Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Geturðu tekið framförum í þjónustunni?

Geturðu tekið framförum í þjónustunni?

„Ver kostgæfinn við að lesa upp úr Ritningunni, uppörva og kenna.“ – 1. TÍM. 4:13.

SÖNGVAR: 45, 70

1, 2. (a) Hvernig uppfyllist Jesaja 60:22 á síðustu dögum? (b) Hvaða aðkallandi þörf er í jarðneskum hluta alheimssafnaðar Jehóva?

„HINN minnsti verður að þúsund, hinn lítilmótlegasti að voldugri þjóð.“ (Jes. 60:22) Þessi spádómur er að uppfyllast núna á síðustu dögum. Á þjónustuárinu 2015 voru 8.220.105 boðberar virkir í boðuninni um allan heim. Síðari hluti spádómsins ætti að hafa áhrif á alla kristna menn. Þar segir faðir okkar á himnum: „Ég, Drottinn, mun hraða þessu þegar að því kemur.“ Við finnum hvernig Jehóva hraðar boðuninni og kennslunni, rétt eins og farþegi í bíl finnur þegar bílstjórinn eykur hraðann. Hvernig bregðumst við við þegar við finnum að hraðinn er að aukast? Leggjum við eins mikið af mörkum og við getum í boðuninni? Mörg trúsystkini okkar sækja um að starfa sem brautryðjendur eða aðstoðarbrautryðjendur. Og við fögnum því líka að sjá svona marga taka til sín hvatninguna að þjóna þar sem þörf er á fleiri boðberum eða sinna öðrum sviðum þjónustunnar.

2 Það er samt sem áður aðkallandi þörf fyrir fleiri verkamenn. Á hverju ári eru myndaðir um 2.000 nýir söfnuðir. Ef hver þeirra ætti að hafa 5 öldunga þýddi það að 10.000 safnaðarþjónar þyrftu að vera hæfir til að þjóna sem öldungar á ári hverju. Og það þýddi líka að mörg þúsund bræður þyrftu að uppfylla hæfniskröfurnar sem gerðar eru til safnaðarþjóna. En hvort sem við erum bræður eða systur höfum við öll nóg að gera í þjónustu Drottins. – 1. Kor. 15:58.

HVAÐ ÞARF TIL AÐ TAKA FRAMFÖRUM Í ÞJÓNUSTUNNI?

3, 4. Á hvaða sviðum er hægt að taka framförum?

3 Lestu 1. Tímóteusarbréf 3:1Gríska orðið, sem er þýtt að ,sækjast eftir‘, merkir að teygja sig í eitthvað og það gæti verið eitthvað sem er erfitt að ná til. Með því að nota þetta orð var Páll postuli að benda á að það þurfi að leggja eitthvað á sig til að taka framförum í þjónustunni. Ímyndum okkur bróður sem vill gera meira gagn í söfnuðinum. Hann er ekki safnaðarþjónn enn sem komið er og veit að til þess þarf hann að rækta sinn andlega mann. Hann stefnir þó að því að verða safnaðarþjónn. Með tímanum vonast hann til að uppfylla hæfniskröfurnar sem gerðar eru til umsjónarmanna. Í báðum tilfellum leggur hann sig allan fram til að reynast hæfur til að taka á sig aukna ábyrgð í söfnuðinum.

4 Bræður og systur, sem langar til að vera brautryðjendur, Betelítar eða sjálfboðaliðar við að byggja ríkissali, þurfa líka að leggja hart að sér til að ná þeim markmiðum. Skoðum hvernig Biblían hvetur okkur öll til að taka framförum í þjónustu Guðs.

REYNDU AÐ TAKA ENN MEIRI FRAMFÖRUM

5. Á hvaða hátt getur ungt fólk nýtt krafta sína í þjónustu Guðs?

5 Ungt fólk hefur krafta til að áorka miklu í þjónustu Jehóva. (Lestu Orðskviðina 20:29.) Ungir bræður og systur, sem starfa á Betel, taka sum hver þátt í að prenta og binda inn biblíur og biblíutengd rit. Margt ungt fólk í söfnuðinum leggur hönd á plóginn við að byggja ríkissali og viðhalda þeim. Þegar náttúruhamfarir verða er algengt að ungt fólk leggi reyndum vottum lið við hjálparstarfið. Og margir ungir brautryðjendur flytja frumbyggjum og erlendum málhópum fagnaðarerindið.

