Hvað getum við lært af lífverum?
Lífverur allt í kringum okkur vaxa, hreyfast og fjölga sér. Þær gera jörðina okkar einstaklega fallega. Og núna vita menn meira um lífið en nokkru sinni fyrr. Hvað lærum við af lífverunum um uppruna lífsins? Hugleiddu eftirfarandi upplýsingar.
Lífið virðist vera hannað. Frumur eru stundum kallaðar byggingareiningar lífsins. Þær eru eins og agnarsmáar verksmiðjur sem vinna mörg þúsund gríðarlega flókin verkefni til að fjölga sér og viðhalda lífinu. Svona flókin kerfi er að finna nánast alls staðar. Tökum sem dæmi bökunarger, sem er einfrumungur. Í samanburði við frumur mannslíkamans virðist gersveppur kannski einfaldur. En hann er í rauninni ótrúlega flókinn. Gersveppur er með margbrotinn frumukjarna með deoxýríbósakjarnsýru (DNA). Hann er útbúinn agnarsmáum „vélum“ sem flokka, flytja og breyta sameindum, en það er nauðsynlegt til að halda lífi í þessari lífveru. Þegar gersveppinn vantar næringu hrindir hann af stað flóknu efnaferli sem hægir á starfsemi hans. Þannig getur bökunargerið legið í dvala á búrhillunni þar til það er virkjað aftur í bökunarferlinu.
Vísindamenn hafa rannsakað gersveppi í áratugi til að fá betri skilning á frumum mannslíkamans. En þeir eiga langt í land. „Það eru hreinlega ekki til nógu margir líffræðingar til að gera allar þær rannsóknir sem við viljum, bara til að skilja hvernig ger virkar,“ segir Ross King prófessor við Chalmers-tækniháskólann í Svíþjóð.
Hvað finnst þér? Ber það merki um hönnun að gersveppurinn skuli vera jafn flókinn og raun ber vitni? Getur slík hönnun hafa orðið til án hönnuðar?
Líf getur aðeins komið af lífi. DNA samanstendur af sameindum sem kallast núkleótíð. Í hverri frumu mannslíkamans eru 3,2 milljarðar núkleótíða. Þessi efnasambönd mynda nákvæmt mynstur til að fruman geti framleitt ensím og prótín.
Reiknað hefur verið út að líkurnar á að jafnvel einfaldasti þráður núkleótíða myndi af sjálfu sér rétt mynstur séu 1 á móti 10150 (1 með 150 núllum). Það er í rauninni ómögulegt að slíkt gerist.
Engar tilraunir vísindamanna hafa sannað að líf geti sprottið af lífvana efni.
Líf mannsins er einstakt. Við mennirnir búum yfir eiginleikum sem gera okkur kleift að njóta lífsins til fulls – og á vegu sem enginn önnur tegund getur. Við erum með margbrotinn sköpunarhæfileika, félagsfærni og tilfinningar. Við getum notið margs konar bragðs, lyktar, hljóðs, lita og þess sem við sjáum. Við gerum áætlanir fram í tímann og leitum að tilgangi í lífinu.
Hvað finnst þér? Þróuðust þessir eiginleikar í okkur vegna þess að við þurftum á þeim að halda til að lifa af og geta fjölgað okkur? Eða getur verið að þeir bendi til að lífið sé gjöf frá kærleiksríkum skapara?