Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað getum við lært af alheiminum?

Hvað getum við lært af alheiminum?

Alheimurinn kemur stjörnufræðingum stöðugt á óvart. Og þeir hafa aldrei átt betri tæki til að rannsaka hann. Hverju hafa þeir komist að?

Í alheiminum er röð og regla. „Vetrarbrautunum er ekki dreift handahófskennt um himingeiminn heldur mynda þær mynstur líkt og vef,“ segir í grein í tímaritinu Astronomy. Hvernig er það hægt? Vísindamenn telja það mögulegt vegna ósýnilegs efnis sem kallast hulduefni. Þessu hulduefni hefur verið líkt við „eins konar ósýnilega grind þar sem … vetrarbrautum, vetrarbrautaþyrpingum og reginþyrpingum vetrarbrauta … er raðað saman og þeim haldið á réttum stað“.

Hvernig varð alheimurinn svona skipulagður? Er trúlegt að þessi röð og regla hafi komið til af sjálfri sér? Taktu eftir því sem Allan Sandage, sem nú er látinn, sagði. Hann er talinn „einn besti og áhrifamesti stjörnufræðingur 20. aldar“ og hann trúði á Guð.

Hann sagði: „Mér finnst harla ólíklegt að slík reglufesta komi af óreiðu. Það hljóta einhver lögmál að orsaka þetta skipulag.“

Alheimurinn er fínstilltur til að viðhalda lífi. Hugsaðu um það sem vísindamenn kalla veika kjarnakraftinn. Hann sér til þess að sólin brenni með jöfnum hraða. Ef krafturinn væri veikari hefði sólin aldrei myndast. Og ef hann væri sterkari væri sólin löngu brunnin upp.

Veiki krafturinn er aðeins ein af mörgum fínstillingum sem við erum háð. Vísindarithöfundurinn Anil Ananthaswamy segir að ef aðeins ein þessara fínstillinga hefði verið öðruvísi hefðu „stjörnur, reikistjörnur og vetrarbrautir aldrei myndast. Líf hefði verið nánast óhugsandi.“

Í alheiminum er fullkomið heimili fyrir mennina. Jörðin er með rétta andrúmsloftið, mátulega mikið vatn og tungl sem er af nákvæmlega réttri stærð til að halda jörðinni stöðugri. Í National Geographic segir: „Flókið samspil jarðfræði, vistfræði og líffræði gerir þennan skrítna stein [jörðina] að þeim eina innan seilingar sem hentar mönnum fullkomlega.“ *

Rithöfundur nokkur segir sólkerfið okkar vera „úti í auðninni“ í vetrarbrautinni. En það er einmitt þess vegna sem líf á jörðinni getur þrifist. Ef jörðin væri nær öðrum stjörnum – annaðhvort í miðju vetrarbrautarinnar eða úti í þyrilörmunum – myndu geislar stofna lífi okkar í hættu. En við erum á þeim stað sem sumir vísindamenn hafa kallað „byggilegt svæði vetrarbrautarinnar“.

Eðlisfræðingurinn Paul Davies dregur eftirfarandi ályktun byggða á vísindalegri þekkingu sinni á alheiminum og lögmálum hans: „Ég get ekki trúað því að tilvera okkar í alheiminum stafi af sérvisku örlaganna, sé slys í veraldarsögunni eða smávægileg truflun í sjónleik alheimsins … Okkur er sannarlega ætlað að vera hér.“ Davies kennir ekki að Guð hafi skapað alheiminn og mannlífið. En hvað heldur þú? Alheimurinn og jörðin virðast vera hönnuð fyrir líf. Getur verið að þau virðist vera það vegna þess að þau voru hönnuð?

^ gr. 8 Þessi grein í National Geographic var ekki skrifuð til að gefa í skyn að Guð hafi skapað jörðina og manninn. Hún fjallaði öllu heldur um hve hentug jörðin væri fyrir mannlíf.