Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Til að lækna mein þarf að komast að rót vandans en ekki bara huga að einkennunum.

VANDINN

Að komast að rót vandans

Að komast að rót vandans

Hefurðu trú á að mennirnir geti leyst vandamálin sem ógna framtíð okkar og ræna okkur friði og öryggi? Til að leysa vandann þurfum við að komast að rót hans en ekki bara takast á við afleiðingarnar.

Tökum dæmi. Sjúkdómur dró Tom til dauða. Hvers vegna dó hann? „Þegar fyrstu einkennin komu fram hugsaði engin um hvað ylli þeim,“ skrifaði læknir á sjúkrahúsinu þar sem Tom lést skömmu eftir að hafa verið lagður þar inn. Það virðist vera að læknarnir, sem önnuðust Tom áður, hafi einfaldlega gefið honum lyf til að láta honum líða betur.

Eru mennirnir að reyna að leysa vandamál heimsins á svipaðan hátt? Ríkisstjórnir setja til dæmis lög og reglur, fjölga eftirlitsmyndavélum og efla löggæslu til að berjast gegn glæpum. Þessar ráðstafanir bera að vísu vissan árangur en þær taka ekki á rót vandans. Hegðun manna endurspeglar yfirleitt viðhorf, skoðanir og langanir þeirra.

Daniel býr í landi í Suður-Ameríku þar sem efnahagsástandið fer versnandi. Hann segir: „Við lifðum einu sinni venjulegu lífi. Við þurftum ekki að óttast vopnuð rán. En nú er hvergi að finna friðsælan bæ eða þorp. Versnandi efnahagsástand hefur leitt í ljós hvernig margt fólk er innst inni – gráðugt og virðingarlaust fyrir lífi og eignum annarra.“

Maður, sem við skulum kalla Elias, flúði frá stríðsátökum í Mið-Austurlöndum. Hann fór síðar að kynna sér Biblíuna. Hann segir: „Margir ungir menn í heimabæ mínum voru hvattir til þess af fjölskyldum sínum og pólitískum trúarleiðtogum að taka þátt í stríðinu svo að þeir yrðu álitnir hetjur. Andstæðingarnir fengu að heyra nákvæmlega það sama. Þá skildi ég hversu vonlaust það er að leggja traust sitt á mennska stjórnendur.“

Gömul bók, sem hefur að geyma mikla visku, segir með réttu:

  • ,Hneigðir mannsins eru illar, allt frá æsku hans.‘ – 1. Mósebók 8:21.

  • „Svikult er hjartað framar öllu öðru og forhert. Hver skilur það?“ – Jeremía 17:9.

  • „Frá hjartanu koma illar hugsanir, manndráp ... saurlifnaður, þjófnaður, ljúgvitni.“ – Matteus 15:19.

Mönnunum hefur ekki tekist að losa sig við þær slæmu hneigðir sem fá menn til að særa aðra. Þær virðast bara versna eins og við sáum í greininni á undan. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Og þetta er orðið svona þrátt fyrir að við höfum aðgang að gríðarlegu magni upplýsinga, og tækni sem gerir okkur kleift að vera meira í samskiptum við aðra en áður. Hvers vegna getum við þá ekki gert heiminn friðsælan og öruggan? Erum við að ætlast til of mikils af okkur? Erum við að reyna að gera eitthvað sem er ómögulegt?

ER ERFIÐI OKKAR TIL EINSKIS?

Jafnvel þó að við gætum breytt slæmum hneigðum manna getum við ekki gert heiminn öruggan og friðsælan fyrir alla. Það er vegna þess að okkur mönnunum eru takmörk sett.

Sannleikurinn er einfaldlega sá að „enginn maður ... stýrir skrefum sínum“. (Jeremía 10:23) Við vorum ekki sköpuð til að stjórna okkur sjálf. Við vorum ekki heldur sköpuð til að ríkja yfir öðrum mönnum, ekkert frekar en við vorum sköpuð til að lifa neðansjávar eða í geimnum.

Við vorum ekki sköpuð til að ríkja yfir öðrum mönnum, ekkert frekar en við vorum sköpuð til að lifa neðansjávar.

Er mönnum til dæmis vel við það þegar jafningjar þeirra segja þeim hvernig þeir eigi að lifa lífinu eða hvaða siðferðisstöðlum þeir eigi að fylgja? Vill fólk að aðrir stjórni því hvernig það lítur á mál eins og fóstureyðingar, dauðarefsingar eða hvernig það eigi að ala upp börnin sín? Þetta eru bara nokkur dæmi um það sem fólk hefur skiptar skoðanir á. Það sem Biblían segir er því rökrétt þótt það sé kannski ekki það sem fólk vill heyra. Við höfum einfaldlega ekki getu eða rétt til að ríkja yfir öðrum mönnum. Hvar getum við þá fundið hjálp?

Það er skynsamlegt fyrir okkur að leita til skapara okkar – hans sem bjó okkur til. Hann hefur ekki gleymt okkur þó að sumir haldi það. Viska Biblíunnar leiðir í ljós að hann ber umhyggju fyrir okkur. Þegar við skiljum þessa einstöku bók skiljum við okkur sjálf einnig betur. Þá skiljum við líka hvers vegna mannkynssagan er svona dapurleg. Þýskur heimspekingur sagði: „Þjóðir og ríkisstjórnir hafa aldrei lært neitt af sögunni eða farið eftir meginreglum sem læra má af henni.“

VISKA BIBLÍUNNAR VERNDAR OKKUR

Vitur maður komst eitt sinn svo að orði: „Spekin sannast af verkum sínum.“ (Matteus 11:19) Dæmi um slíka visku er að finna í Sálmi 146:3 en þar segir: „Treystið eigi tignarmönnum, mönnum sem enga hjálp geta veitt.“ Þessi viturlegu ráð geta verndað okkur gegn því að hafa falskar vonir og óraunhæfar væntingar. Kenneth býr í borg í Norður-Ameríku þar sem mikið er um ofbeldi. Hann segir: „Hver stjórnmálamaðurinn á fætur öðrum lofar að bæta ástandið, en þeim tekst það ekki. Árangursleysi þeirra minnir stöðugt á visku Biblíunnar.“

Daniel, sem vitnað var í fyrr í greininni, segir: „Á hverjum degi sannfærist ég enn frekar um að menn geta ekki stjórnað með góðum árangri ... Að treysta á bankareikninginn eða lífeyrissjóðinn tryggir ekki örugga framtíð. Ég hef séð fólk verða fyrir miklum vonbrigðum í slíkum málum.“

Biblían verndar okkur ekki aðeins gegn óraunhæfum væntingum heldur gefur okkur von. Við skoðum það síðar í blaðinu.