.“ Það er hvorki ánægjulegt né heilsusamlegt að vera stöðugt reiður og gramur. Rannsóknir sýna að þeim sem eru ekki fúsir að fyrirgefa hættir til að ...
-
fá samviskubit yfir því.
-
láta reiði og biturð skemma samband sitt við aðra svo að þeir einangrast og verða einmana.
-
móðgast auðveldlega, verða kvíðnir eða jafnvel alvarlega þunglyndir.
-
verða svo uppteknir af því sem gert er á hlut þeirra að þeir geta ekki notið lífsins.
-
finna fyrir aukinni streitu og eru í áhættuhópi fyrir alls kyns kvilla, svo sem of háan blóðþrýsting, hjartasjúkdóma og þráláta verki eins og gigt og höfuðverk. *
HVAÐ ER FYRIRGEFNING? Að fyrirgefa þýðir að hætta að hugsa um það sem gert var á hlut manns og láta af reiði, gremju og hefndarhug. Það þýðir ekki að láta ranglæti viðgangast, gera lítið úr því eða láta sem ekkert hafi í skorist. Að fyrirgefa er öllu heldur vel úthugsuð persónuleg ákvörðun sem vitnar um að þú sért í kærleika tilbúinn að stuðla að friði og byggja upp eða viðhalda góðu sambandi við hinn aðilann.
Að fyrirgefa byggir einnig á skilningi. Sá sem er fús að fyrirgefa skilur að okkur verður öllum á, eða syndgum, bæði í orði og verki. (Rómverjabréfið 3:23) Biblían endurspeglar slíkan skilning þar sem hún segir: „Umberið hvert annað og fyrirgefið hvert öðru ef einhver hefur sök á hendur öðrum.“ – Kólossubréfið 3:13.
Það er því ljóst að fúsleiki til að fyrirgefa er mikilvægur þáttur kærleikans sem „bindur allt saman og fullkomnar allt“. (Kólossubréfið 3:14) Samkvæmt vefsíðunni Mayo Clinic leiðir fyrirgefning til ...
-
heilbrigðari sambanda sem byggjast á samkennd, skilningi og hlýhug til hins brotlega.
-
bættrar andlegrar vellíðanar og innri friðar.
-
minni kvíða, streitu og gremju.
-
færri einkenna þunglyndis.
FYRIRGEFÐU SJÁLFUM ÞÉR. Samkvæmt tímaritinu Disability & Rehabilitation er það að fyrirgefa sjálfum sér oft „mjög erfitt,“ en samt „mikilvægast fyrir heilsuna“ – bæði andlega og líkamlega heilsu. Hvað getur auðveldað þér að fyrirgefa sjálfum þér?
-
Vænstu ekki fullkomleika af sjálfum þér. Vertu raunsær og viðurkenndu að þér verður á eins og öllum öðrum. – Prédikarinn 7:20.
-
Lærðu af mistökunum svo að þú endurtakir þau síður.
-
Vertu þolinmóður við sjálfan þig. Skapgerðargallar og slæmir ávanar hverfa ekki alltaf eins og skot. – Efesusbréfið 4:23, 24.
-
Hafðu félagsskap við vini sem eru hvetjandi, jákvæðir og vingjarnlegir en sem geta líka verið hreinskilnir við þig. – Orðskviðirnir 13:20.
-
Ef þú særir einhvern skaltu viðurkenna það og vera fljótur að biðjast fyrirgefningar. Þegar þú stuðlar að friði öðlastu innri ró. – Matteus 5:23, 24.
MEGINREGLUR BIBLÍUNNAR ERU GAGNLEGAR
Eftir að hafa kynnt sér Biblíuna lærði Patricia, sem minnst var á í byrjun greinar, að fyrirgefa. „Mér líður eins og ég hafi verið leyst úr ánauð reiðinnar,“ segir hún. „Ég þjáist ekki lengur og veld öðrum ekki heldur þjáningum. Meginreglur Biblíunnar sýna að Guði er annt um okkur og vill okkur allt það besta.“
Maður að nafni Ron segir: „Ég gat ekki stjórnað hugsunum og verkum annarra en ég gat haft stjórn á mínum eigin. Ef ég vildi frið varð ég að láta af gremjunni. Ég fór að líta á frið og gremju eins og svart og hvítt. Það er ekki hægt að eiga innri frið og vera gramur samtímis. Núna hef ég góða samvisku.“
^ gr. 8 Heimildir: Vefsíðurnar Mayo Clinic og Johns Hopkins Medicine og tímaritið Social Psychiatry and Psychiatric Epidemiology.