Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

ER HÆGT AÐ BJARGA JÖRÐINNI?

Ferskvatnið

Ferskvatnið

LÍF gæti ekki þrifist á jörðinni án vatns, sérstaklega ferskvatns. Vatn er reyndar stærsti efnisþátturinn í öllum lifandi verum. Stöðuvötn, ár, votlendi og vatnsgeng jarðlög sjá mönnum og dýrum fyrir drykkjarvatni og gera okkur kleift að vökva gróðurinn.

Ferskvatnið í hættu

Stærstur hluti jarðar er hulinn vatni. En að sögn Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar eru „aðeins 0,5% af vatni jarðar nothæft og tiltækt ferskvatn“. Þó að ferskvatnið sé ekki meira en þetta ætti það að nægja öllu lífi á jörð. Stór hluti þess er hins vegar orðinn mengaður eða er ekki aðgengilegur vegna aukinnar notkunar og lofslagsbreytinga. Sérfræðingar spá að svo geti farið að innan 30 ára hafi fimm milljarðar manna ekki nægan aðgang að fersku vatni.

Jörðin – hönnuð til að endurnýja sig

Náttúrleg ferli sjá til þess að halda jafnvægi í vatnsbúskap jarðar. Jarðvegur, lífríki vatna og jafnvel sólarljósið vinna líka saman að því að hreinsa vatnið. Lítum á nokkur merki þess að jörðin sé hönnuð til að endurnýja sig.

  • Sýnt hefur verið fram á að jarðvegurinn geti hreinsað margs konar mengunarefni úr vatni. Vitað er að sumar plöntur sem vaxa í votlendi fjarlægja köfnunarefni, fosfór og skordýraeitur úr vatni.

  • Vísindamenn hafa bent á viss ferli sem hreinsa náttúrleg lífræn úrgangsefni úr vatni. Úrgangsefnin þynnast í rennandi vatni og örverur brjóta þau síðan niður.

  • Vatnabláskel og aðrar samlokur geta hreinsað varasöm efnasambönd úr vatni á fáeinum dögum – og gera það jafnvel betur en hreinsistöðvar.

  • Jörðin varðveitir vatnið með því að halda því í stöðugri hringrás. Þessi hringrás, ásamt öðrum ferlum í náttúrunni, kemur í veg fyrir að vatn sleppi út úr gufuhvolfinu eða hverfi með öðrum hætti.

Hvað er gert í málinu?

Með því að koma í veg fyrir olíuleka og ganga rétt frá spilliefnum eigum við þátt í að halda ferskvatninu hreinu.

Sérfræðingar mæla með því að menn spari vatn eins og hægt er. Til að draga úr vatnsmengun er mælst til þess að koma í veg fyrir allan olíuleka í bílum, sturta ekki ónotuðum lyfjum niður í klósettið og skola ekki niður eiturefnum með öðrum hætti.

Verkfræðingar hafa fundið upp á nýjum aðferðum til að afselta sjó. Markmiðið er að auka ferskvatnsbirgðir.

En meira þarf til. Það virðist ekki vera raunhæf lausn að afselta sjó í stórum stíl því að það er bæði dýrt og mjög orkufrekt. Í skýrslu frá 2021 um vatnsbúskap, gefin út af Sameinuðu þjóðunum, segir: „Á heimsvísu þarf að tvöfalda núverandi afköst.“

Ástæður til bjartsýni – hvað segir Biblían?

„Guð ... dregur upp vatnsdropana, þeir þéttast úr þokunni og mynda regn. Það streymir niður úr skýjunum og fellur yfir mennina.“ – Jobsbók 36:26–28.

Guð skapaði hringrásir í náttúrunni til að vernda vatnsbirgðir jarðar. – Prédikarinn 1:7.

Hugleiddu málið: Fyrst skaparinn hannaði ferli til að hreinsa ferskvatnið er þá ekki rökrétt að hann bæði geti og vilji bæta það tjón sem mennirnir hafa valdið á þessari mikilvægu auðlind? Sjá greinina „Guð lofar að jörðinni verði bjargað,“ á bls. 15.