Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

VANDINN

Það sem ógnar öryggi okkar

Það sem ógnar öryggi okkar

„Núlifandi kynslóð er á hátindi tækni, vísinda og efnahagslegrar velmegunar ... Þó er þetta hugsanlega fyrsta kynslóðin sem er við það að stefna heiminum í [pólitískt, efnahagslegt og umhverfislegt] hrun.“ – The Global Risks Report 2018, World Economic Forum (Áhættumatsskýrsla Alþjóðaefnahagsráðsins 2018).

HVERS VEGNA ERU MARGIR SEM HAFA KYNNT SÉR MÁLIN VEL ÁHYGGJUFULLIR UM FRAMTÍÐ OKKAR OG JARÐARINNAR? SKOÐUM NOKKUR VANDAMÁL SEM VIÐ STÖNDUM FRAMMI FYRIR.

  • NETGLÆPIR: „Að vafra um Netið er hættulegra en áður. Þar þrífast barnaníðingar, ofstækisfullir einstaklingar, nettröll * og tölvuþrjótar,“ segir í dagblaðinu The Australian. „Einn af þeim glæpum, sem eru í hvað mestum vexti í heiminum, er auðkennisþjófnaður ... Netið gefur fólki einnig tækifæri til að láta í ljós sínar allra verstu hliðar – að vera grimmt og ruddalegt.“

  • FJÁRHAGSLEGUR ÓJÖFNUÐUR: Samkvæmt nýlegri skýrslu alþjóðlegu góðgerðarsamtakanna Oxfam eiga átta ríkustu auðkýfingar heims jafn miklar eigur og fátækari helmingur mannkyns. „Gallað fjármálakerfi veldur því að auðurinn rennur til fárra útvalinna auðkýfinga á kostnað þeirra sem búa við sára fátækt og þar eru konur í meirihluta,“ segir í skýrslu Oxfam. Sumir óttast að vaxandi ójöfnuður eigi eftir að hrinda af stað uppreisn víðs vegar um heiminn.

  • ÁTÖK OG OFSÓKNIR: Í skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá 2018 segir: „Tölurnar sýna að aldrei fyrr hafa eins margir verið á flótta og nú.“ Meira en 68 milljónir manna hafa þurft að flýja heimili sín, oftast vegna stríðsátaka eða ofsókna. Í skýrslunni kemur fram að „á nánast tveggja sekúndna fresti er manneskja hrakin af heimili sínu“.

  • UMHVERFISÓGN: „Fjölbreytni í lífríkinu fer hratt minnkandi vegna þess að margar plöntu- og dýrategundir deyja út,“ segir í áhættumatsskýrslunni frá árinu 2018 og hún bætir við að „mengun, bæði í lofti og sjó, er orðið aðkallandi vandamál sem ógnar heilsu manna.“ Einnig hefur skordýrum fækkað mjög í mörgum löndum. Þar sem skordýr fræva plöntur hafa vísindamenn áhyggjur af því að afleiðingin verði gereyðing náttúrunnar. Kóralrifin eru líka í mikilli hættu. Vísindamenn áætla að um helmingur allra kóralrifa í heiminum hafi drepist á síðustu 30 árum.

Erum við fær um að gera nauðsynlegar breytingar til að heimurinn verði öruggari? Sumir telja að menntun myndi skila góðum árangri. En hvers konar menntun? Í næstu greinum ræðum við svörin við þessum spurningum.

^ Nettröll er sá sem birtir meiðandi, ögrandi eða frekjulegar athugasemdir á Netinu með það að markmiði að reita aðra til reiði eða koma af stað rifrildi.