6-8. (a) Hvernig varð ungur maður jákvæðari gagnvart þjónustunni við Guð og hvaða blessun hlaut hann? (b) Hvernig getum við ,fundið og séð að Jehóva er góður‘?

6 Þú ert örugglega sammála því að það sé mikilvægt að þjóna Guði af heilum hug. En hvað geturðu gert ef þér líður eins og Aaroni leið einu sinni? Hann ólst upp í vottafjölskyldu en viðurkenndi að honum hefði fundist leiðinlegt að boða trúna og sækja samkomur. Hann vildi gjarnan þjóna Guði með gleði en skildi ekki alveg af hverju hann var ekki ánægður. Hvað gerði hann í því?

7 Aaron setti sér markmið sem fólu í sér að lesa reglulega í Biblíunni, búa sig undir samkomurnar og svara á þeim. Hann lagði sérstaka áherslu á að biðja reglulega. Þetta styrkti kærleiksböndin við Jehóva og hann tók góðum framförum í þjónustunni. Síðan þá hefur Aaron verið brautryðjandi, tekið þátt í hjálparstarfi og boðað trúna á erlendri grund. Aaron er núna öldungur og starfar á Betel. Hvernig hugsar hann um þá stefnu sem líf hans tók? „Ég hef ,fundið og séð að Jehóva er góður‘. Hann hefur blessað mig ríkulega og ég stend í þakkarskuld við hann. Ég finn mig knúinn til að gera enn meira í þjónustu hans og það færir mér mikla blessun.“

8 Sálmaskáldið orti: „Þeir er leita Drottins fara einskis góðs á mis.“ (Lestu Sálm 34:9-11.) Jehóva veldur þeim aldrei vonbrigðum sem þjóna honum af kappi. Við ,finnum og sjáum að Jehóva er góður‘ þegar við gerum allt sem við getum í þjónustu hans. Og þegar við tilbiðjum Jehóva af heilum hug njótum við gleði sem á engan sinn líka.

VERTU ÞRAUTSEIGUR OG MISSTU EKKI MÓÐINN

9, 10. Hvers vegna er mikilvægt að vera þolinmóður?

9 Vertu þolinmóður þegar þú vinnur að markmiðum þínum. (Míka 7:7) Jehóva styður alltaf trúa þjóna sína. Stundum þurfa þeir að vera þolinmóðir og bíða eftir að fá verkefni í söfnuðinum eða eftir að aðstæður breytist til hins betra. Jehóva lofaði að gefa Abraham son en Abraham þurfti að sýna þolinmæði og trú. (Hebr. 6:12-15) Hann beið árum saman eftir því að Ísak fæddist en missti þó aldrei móðinn. Og Jehóva olli honum ekki vonbrigðum. – 1. Mós. 15:3, 4; 21:5.

10 Það er ekki auðvelt að bíða. (Orðskv. 13:12) Ef við erum vonsvikin og hugsum ekki um annað getur það dregið úr okkur kjarkinn. Það er miklu betra að nota tímann sem við höfum til að taka framförum og bæta okkar andlega mann. Það eru að minnsta kosti þrjár leiðir til þess.

11. Hvaða eiginleika getum við þroskað með okkur og hvers vegna er það mikilvægt?

11 Þroskaðu þinn andlega mann. Með því að lesa og hugleiða orð Guðs getum við ræktað með okkur eiginleika svo sem visku, skilning, góða dómgreind, þekkingu, skynsemi og aðgætni. Þeir sem taka forystuna í söfnuðinum þurfa að hafa þessa eiginleika til að bera. (Orðskv. 1:1-4; Tít. 1:7-9) Og þegar við lesum biblíutengdu ritin okkar getum við áttað okkur á hvernig Jehóva lítur á alls konar mál. Við þurfum daglega að taka ákvarðanir varðandi afþreyingu, klæðaburð, snyrtingu, peninga og samskipti við aðra. Með því að fylgja því sem við lærum af Biblíunni getum við tekið ákvarðanir sem gleðja Jehóva.

