3. LÆRDÓMUR
Kenndu barninu þrautseigju
HVAÐ ER ÞRAUTSEIGJA?
Sá sem er þrautseigur lætur ekki hindranir og vonbrigði stöðva sig. Maður byggir upp þrautseigju með reynslu. Rétt eins og barn lærir ekki að ganga án þess að detta inn á milli getur það ekki lært á lífið án þess að eitthvað komi upp á af og til.
HVERS VEGNA ER ÞRAUTSEIGJA MIKILVÆG?
Sum börn missa kjarkinn þegar þau gera mistök, verða fyrir mótlæti eða eru gagnrýnd. Önnur gefast alveg upp. En þau þurfa að gera sér grein fyrir eftirfarandi staðreyndum:
-
Við komumst ekki hjá því að gera mistök. – Jakobsbréfið 3:2.
-
Allir verða fyrir einhverju mótlæti í lífinu. – Prédikarinn 9:11.
-
Leiðrétting er mikilvægur þáttur í því að læra. – Orðskviðirnir 9:9.
Þrautseigja gerir barnið fært um að takast á við erfiðar aðstæður með sjálfstrausti.
HVERNIG ER HÆGT AÐ KENNA ÞRAUTSEIGJU?
Þegar barnið gerir mistök.
MEGINREGLA: „Sjö sinnum fellur hinn réttláti og stendur upp aftur.“ – Orðskviðirnir 24:16.
Hjálpaðu barninu að sjá hlutina í réttu ljósi. Hvað myndi barnið til dæmis gera ef það félli á prófi í skólanum? Það gæfist kannski upp og segði: „Ég get ekki gert neitt rétt!“
Kenndu barninu þrautseigju með því að hjálpa því að finna leið til að bæta sig. Þannig getur barnið reynt að leysa vandamálið í stað þess að missa móðinn.
Varastu jafnframt að leysa vandamálið fyrir barnið. Hjálpaðu því heldur að finna lausnina sjálft. Þú gætir spurt: „Hvað geturðu gert til að átta þig betur á námsefninu?“
Þegar barnið verður fyrir mótlæti.
MEGINREGLA: „Þið vitið ekki hvernig líf ykkar verður á morgun.“ – Jakobsbréfið 4:14.
Lífið er óútreiknanlegt. Sá sem er ríkur í dag getur orðið fátækur á morgun. Og sá sem er heilsuhraustur í dag getur orðið sjúklingur á morgun. Í Biblíunni segir: „Hinir fótfráu ráða ekki hlaupinu, né hetjurnar stríðinu ... því að tími og tilviljun hittir þá alla fyrir.“ – Prédikarinn 9:11.
Þú gerir eðlilega þitt besta til að vernda barnið þitt fyrir hættum. En það er auðvitað ekki hægt að verja börnin fyrir öllu mótlæti.
Þegar barnið þitt verður fyrir erfiðri reynslu eins og að missa vináttu einhvers eða ef einhver í fjölskyldunni deyr geturðu hjálpað því að takast á við aðstæðurnar. * Með því lærir það að takast á við aðra erfiðleika sem gætu mætt því þegar það verður eldra, eins og til dæmis að missa vinnu eða lenda í fjárhagserfiðleikum.
Þegar barnið fær uppbyggilega gagnrýni.
MEGINREGLA: „Hlýddu ráðum ... svo að þú verðir vitur að lokum.“ – Orðskviðirnir 19:20.
Uppbyggileg gagnrýni er ekki gerð til að kúga heldur til að benda á verk eða viðhorf sem þarf að bæta.
Ef þú kennir barninu að taka við leiðréttingu njótið þið bæði góðs af. Faðir að nafni John segir: „Ef börn þurfa aldrei að leiðrétta mistök sín læra þau ekki af þeim. Þá koma þau sér í hvern vandann á fætur öðrum og þú verður alla ævi að bjarga þeim úr klípum sem þau koma sér í. Það gerir lífið ömurlegt bæði fyrir foreldrana og barnið.“
Hvernig geturðu hjálpað barninu að hafa gagn af uppbyggilegri gagnrýni? Varastu að segja að gagnrýni sem barnið fær í skólanum eða annars staðar sé ósanngjörn. Þess í stað gætirðu spurt barnið:
-
Hvers vegna heldurðu að þú hafir fengið leiðréttingu?
-
Hvernig geturðu bætt þig?
-
Hvað ætlarðu að gera næst þegar þú færð leiðréttingu?
Mundu að uppbyggileg gagnrýni er gagnleg fyrir barnið allt fram á fullorðinsár.
^ gr. 21 Sjá greinina „Help Your Child Cope With Grief“ í Varðturninum á ensku 1. júlí 2008.