Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | UPPELDI

Búðu barnið undir kynþroskann

Búðu barnið undir kynþroskann

VANDINN

Þér finnst eins og það hafi verið í gær sem þú hélst á nýfæddu barninu þínu. Nú er barnið orðið stálpað, en áður en það verður að fullorðnum einstaklingi er kynþroskaskeiðið framundan.

Kynþroskaskeiðið getur verið afar ruglingslegur og jafnvel átakanlegur tími. Hvernig getur þú undirbúið barnið þitt?

GOTT ER AÐ VITA

Kynþroskinn fer ekki eftir ákveðinni tímaáætlun. Dæmi eru um að átta ára gömul börn byrji á gelgjuskeiði en það getur líka dregist fram á miðjan unglingsaldur. „Gelgjuskeiðið er sveigjanlegt tímabil,“ segir í bókinni Letting Go With Love and Confidence.

Kynþroskaskeiðinu fylgir oft óöryggi. Unglingar eru oft mjög viðkvæmir fyrir því hvernig þeir koma öðrum fyrir sjónir. Ungur maður, sem heitir Jónas, * segir: „Ég var mjög meðvitaður um útlit mitt og hegðun. Þegar ég var í kringum aðra velti ég því fyrir mér hvort þeim þætti ég skrítinn.“ Sjálfstraustið getur tekið enn stærri dýfu ef unglingurinn fær bólur. Klara, sem er 17 ára, segir: „Mér fannst eins og andlitið á mér væri undir stöðugum árásum. Ég man að ég grét yfir því hvað mér fannst ég ljót.“

Það er aukin áskorun að vera bráðþroska unglingur. Þetta á sérstaklega við um stúlkur. Þegar brjóstin stækka og þær fá kvenlegri vöxt er þeim stundum strítt. „Það er meiri hætta á að þær veki áhuga eldri pilta sem eru líklegir til vera byrjaðir að stunda kynlíf,“ segir í bókinni A Parent’s Guide to the Teen Years.

Að verða kynþroska er ekki það sama og að verða fullorðinn. „Fíflska situr föst í hjarta sveinsins,“ segir í Orðskviðunum 22:15(Biblían 1981) Að verða kynþroska breytir ekki þeirri staðreynd. Unglingur gæti litið út fyrir að vera fullorðinn, en það „segir ekki neitt um hæfni hans til að taka skynsamlegar ákvarðanir, hegða sér á ábyrgan hátt, hafa sjálfsstjórn eða [sýna] þroska á öðrum sviðum,“ segir í bókinni You and Your Adolescent.

HVAÐ ER TIL RÁÐA?

Ræddu við barnið um kynþroskaskeiðið áður en það hefst. Segðu barninu hverju það má búast við, sérstaklega varðandi blæðingar (hjá stelpum) og sáðlát í svefni (hjá strákum). Ólíkt öðrum þáttum kynþroskans, sem koma hægt og sígandi, gerist þetta skyndilega. Því getur unglingurinn orðið hræddur og óöruggur. Þegar þið ræðið þessi mál skaltu benda á jákvæðu hliðarnar – að kynþroskinn komi af stað gagnlegri breytingu og sé skref í átt til fullorðinsáranna. – Ráðlegging Biblíunnar: Sálmur 139:14.

Farðu vandlega yfir málin. „Þegar foreldrar mínir ræddu við mig um ,blómin og býflugurnar‘, fóru þau í kringum hlutina,“ segir ungur maður sem heitir Arnar. Hann bætir við: „Ég vildi að þau hefðu útskýrt hlutina betur fyrir mér.“ Jónína, sem er 17 ára, er á sama máli. Hún segir: „Mamma hjálpaði mér að skilja hvernig líkaminn var að breytast, en ég vildi að hún hefði hjálpað mér betur við tilfinningalega þáttinn.“ Hvað má læra af þessu? Þrátt fyrir að þér finnist það vandræðalegt skaltu ræða alla þætti kynþroskans við barnið. – Ráðlegging Biblíunnar: Postulasagan 20:20.

Notaðu spurningar sem koma af stað samræðum. Að ræða um reynslu annarra af kynþroska getur brotið ísinn. Þú gætir til dæmis spurt dóttur þína: „Ræða bekkjarsystur þínar um að þær séu byrjaðar á blæðingum?“ „Verða bráðþroska stelpur fyrir stríðni?“ Þú gætir spurt son þinn: „Er gert grín að strákum sem eru seinni til að þroskast?“ Þegar unglingar ræða um hvernig kynþroskinn hefur áhrif á aðra getur það auðveldað þeim að ræða um eigin tilfinningar og reynslu. Þegar unglingurinn opnar sig skaltu fylgja ráðleggingum Biblíunnar og „vera fljótur til að heyra, seinn til að tala“. – Jakobsbréfið 1:19.

Hjálpaðu unglingnum að tileinka sér „visku og gætni“. (Orðskviðirnir 3:21) Kynþroskaskeiðið hefur ekki bara áhrif á líkamlegan og tilfinningalegan þroska. Unglingurinn lærir einnig að beita rökhugsun sem getur hjálpað honum að taka skynsamlegar ákvarðanir í framtíðinni. Notaðu því tækifærið til þess að innprenta honum góð lífsgildi. – Ráðlegging Biblíunnar: Hebreabréfið 5:14.

Ekki gefast upp. Oft virðist unglingurinn sýna samræðum um kynþroska lítinn áhuga. Láttu það ekki blekkja þig. Í bókinni You and Your Adolescent segir: „Unglingur, sem lætur sem hann hafi ekki áhuga, honum finnist umræðan hallærisleg og ógeðsleg eða þykist ekki heyra orð af henni, gæti samt sem áður verið að hlusta af athygli á hvert orð sem þú segir.“

^ gr. 8 Nöfnum í þessari grein hefur verið breytt.