12. Hvernig getum við sýnt að við séum traust og áreiðanleg?

12 Vertu traustur og áreiðanlegur. Bæði bræður og systur þurfa að sinna öllum verkefnum sínum í söfnuðinum eftir bestu getu. Nehemía var landstjóri og þurfti að skipa menn í ábyrgðarstöður meðal þjóðar Guðs. Hverja valdi hann? Hann valdi guðhrædda menn sem voru traustir og áreiðanlegir. (Neh. 7:2; 13:12, 13) Nú á dögum er þess einnig „krafist af ráðsmönnum að sérhver reynist trúr“. (1. Kor. 4:2) Góð verk fara ekki fram hjá öðrum. – Lestu 1. Tímóteusarbréf 5:25.

13. Hvernig geturðu líkt eftir Jósef ef aðrir eru ósanngjarnir við þig?

13 Leyfðu Jehóva að gera þig að betri manni. Hvað áttu að gera ef aðrir eru ósanngjarnir við þig? Kannski geturðu greitt fljótt úr málinu. En stundum gerir maður illt verra með því að reyna að verja sig af krafti. Bræður Jósefs fóru illa með hann en hann bar samt engan kala til þeirra. Seinna var hann borinn röngum sökum og varpað saklausum í fangelsi. Hann leyfði Jehóva að leiðbeina sér á erfiðleikatímum. Hvað hafði það í för með sér? „Orð Drottins létu hann standast raunina.“ (Sálm. 105:19, Biblían 1981) Þegar prófraunirnar voru á enda var hann hæfur til að taka að sér sérstakt verkefni. (1. Mós. 41:37-44; 45:4-8) Þegar þú ert að glíma við flókin vandamál skaltu biðja Jehóva um visku, vera mildur í framkomu og tali og sækja styrk til Jehóva. Hann hjálpar þér. – Lestu 1. Pétursbréf 5:10.

TAKTU FRAMFÖRUM Í BOÐUNINNI

14, 15. (a) Hvers vegna þurfum við að hafa gát á fræðslunni? (b) Hvernig geturðu lagað þig að breyttum aðstæðum? (Sjá mynd í upphafi greinar og rammagreinina „ Ertu fús til að prófa aðra aðferð?“)

14 Páll hvatti Tímóteus með eftirfarandi orðum: „Ver kostgæfinn við að lesa upp úr Ritningunni, uppörva og kenna þangað til ég kem. Haf gát á sjálfum þér og fræðslunni.“ (1. Tím. 4:13, 16) Tímóteus var þá þegar reyndur boðberi fagnaðarerindisins. En aðeins með því að hafa stöðugt gát á fræðslunni myndi hann ná árangri í boðuninni. Hann mátti ekki ganga að því sem gefnum hlut að fólk brygðist vel við þegar hann notaði þær boðunaraðferðir sem hann var vanur. Til að ná til hjartna fólks þurfti hann að sníða kennsluaðferðir sínar að þörfum þess. Við þurfum að gera það líka þegar við boðum fagnaðarerindið.

15 Oft er enginn heima þegar við bönkum upp á hjá fólki. Sums staðar megum við ekki fara inn á viss afgirt íbúðarsvæði eða inn í fjölbýlishús. Ef því er þannig farið þar sem þú býrð væri kannski ráð að reyna nýjar leiðir til að boða fagnaðarerindið.

16. Hvernig getur boðun meðal almennings reynst árangursrík?

16 Boðun meðal almennings er frábær leið til að breiða út fagnaðarboðskapinn. Margir vottar hafa náð góðum árangri í þessu starfi. Þeir taka sér reglulega tíma til að spjalla við fólk á lestarstöðvum, strætóbiðstöðvum, mörkuðum, útivistarsvæðum og öðrum almenningssvæðum. Vottur getur bryddað upp á samræðum eftir því sem við á með því að minnast á eitthvað sem er ofarlega á baugi, hrósa barni viðkomandi eða spyrja vinnandi mann út í vinnu hans. Þegar líður á samræðurnar getur boðberinn bent á atriði úr Biblíunni sem kalla á viðbrögð. Ef viðkomandi tjáir sig skapast oft umræður um Biblíuna.

