Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Leiðsögn um friðsöm samskipti

Leiðsögn um friðsöm samskipti

Skapari okkar fræðir okkur um hvernig við getum átt friðsöm samskipti við aðra, hvort sem það er á heimilinu, í vinnunni eða við vini okkar. Hugleiddu nokkur dæmi um viturleg ráð hans sem hafa hjálpað mörgum sem hafa nýtt sér þau.

Vertu fús til að fyrirgefa

„Haldið áfram að … fyrirgefa hvert öðru fúslega, jafnvel þegar þið hafið ástæðu til að kvarta undan öðrum.“ – KÓLOSSUBRÉFIÐ 3:13.

Við gerum öll mistök. Við móðgum kannski aðra eða þeir móðga okkur. Hvernig sem í málum liggur þurfum við öll að fyrirgefa og fá fyrirgefningu. Þegar við fyrirgefum hættum við að finna til gremju í garð þess sem móðgaði okkur. Við ‚gjöldum ekki illt með illu‘ og við erum ekki stöðugt að minna hinn aðilann á mistök hans eða veikleika. (Rómverjabréfið 12:17) En segjum nú svo að við höfum verið djúpt særð og getum ekki hætt að hugsa um atburðinn. Þá ættum við að tala við hinn aðilann á tillitsaman hátt og í einrúmi, ekki með það fyrir augum að sigra deiluna heldur að koma á friði á ný. – Rómverjabréfið 12:18.

Vertu auðmjúkur og sýndu virðingu

„Verið … auðmjúk og lítið á aðra sem ykkur meiri.“ – FILIPPÍBRÉFIÐ 2:3.

Þegar við erum auðmjúk og sýnum öðrum virðingu finnst fólki gott að vera í návist okkar. Það veit að við munum vera hlýleg og tillitssöm og að við munum ekki særa þau viljandi. En ef okkur finnst við öðrum fremri eða heimtum alltaf að farið sé að okkar ósk sköpum við deilur og spennu. Þá forðast fólk okkur og við verðum vinafá, jafnvel vinalaus.

Vertu óhlutdrægur

„Guð mismunar ekki fólki heldur tekur hann á móti hverjum þeim sem óttast hann og gerir rétt.“ – POSTULASAGAN 10:34, 35.

Skapari okkar tekur ekki einn fram yfir annan vegna þjóðernis, tungumáls, þjóðfélagsstöðu eða húðlitar. „Hann gerði af einum manni allar þjóðir,“ þannig að í vissum skilningi er allt fólk bræður og systur. (Postulasagan 17:26) Þegar við komum fram við alla af virðingu og hlýju gleðjum við fólk og það gerir okkur hamingjusamari og það er skapara okkar velþóknanlegt.

Vertu hógvær

„Íklæðist … hógværð.“ – KÓLOSSUBRÉFIÐ 3:12.

Þegar við erum hógvær hjálpum við öðrum að slaka á. Þeir eru óhræddir að tala við okkur og jafnvel að leiðrétta okkur vegna þess að þeir vita að við höldum ró okkar. Og þegar einhver reiðist okkur geta mildileg viðbrögð okkar róað hann. „Milt svar stöðvar bræði en hvöss orð vekja reiði,“ segir í Orðskviðunum 15:1.

Vertu örlátur og þakklátur

„Það er ánægjulegra að gefa en þiggja.“ – POSTULASAGAN 20:35.

Nú á dögum eru margir gráðugir og hugsa fyrst og fremst um sjálfa sig. En sönn hamingja fellur í skaut þeirra sem eru örlátir. (Lúkas 6:38) Örlátt fólk er hamingjusamt vegna þess að það elskar fólk meira en hluti. Sami kærleikurinn fær það til að vera þakklátt og að sýna að það kunni að meta örlæti í sinn garð. (Kólossubréfið 3:15) Spurðu sjálfan þig: Með hverjum vil ég vera? Með nísku og vanþakklátu fólki eða með örlátu og þakklátu fólki? Hvað lærum við af því? Vertu sú manngerð sem þú vilt að aðrir séu. – Matteus 7:12.