Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Hvers vegna var handþvottur hitamál fyrir andstæðinga Jesú?

Þetta var aðeins eitt af mörgum atriðum sem andstæðingar Jesú fundu að hjá honum og lærisveinum hans. Í Móselögunum voru mörg ákvæði um trúarlegt hreinlæti, meðal annars í tengslum við útferð hjá körlum og konum, holdsveiki og meðhöndlun á mannslíkum og dýrahræjum. Þar voru líka leiðbeiningar um hvernig hægt væri að hreinsast af ýmsum óhreinleika. Það var meðal annars hægt með því að færa fórnir, þvo sér eða með því að skvetta vatni. – 3. Mós. kaflar 11-15; 4. Mós. kafli 19.

Rabbínar Gyðinga útlistuðu þessi lög í ýtrustu smáatriðum. Í heimildarriti segir að allar orsakir óhreinleika hafi verið „skoðaðar vandlega til að kanna við hvaða aðstæður óhreinleikinn smitaðist, og hvernig og í hvaða mæli hann gæti borist manna á milli. Einnig þurfti að skoða hvaða áhöld og hlutir gætu orðið óhreinir og hverjir ekki, og að lokum hvaða aðferðir og helgisiði þurfti að viðhafa til að hreinsast.“

Andstæðingar Jesú spurðu hann: „Hvers vegna fylgja lærisveinar þínir ekki erfðavenju forfeðranna heldur neyta matar með vanhelgum höndum?“ (Mark. 7:5) Þessir trúarlegu óvinir nefndu þetta ekki af hreinlætisástæðum. Samkvæmt helgisiðum Gyðinga kröfðust rabbínar þess að vatni væri hellt yfir hendurnar áður en sest var að snæðingi. Heimildarritið, sem áður var vitnað í, heldur áfram: „Einnig var deilt um hvaða ílát ætti að nota til að hella vatninu, hvers konar vatn ætti að nota, hver ætti að hella því og hvaða hluta handanna yrði að bleyta.“

Viðbrögð Jesú við öllum þessum mannasetningum voru einföld. Hann sagði við þessa trúarleiðtoga Gyðinga: „Sannspár var Jesaja um ykkur hræsnara þar sem ritað er: Þessir menn heiðra mig [Jehóva] með vörunum en hjarta þeirra er langt frá mér. Til einskis dýrka þeir mig því að þeir kenna það eitt sem menn hafa samið. Þið hafnið boðum Guðs en haldið erfikenning manna.“ – Mark. 7:6-8.