17, 18. (a) Hvernig geturðu orðið öruggari þegar þú boðar trúna meðal almennings? (b) Hvernig getur viðhorf Davíðs verið þér hvatning þegar þú boðar fagnaðarerindið?

17 Leggðu ekki árar í bát ef þér finnst erfitt að boða fagnaðarerindið meðal almennings. Eddie er brautryðjandi í New York-borg. Hann var hikandi í fyrstu að ræða við fólk á götum úti en með tímanum jókst honum kjarkur. Hvað hjálpaði honum? Hann segir: „Við hjónin notum stund í fjölskyldunáminu til að finna út úr því hvernig við getum svarað þegar fólk kemur með mótbárur og tjáir skoðanir sínar. Við biðjum líka aðra votta um uppástungur.“ Núna hlakkar Eddie til að boða trúna meðal almennings.

18 Þegar þú verður öruggari og færari í að boða fagnaðarerindið verða framfarir þínar augljósar. (Lestu 1. Tímóteusarbréf 4:15.) Og það sem meira er, þú munt lofa föður okkar á himnum, rétt eins og Davíð gerði. Hann söng: „Ég vil vegsama Drottin alla tíma, ætíð sé lof hans mér í munni. Sál mín hrósar sér af Drottni, hinir hógværu skulu heyra það og fagna.“ (Sálm. 34:2, 3, Biblían 1981) Það má vel vera að hógvært fólk taki fagnandi við boðskapnum og fari að tilbiðja Jehóva með þér.

VEGSAMAÐU GUÐ MEÐ ÞVÍ AÐ TAKA FRAMFÖRUM

19. Hvers vegna getur trúr þjónn Jehóva verið hamingjusamur þótt hann búi við erfiðar aðstæður?

19 Davíð söng enn fremur: „Öll verk þín lofa þig, Drottinn, og dýrkendur þínir vegsama þig. Þeir segja frá dýrð ríkis þíns og tala um mátt þinn til að boða mönnum veldi þitt, hina dýrlegu hátign konungdæmis þíns.“ (Sálm. 145:10-12) Þessi orð tjá tilfinningar allra votta Jehóva sem þjóna honum dyggilega. En segjum að veikindi eða hár aldur setji þér skorður í þjónustu Guðs. Mundu þá að þú vegsamar Guð með heilagri þjónustu þinni þegar þú boðar trúna fólki sem annast þig eða öðrum sem þú hittir. Ef þú ert í fangelsi vegna trúar þinnar talarðu sennilega um sannleikann við aðra þegar færi gefst og það gleður hjarta Jehóva. (Orðskv. 27:11) Jehóva gleðst líka þegar þú heldur þínu striki í sannleikanum þótt fjölskylda þín sé ekki í trúnni. (1. Pét. 3:1-4) Þú getur lofað Jehóva og tekið framförum í þjónustu hans jafnvel við erfiðar aðstæður.

20, 21. Hvernig geturðu verið öðrum til blessunar ef þér er trúað fyrir fleiri verkefnum í söfnuði Jehóva?

20 Jehóva blessar þig ef þú heldur áfram að taka framförum í þjónustu hans. Með því að skipuleggja daginn aðeins öðruvísi eða breyta lífsstílnum smávegis geturðu ef til vill gert meira til að segja vondaufu fólki frá sannleikanum. Trúsystkini þín geta líka haft ómælt gagn af fórnfýsi þinni og framförum. Þar sem þú leggur þig auðmjúklega fram í söfnuðinum máttu vera viss um að trúsystkini þín elska þig, meta og styðja.

21 Öll getum við tekið framförum í þjónustu Jehóva, hvort sem við höfum þjónað honum í mörg ár eða bara fáeina mánuði. En hvernig geta þroskaðir kristnir menn hjálpað nýjum að taka framförum í þjónustunni? Því er svarað í næstu grein.