Þegar börn syrgja
Syrgir þú ástvin sem hefur dáið? Ef svo er hvernig geturðu þá tekist á við sorgina? Lestu um þrjú ungmenni sem með hjálp Biblíunnar tókust á við ástvinamissi.
REYNSLUSAGA DAMI
Í fyrstu virtist pabbi bara vera með höfuðverk. En þegar verkirnir versnuðu hringdi mamma á sjúkrabíl. Ég man vel þegar sjúkraflutningamennirnir fóru með hann. Ég gerði mér enga grein fyrir að ég ætti aldrei eftir að sjá pabba aftur á lífi. Hann dó af völdum heilablæðingar þremur dögum síðar. Ég var bara sex ára gömul.
Í mörg ár kenndi ég sjálfri mér um dauða föður míns. Ég hugsaði í sífellu um það þegar sjúkraflutningamennirnir fóru með hann og spurði sjálfa mig: „Af hverju stóð ég bara þarna? Hvers vegna gerði ég ekki eitthvað?“ Stundum horfði ég á eldra fólk sem átti við heilsubrest að stríða og hugsaði: „Af hverju eru þau á lífi en ekki pabbi minn?“ En með tímanum gat ég talað um þessar tilfinningar við mömmu og það hjálpaði mér mikið. Við fengum líka mikinn stuðning frá trúsystkinum okkar en við erum vottar Jehóva.
Sumir halda að maður syrgi bara í svolítinn tíma eftir missinn en jafni sig svo. En þannig var það ekki hjá mér. Ég syrgði í rauninni ekki fyrr en ég var komin á táningsaldur.
Ráð mitt til þeirra sem eru ungir að aldri og missa foreldri sitt er þetta: „Talið við einhvern um líðan ykkar. Því fyrr sem maður tjáir tilfinningar sínar því fyrr nær maður sér.“
Það er að sjálfsögðu erfitt að hafa ekki pabba hjá mér á tímamótum í lífi mínu en loforðið um það sem Guð ætlar bráðlega að gera hughreystir mig. Það er að finna í Opinberunarbókinni 21:4: „Hann mun þerra hvert tár af augum [okkar]. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“
REYNSLUSAGA DERRICKS
Sumar af mínum bestu minningum eru frá því þegar við pabbi fórum í veiðitúra og tjaldferðir upp í fjöll. Hann hafði yndi af því að vera í náttúrunni og uppi á fjöllum.
Pabbi hafði átt við hjartavandamál að stríða um tíma og ég man eftir að hafa heimsótt hann einu sinni eða tvisvar upp á spítala þegar ég var lítill. En ég gerði mér enga grein fyrir hversu alvarlegur sjúkdómurinn var. Hann lést af völdum hans þegar ég var níu ára gamall.
Eftir að pabbi dó grét ég nánast stanslaust. Mér leið eins og ég væri að kafna og langaði ekki að tala við neinn. Mér hafði aldrei áður liðið svona illa og mig langaði ekki lengur að gera neitt. Ég var í barnastarfi í kirkjunni okkar og fyrst eftir að
pabbi dó var mér sýnd sérstök athygli þar, en hún dofnaði fljótt. Fólkið þar sagði við mig: „Tími pabba þíns var kominn“ eða „Guð kallaði hann til sín“ eða „hann er á himnum núna“. Ég var ekki sáttur við þessar útskýringar en ég hafði ekki hugmynd um hvað Biblían kennir um þessi mál.Mamma fór að kynna sér Biblíuna með aðstoð votta Jehóva og með tímanum tókum við bróðir minn líka þátt í biblíunáminu. Við lærðum um hvert ástand hinna dánu er og einnig um hughreystandi loforð Guðs um upprisu. (Jóhannes 5:28, 29) En biblíuversið, sem hjálpaði mér einna mest, var Jesaja 41:10 en þar segir Guð: „Óttast eigi því að ég er með þér, vertu ekki hræddur því að ég er þinn Guð. Ég styrki þig, ég hjálpa þér.“ Meðan ég syrgði sem mest fannst mér hughreystandi að vita að Jehóva Guð væri með mér og það hughreystir mig enn.
REYNSLUSAGA JEANNIE
Ég var sjö ára gömul þegar móðir mín lést úr krabbameini. Allur dagurinn virtist óraunverulegur. Ég man að hún dó heima og að afi minn og amma voru þar. Allir voru rólegir og ég man að við borðuðum eggjahræru í kvöldmatinn. Mér fannst líf mitt hægt og rólega snúast á hvolf þennan dag.
En á þessum tíma – og reyndar í mörg ár eftir það – fannst mér ég þurfa að vera sterk fyrir litlu systur mína svo að ég byrgði inni mínar eigin tilfinningar. Ég hef enn þá tilhneigingu til að loka á erfiðar tilfinningar og það er ekki gott fyrir mig.
Söfnuður votta Jehóva í heimabæ okkar sýndi okkur einstakan stuðning og kærleika. Við vorum bara nýlega farin að mæta á samkomur í ríkissal þeirra en trúsystkini okkar komu fram við okkur eins og við hefðum lengi verið hluti af söfnuðinum. Ég held að pabbi hafi ekki þurft að elda kvöldmat í heilt ár vegna þess að við fengum mat færðan heim að dyrum á hverjum degi.
Mér þykir sérstaklega vænt um það sem segir í Sálmi 25:16, 17. Þar sárbænir sálmaritarinn Guð: „Snú þér til mín og ver mér náðugur því að ég er einmana og beygður. Frelsa mig frá kvíða hjarta míns, leið mig úr nauðum.“ Mér finnst mjög hughreystandi að vita að maður er aldrei einn þegar maður er sorgmæddur því að Guð er með manni og styrkir mann. Með hjálp Biblíunnar hef ég getað litið fram á veginn og einbeitt mér að jákvæðum hlutum eins og hughreystandi loforði hennar um upprisuna. Ég á þá von að fá að sjá mömmu aftur og fá að kynnast henni við fullkomna heilsu í paradís á jörð. – 2. Pétursbréf 3:13.
Langar þig til að vita meira um hvernig loforð Biblíunnar geta hughreyst þá sem syrgja? Þú getur sótt ókeypis eintak af bæklingnum „Þegar ástvinur deyr“ á www.pr418.com/is undir ÚTGÁFA > BÆKUR OG BÆKLINGAR.